Þórsteinn Arnar Jóhannesson fæddist á Hóli í Höfðahverfi 18. júlí 1941. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 26. október 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Jóhannes Jónsson, f. 1904, d. 1999, bóndi á Hóli í Grýtubakkahreppi, og Sigrún Guðfinna Guðjónsdóttir, f. 1905, d. 1989, húsfreyja. Þórsteinn ólst upp á Hóli og var sjötti í röð átta systkina, hin eru Árni, f. 1929, d. 2018; Sigríður, f. 1932, d. 2014; Jón Valgarður, f. 1933, d. 2021; Sveinn, f. 1937; Halldór, f. 1939, d. 2002; Anna, f. 1944; og Tómas, f. 1953.

Þórsteinn giftist Rósu Jónu Jóakimsdóttur, f. 27. febrúar 1946, hinn 5. september 1965. Börn þeirra eru: 1) Guðjón Arnar, f. 2.7. 1968, vinkona hans er Þóra Kristín Snjólfsdóttir, f. 13.6. 1973. Sonur Guðjóns og Emmu Bjarkar Jónsdóttur, f. 21.1. 1978, er Patrekur Arnar, f. 18.5. 1999. 2) Guðrún Rósa, f. 27.3. 1970, maður hennar er Ragnar K. Ásmundsson, f. 31.3. 1970. Börn þeirra eru Ásmundur Smári, f. 30.5. 1999, í sambúð með Kolbrúnu Ósk Jóhannsdóttur, f. 30.12. 1998, Þórsteinn Atli, f. 10.2. 2004, Elín Rósa, f. 18.8. 2006, og Magni Rafn, f. 27.5. 2010. 3) Sigrún Magna, f. 2.8. 1973, maður hennar er Snorri Snorrason, f. 5.4. 1971. Sonur þeirra er Hákon Geir, f. 29.4. 2013. 4) Heiðrún Harpa, f. 3.8. 1979. Maður hennar er Haukur Sigurjónsson, f. 8.6. 1977. Börn þeirra eru Björg Malena, f. 2.1. 2006, og Mikael Breki, f. 28.4. 2011.

Þórsteinn gekk í grunnskóla á Grenivík og fór svo í Héraðsskólann á Laugum og lauk þaðan gagnfræðaprófi vorið 1960. Þórsteinn vann ýmis störf á sínum yngri árum. Má þar nefna sveitastörf heima á Hóli og vetrarvertíðir m.a. í Vestmannaeyjum, á Hornafirði og í Grindavík. Í maí 1966 urðu þáttaskil í lífi hans þegar þau Rósa hófu búskap á Garðsá í Öngulsstaðahreppi. Þau keyptu síðan jörðina Bárðartjörn vorið 1972 og bjuggu þar síðan. Þórsteinn stóð vaktina við bústörfin nánast til síðasta dags. Hann vann ýmis störf meðfram búrekstrinum og var m.a. sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga í 22 ár. Þá gegndi hann margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum fyrir sveitunga sína. Hann var hreppstjóri um 20 ára skeið, sat í sveitarstjórn sem oddviti tvö kjörtímabil og var virkur í fjárræktarfélaginu og í Lionshreyfingunni svo eitthvað sé nefnt.

Útför Þórsteins Arnars var gerð í kyrrþey frá Grenivíkurkirkju hinn 5. nóvember 2022 að hans eigin ósk.

Við systkinin vorum einstaklega heppin með pabba. Hann var allt sem við óskuðum okkur. Núna þegar leiðir skilur þá er svo margt sem við vildum sagt hafa, en Guðrún Sigurbjörnsdóttir orðar hugsanir okkar ákaflega fallega í þessu ljóði:

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Hvíl í friði.

Guðrún, Sigrún, Heiðrún og Guðjón.

