Afbragðsverk „Að mati gagnrýnanda er hér um að ræða afbragðsverk, jafnsterkt, ef ekki sterkara en Aprílsólarkuldi,“ segir meðal annars í gagnrýni um nýútkomna bók Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilm.
Afbragðsverk „Að mati gagnrýnanda er hér um að ræða afbragðsverk, jafnsterkt, ef ekki sterkara en Aprílsólarkuldi,“ segir meðal annars í gagnrýni um nýútkomna bók Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilm. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elísabetu Jökulsdóttur. JPV 2022. 138 bls. innbundin.

Nýtt verk Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilmur , helst að mörgu leyti í hendur við hennar síðasta verk Aprílsólarkulda , sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2020. Verkin tala saman þó að þau séu um margt ólík. Í Aprílsólarkulda var frásögnin af sögupersónunni Védísi í þriðju persónu en í Saknaðarilmi færist frásögnin yfir í fyrstu persónu. Frásögninni er skipt niður í fleiri styttri og ljóðrænni kafla öfugt við þá óreiðu sem ríkti í hugarheimi Védísar í lengri köflum Aprílsólarkulda . Frásögnin flakkar þó fram og til baka í tíma en er þrátt fyrir það auðlesnari en bókin Aprílsólarkuldi , að mati gagnrýnanda.

Í Saknaðarilmi segir frá sambandi sögumanns, sem er freistandi að fella saman við höfundinn sjálfan, við móður sína og dauða hennar. Sögumaður lýsir sömu andlegu veikindum og Védís glímir við í Aprílsólarkulda , en Elísabet hefur sjálf upplýst að Védís sé í raun hún sjálf í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni árið 2020. Þá er bókin í raun kirfilega staðsett í þeim raunveruleika, þar sem gjarnan er vísað í ýmsar þekktar dagsetningar, fjölskyldumeðlimi Elísabetar og verk móður hennar. Því má í raun flokka Saknaðarilm sem einhvers konar skáldævisögu, líkt og verkið Aprílsólarkulda .

Textar mæðgnanna mynda táknrænt samband í bókinni en um leið ákveðna margröddun, þar sem þeim ber ekki alltaf saman um einstök atriði. Gott dæmi um slíkt er þegar sögumaður kemst í dagbók móður sinnar, eftir hennar dag, sem lýsir upplifun hinnar síðarnefndu af veikindum dóttur sinnar. Þessi margröddun er að mati gagnrýnanda afbragðs leið til að sviðsetja flókið samband mæðgnanna, sem er aftur kjarni frásagnarinnar allrar. Margröddunin verður svo í raun nokkurs konar tónverk mæðgnanna sem vísar til margbreytileika sjálfsins og rauna þess, þegar höfundur skrifar á blaðsíðu 109:

„Eitt sinn á fullorðinsárum kom ég um kvöld til mömmu og sagðist uppgefin á því hvað ég breyttist eftir því við hvern ég talaði, mamma varð yfir sig undrandi: Hvað á þetta að þýða, auðvitað og sem betur fer breytistu eftir því við hvern þú talar. Þetta er einsog tónlist; þetta lag verður til þegar þú talar við þennan og annað lag verður til þegar þú talar við einhvern annan. Það er mismunandi tónlist á milli fólks. Í einu vetfangi breyttist ég úr því að vera óviss karakter í að sjá heiminn allan eins og tónverk.“

Móðir Elísabetar hafði sterkar taugar til Mið-Austurlanda. Hún skrifaði bækur um menningu þeirra þjóða og fór reglulega í ferðir austur. Í Saknaðarilmi er að finna myndir af Saddam Hussein og Assad Sýrlandsforseta sem prýddu veggi móðurinnar, saffranilm, litríkt silki og ýmsa slíka muni sem skapa sér sérstakan sess í frásögninni. Þetta minnir um margt á hvernig við minnumst látinna ástvina – við hugsum til svipmynda, lita og ilms sem minna okkur á viðkomandi. Hver manneskja getur því samsamað sig sögumanni sem lýsir tilfinningu sem við þekkjum öll – söknuði.

Áföll sögumannsins, eins og fráfall móður hennar, eru hlutgerð í sögunni og staðsett í ýmsum hlutum líkamans. Til dæmis í „maganum“ eða í „píkuveggjunum“. Gagnrýnanda fannst þetta afar áhugaverð nálgun á tráma og í takt við samfélagsumræðu samtímans um líkamleg áhrif áfalla, líkt og Bessell van de Kolk skrifar um í bók sinni The Body Keeps the Score frá 2014. Slíkar hugmyndir hafa rutt sér til rúms innan bókmenntafræðinnar og myndmál höfundar því bæði nýstárlegt en einnig lýsandi fyrir þessa tilfinningu sem við þekkjum öll – kökkur í hálsi og steinn í maga.

Í Saknaðarilmi eiga mæðgurnar erfitt með að mynda tengsl sín á milli og spila arfleidd áföll þar stórt hlutverk. Brostin sambönd mæðgna sem sögumaður fjallar um í kaflanum Tvær gamlar konur í feðraveldinu þegar hún segir: „Tvær konur að eyðileggja hvor aðra, móðir og dóttir, eyðilegging innan frá.“ (bls. 76.) Hinar brostnu forsendur eru því aldagamlar og fornar og ekki aðeins uppspretta einfalds samskiptavanda. Höfundur setur hugmynd þessa fram á myndrænan hátt þegar sögumaður veltir fyrir sér hvort þykk flauelsgluggatjöld ömmu hennar sem hangið hafa í glugganum í þrjátíu ár hafi byrgt sér og móður sinni sýn. Tengsl mæðgnanna eru ekki einföld, líkt og flest í þessum heimi, og minnist sögumaður móður sinnar bæði með trega og sársauka. Þó svo að móðirin hafi á tímum verið sögumanni ósanngjörn talar sögumaðurinn líka um að vissar ákvarðanir móðurinnar, eins og að svipta sögumann sjálfræði og leggja hann inn á geðdeild, hafi í raun bjargað lífi hennar, eftir á að hyggja.

Að mati gagnrýnanda er hér um að ræða afbragðsverk, jafnsterkt, ef ekki sterkara en Aprílsólarkuldi , sem sýnir flókið samband mæðgna sem mörg geta samsamað sig við. Saknaðarilmur er kraftmikil og falleg en á sama tíma nístandi og hörð ádeila á samfélagið sem mótaði félagslegar fyrirmyndir okkar. Í kraftmikilli lokalínu bókarinnar kjarnar höfundur efni bókarinnar á listilegan hátt: „[...] og ég skil það allt í einu þegar ég skrifa þessa bók, að til þess að við næðum sambandi hefði heilt samfélag þurft að breytast.“ (Bls. 134.)

Ingibjörg Iða Auðunardóttir