Bækur
Rósa Margrét Tryggvadóttir
Emil Hjörvar Petersen stígur enn og aftur á slóðir hins dulræna í hrollvekjandi spennusögunni Dauðaleit. Líkt og í síðustu skáldsögu sinni, Hælinu, gerist Dauðaleit að mestu leyti á æskuslóðum höfundar, í Kópavogi en yfirnáttúruleg og dulræn öfl marka söguna sérstaklega rétt eins og aðrar sögur Emils, Víghólar, Ó Karítas og Hælið.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Halldór Kjartansson er aðalsöguhetjan sem fær á sitt borð undarlegt mál þar sem unglingsstúlka hverfur í undirgöngunum í Hamraborg í Kópavogi með afar dularfullum hætti - nánast eins og jörðin hafi gleypt hana. Málið grefur þó upp skugga fortíðar, atvik sem hefur markað líf Halldórs frá barnæsku þegar besti vinur hans hvarf með svipuðum hætti á sama stað árið 1994 á meðan Halldór var með honum. Vinurinn fannst aldrei og hefur Halldór í raun ekki náð að vinna úr atvikinu að fullu. Hann fær í kjölfarið yfirdrifinn áhuga á því dulræna og sérhæfir sig á fullorðinsaldri í mannshvörfum hjá lögreglunni þar sem samstarfsfélagar kunna misvel að meta þennan óvísindalega áhuga hans. Halldór er þó sannfærður um að dulrænu öflin, sem hann trúir að hafi komið að hvarfi vinar hans, hafi einnig tekið stúlkuna og ákveður að fara eigin leiðir í rannsókninni - með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Halldór uppgötvar fljótt að fleiri dularfull mannshvörf tengjast máli ungmennanna tveggja.
Dauðaleit heldur manni alveg frá upphafi til enda og fær mann aðeins til að svitna inni á milli en þó ekki þannig að það hafi áhrif á svefn. Eitthvað er um klisjur í bókinni en höfundur hnýtir vel alla enda í söguþræðinum og svarar flestum þeim spurningum sem lesandi fær við lesturinn. Sagan er að mörgu leyti fremur einföld og fær lesandi ekki mikið rými til geta í eyðurnar eða ímynda sér og er að sumu leyti mataður af upplýsingum. Bókin er þó fyrir vikið auðlesin en stíll höfundar er afar þægilegur, auðvelt að koma sér inn í bókina og festast í söguþræðinum. Það mætti segja að einfaldleikinn henti hljóðbókarforminu nokkuð vel en lesandi á auðvelt með að gera eitthvað annað á meðan á hlustun stendur án þess að detta auðveldlega út.
Ofanrituð naut þess að lesa bókina „með eyrunum“ en gluggaði af og til í önnur form hennar en hún kom fram í þremur formum, sem hljóðbók, rafbók og innbundin. Bókin er frábær hljóðbók enda er Hjörtur Jóhann Jónsson, sem les bókina inn á Storytel, frábær lesari og kemur sögunni, sem er sögð í þriðju persónu út frá upplifun Halldórs, vel frá sér.
Drungalegar sögur af svæðinu
Höfundur lýsir umhverfi listilega vel og virðist hafa kynnt sér mikilvægar staðsetningar í sögunni, eins og Hamraborg, vel og hjálpar lesanda þannig að sjá staðsetninguna ljóslifandi fyrir sér. Höfundur sækir efnivið sinn einnig í raunverulegar gamlar þjóðsögur sem eiga að hafa gerst í Hamraborg og á svæðinu í kring og fléttar þær með skemmtilegum hætti inn í söguna.
Flogaveiki kemur víða við sögu í bókinni en höfundur virðist einnig hafa kynnt sér nokkuð vel ýmis einkenni sem flogaveikir geta upplifað sem spila stóran og áhugaverðan part í sögunni.
Persónur sögunnar eru margar með áhugaverða sögu og tengjast margar í gegnum áföll í æsku en þær eru þó margar, aðrar en aðalpersónan Halldór, fremur grunnar svo lesandi getur átt erfitt með að tengjast þeim.
Fullkomin afþreying með heimilisstörfunum
Dauðaleit er skemmtileg afþreying og frábær fyrir þá sem hafa gaman af léttum hrollvekjum og glæpasögum og er fullkomin til að stytta sér stundir yfir heimilisstörfunum.
Ég átti erfitt með að slíta mig frá söguþræðinum og hafði gaman af því að fá létta gæsahúð á nokkrum stöðum í sögunni. Hún skilur þó ekkert sérstaklega mikið eftir sig en er frábær til dægrastyttingar og óhætt að mæla með henni fyrir hrollvekju- og spennusagnaaðdáendur.