Tengdafaðir minn á Bárðartjörn er látinn. Þekktur sem Bóbi en ég átti svolítið erfitt með það gælunafn fyrstu árin eftir að við hjónin tókum saman. Tápmikill maður, kvikur í hreyfingum og snöggur að hugsa, afar minnisgóður og athugull á sitt umhverfi. Betri ferðafélagi fékkst ekki, hvort sem var um landið eða erlendis. Fyndin tilsvör voru hans sérgrein, yfirleitt til að auðga umræðuna og krydda samtölin, en stundum bara til að gantast. Sem faðir var hann laginn við að hlusta vandlega og veita uppbyggileg ráð, þó aldrei til að hafa áhrif á hvert börnin stefndu í námi eða starfi.

Rætur hans eru djúpar í Eyjafirði, en þau hjónin Þórsteinn og Rósa eru þar bæði fædd og uppalin og stunduðu sinn búskap á Bárðartjörn. Á yngri árum stundaði hann sjómennsku víða um land, t.d. við Vestmannaeyjar og Höfn í Hornafirði. Með bústörfum var hann lengi sparisjóðsstjóri Höfðhverfinga. Hann tók að sér mörg félags- og trúnaðarstörf, enda traustsins verður.

Þrátt fyrir ýmis áhugamál; fjölskyldan, ættfræði, íþróttir, hestamennska, dægurmál, náttúruvísindi, jarð- og veðurfræði, sagnfræði, Íslendingasögur, skáldsögur og vísur, þá var sauðfjárræktin líf hans og yndi. Hverja einustu á þekkti hann með nafni, frá hvaða ári sem var. Nytjar fengust af túnum með réttum áburði, á mörkum túndru og skriðuhlíða. Þórsteinn stóð sína vakt nú í vor í sauðburði, líkt og öll árin á undan. Í þetta sinn var krabbameinið farið að taka sinn toll og í fyrsta sinn sást eitthvað gefa eftir – hinn unglegi skrokkur tók að bregðast. Andlegur styrkur lét þó aldrei undan.

Nú á dögum þegar sjálfbærni er sífellt mikilvægari mætti segja að Þórsteinn hafi lifað sjálfbæru lífi. Hann var nægjusamur og laginn við að láta hluti endast, eða virka með hans hætti. Það er reyndar ekki skrýtið að hlutirnir entust, því vandað var til verka í upphafi og við val á tækjum og tólum. Hann mátti vel við una; vel giftur, fjögurra barna faðir og tvöfalt fleiri afabörn. Oft var annasamt, en strit var í hans huga ekki vandamál. Þau hjónin voru ósigrandi saman.

Ég er stoltur af því að hafa svo lengi þekkt þennan gáfaða, fróða og stórskemmtilega mann, síungan í orði og æði. Barnabörnin löðuðust að honum, enda þekkti hann vel hvað þau voru að bauka á hverjum tíma og spurði réttu spurninganna til að fá langar litríkar lýsingar.

Ragnar.

Við þökkum fyrir þær stundir sem við fengum með afa, fyrir hláturinn og fyrir spjallið. Það er ómetanlegt að hafa fengið að spyrja og fræðast um æsku afa og uppvöxt hans og bera saman við okkar. Hann svaraði öllum spurningum en nýtti hvert tækifæri til að grínast í leiðinni. Það var alltaf stutt í grínið hjá afa og það einkenndi hann fram á síðasta dag. Það var aldrei neitt stress í kringum afa og okkur leið alltaf vel í kringum hann.

Aldrei heyrðum við afa kvarta og aldrei sáum við hann reiðan. Hann sýndi okkur alltaf mikinn áhuga, þolinmæði og skilning. Hann var einnig góður leiðbeinandi í sveitastörfum og það var afar skemmtilegt að vera með honum úti í fjárhúsum. Þar hangir engin klukka enda á tíminn það til að líða hraðar þegar maður er þar inni með afa. Það var augljóst að afa þótti vænt um dýrin í sveitinni og þeim þótti vænt um hann. Það eru forréttindi að hafa fengið að vera partur af sveitalífinu á Bárðartjörn, fara í göngur og réttir og hjálpa til í sauðburði.

Minningin um afa mun alltaf lifa með okkur.

Ásmundur, Þórsteinn, Elín Rósa og Magni.