Hreyfiskúlptúr Verk Unndórs Egils, „Hefilspónadrífa“, er vandað verk úr birki sem af snjóar fisléttum hefilspæni. „Verk hans eru gjarnan ljóðræn en ef betur er að gáð má greina dýpri undirtón og þankadrífandi tilvísanir.“
Hreyfiskúlptúr Verk Unndórs Egils, „Hefilspónadrífa“, er vandað verk úr birki sem af snjóar fisléttum hefilspæni. „Verk hans eru gjarnan ljóðræn en ef betur er að gáð má greina dýpri undirtón og þankadrífandi tilvísanir.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásmundarsafn við Sigtún. Sýningarstjórar: Aldís Snorradóttir og Edda Halldórsdóttir. Opið er alla daga kl. 13-17.

Hefð hefur skapast fyrir því að Listasafn Reykjavíkur standi fyrir sýningum í Ásmundarsafni þar sem listamenn eiga í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar og/eða safnbygginguna. Má þá nefna „Innrásir“, sýningar fimm starfandi listamanna árið 2018 og fimm skúlptúrainnsetningar sem unnar voru í tengslum við ár listar í almannarými árið 2019. Þegar Ásmundarsafn var opnað að nýju eftir endurbætur í maí 2021 var sett upp sýningartvenna sem hélt þessari samræðu gangandi með uppteknum hætti. Má þá segja að ný óformleg sería hafi myndast og er sýningin með verkum Unndórs Egils Jónssonar nú, Eftir stórhríðina , hluti af því megni.

Heiti sýningarinnar vísar til heimildar um verk sem Ásmundur vann í Kaupmannahöfn og ýjar að pólitískri undiröldu sýningarinnar. Samtal þessara tveggja listamanna, Ásmundar og Unndórs, hefst á speglun titilsins við innsetningu Unndórs „Hefilspónadrífa“, sem er hringrásar-, færibanda- hreyfiskúlptúr úr birki sem framkallar fallandi snjókomu úr fisléttum hefilspæni. Eins eru þau fjölmörgu önnur verk sem prýða sýninguna þess eðlis að draga saman einkennandi stef þessara tveggja listamanna, efnisnotkun, notkun á hreyfingu, og þeirra sameiginlegu andagift frá móður náttúru. En að mínu mati hljóðnar þó fljótt yfir samtalinu þrátt fyrir viðleitni sýningarstjóra við að draga fram sameinandi áhrif og verklag listamannanna.

Djúpur undirtónn

Unndór vinnur einkum með við, þá birki, í verkum sínum og þar skarast hönnun, myndlist og trésmíði. Verk hans eru gjarnan ljóðræn en ef betur er að gáð má greina dýpri undirtón og þankadrífandi tilvísanir. Í verkum Ásmundar eru áberandi samfélagslegar skírskotanir, ásamt tilvísunum í söguna með bæði stóru og litlu essi. Leiðir listamannanna tveggja til að vekja athygli á málefnum líðandi stundar eru því mjög ólíkar þrátt fyrir áðurnefnd sameinandi stef. Ólíkt undangengnum sýningum þar sem samtalið við verk Ásmundar var fremur greinilegt og skýrt, þá kveður hér við annan tón. Verk sýningarinnar eru áhugaverð en stefnumót listamannanna er því miður ekki sannfærandi. Eins eru verk Ásmundar töluvert fleiri, en færri verk hefðu mögulega styrkt hugmyndaramma sýningarinnar sem er fremur almennur. Það má segja að ég hafi saknað þess að trén væru greind frá skóginum í þessu samhengi.

Tenging við birkitrén

Þegar ég var á leið af sýningunni tók ég eftir því að skúlptúr Ásmundar „Tónar hafsins“ stendur við verðlaunað birkitré í garðinum, en minni útgáfa skúlptúrsins er í sýningarsalnum. Í kjölfarið velti ég því fyrir mér hvort það hefði mátt tengja betur sýningarsvæðið úti við sýningarsalinn inni. Einn skemmtilegur angi sýningarinnar sem minnst er á í sýningarskrá en hefði mátt bera meira á í sýningunni er samvinna safnsins við Landgræðslu Íslands. Þar er birkitrjánum sem Ásmundur og fjölskylda hans sáðu og umkringja safnið gefinn sérstakur gaumur sem og notkun, sáningu og ræktun birkisins sem vegur þungt í verkum og hjartastað Unndórs. Auðvelt að missa af þessari tengingu án frekari tilvísunar eða leiðsagnar innan sýningarinnar. En þrátt fyrir óljóst samtal listamannanna og vensl hugmynda býður sýningin upp á tækifæri til að sjá valin verk eftir Ásmund og vandaðar innsetningar Unndórs, en önnur þeirra, „Hefilspónadrífa“, var sérstaklega hugsuð og hönnuð fyrir rýmið í Ásmundarsafni.

Höfundur er listfræðingur.

Karina Hanney Marrero