Bakhmút Úkraínskir hermenn sjást hér á bryndreka í nágrenni Bakhmút, en þar fara nú harðir bardagar fram.
Bakhmút Úkraínskir hermenn sjást hér á bryndreka í nágrenni Bakhmút, en þar fara nú harðir bardagar fram. — AFP/Bulent Kilic
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Hershöfðinginn Valerí Salúsjní, yfirmaður Úkraínuhers, lýsti því yfir í gær að Úkraínumenn hefðu endurheimt tólf þorp og bæi í Kerson-héraði eftir að Rússar lýstu því yfir að þeir ætluðu að færa herlið sitt frá vesturbökkum Dnípró-fljótsins.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Hershöfðinginn Valerí Salúsjní, yfirmaður Úkraínuhers, lýsti því yfir í gær að Úkraínumenn hefðu endurheimt tólf þorp og bæi í Kerson-héraði eftir að Rússar lýstu því yfir að þeir ætluðu að færa herlið sitt frá vesturbökkum Dnípró-fljótsins.

Sagði Salúsjní á samfélagsmiðlum sínum að Úkraínuher hefði náð að frelsa um 200 ferkílómetra svæði í Kerson-héraði undan Rússaher á undanförnum sólarhring, en Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, fyrirskipaði Sergei Súróvíkin, yfirmanni allra herja Rússa í Úkraínu, í fyrradag að hefja brottflutning herliðs frá borginni.

Rússneska varnarmálaráðuneytið lýsti því svo yfir í gær að brottflutningurinn væri hafinn, en talsmaður þess forðaðist vandlega að gefa til kynna að um flótta væri að ræða, heldur væri herliðið einfaldlega að færa sig í varnarstöðu á austurbakka fljótsins.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa hins vegar tekið yfirlýsingum Rússa með mikilli varúð. Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði til dæmis í fyrrakvöld að mögulega væri um að ræða tilraun Rússa til þess að lokka Úkraínuher í harða og blóðuga bardaga á götum Kerson-borgar.

Tækifæri til viðræðna?

Talsmenn Úkraínuhers sögðu í gær að þeir gætu ekki staðfest hvort brottflutningur rússneska herliðsins væri hafinn eða ekki. Mark Milley, yfirmaður bandaríska herráðsins, sagði hins vegar í fyrrakvöld að fyrstu vísbendingar bentu til þess að svo væri. Rússar hefðu þó 20.000-30.000 hermenn í borginni, og að það gæti tekið nokkrar vikur að hörfa með þá.

Milley sagði einnig að hann teldi að Rússar vildu nú reyna að forðast frekara mannfall og setja upp varnarlínu hinum megin við ána. Áætlaði Milley að Rússar hefðu misst meira en 100.000 manns í Úkraínustríðinu til þessa þegar fallnir og særðir væru taldir saman, og að líklega hefðu Úkraínumenn mátt þola svipað mannfall. Þá hefðu um 40.000 óbreyttir borgarar líklega fallið eða særst frá upphafi innrásarinnar.

Milley gaf einnig til kynna að nú væri tækifæri til þess að hefja friðarviðræður til að binda enda á stríðið, en að forsenda slíkra viðræðna væri að hvorug hlið teldi sig geta náð hernaðarlegum árangri.

Selenskí lýsti því yfir fyrir sitt leyti í fyrradag að hann væri opinn fyrir friðarviðræðum við Rússa, en skilyrði sín væru að Rússar myndu skila öllu því landi sem þeir hefðu hertekið, greiða stríðsskaðabætur og að þeir yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi sína í Úkraínu, en ólíklegt er talið að rússnesk stjórnvöld samþykki þau skilyrði.

Verja ákvörðunina

Kerson var ein fyrsta borgin sem Rússar náðu á sitt vald í innrásinni í febrúar, en hún er jafnframt eina héraðshöfuðborgin sem þeir hafa náð að hertaka. Brottflutningur Rússa frá borginni er talinn nokkurt áfall fyrir Rússa og ekki síst Vladimír Pútín Rússlandsforseta, en Kerson-hérað er eitt fimm héraða Úkraínu sem Pútín hefur lýst yfir að tilheyri nú Rússlandi.

Nái Úkraínumenn að frelsa héraðið gætu þeir þrengt mjög að stöðu Rússa á Krímskaga, auk þess sem „landbrúin“ á milli Rússlands og Krím yrði þá rofin.

Tveir af stuðningsmönnum Pútíns í Moskvu hafa lýst yfir stuðningi sínum við þá ákvörðun að draga herliðið til baka. Margaríta Simoyan, yfirmaður rússneska ríkisfjölmiðilsins RT, sagði þannig að hún væri nauðsynleg til þess að rússneska herliðið yrði ekki berskjaldað á vesturbakka Dnípró-fljótsins og einnig til að verja leiðina til Krímskaga. Þá sagði Ramsan Kadírov, leiðtogi Téténa, að ákvörðunin væri „erfið en sanngjörn“, en Kadírov hefur áður brugðist við skakkaföllum Rússa í stríðinu með því að kalla eftir hertum hernaðaraðgerðum og jafnvel því að „taktísku“ kjarnorkuvopni verði beitt í Úkraínu.

Annar sigur fyrir Úkraínu

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, lýsti því yfir í gær að hann vildi bíða og sjá hvað Rússar gerðu, en ef það væri staðfest að þeir væru að hörfa frá Kerson-borg væri það „annar sigur fyrir Úkraínu“ í stríðinu.

Hrósaði Stoltenberg sérstaklega úkraínskum hermönnum fyrir hugrekki sitt, og að þeim bæri að þakka þann árangur sem Úkraínuher hefði náð við að frelsa úkraínskt land undan hernámi Rússa. Hann bætti við að stuðningur bandalagsríkjanna við Úkraínu hefði skipt miklu máli og myndi áfram gera það.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson