Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ræddu nokkuð um stöðuna á vinnumarkaði á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í gærmorgun. Bjarni sagði í umræðum undir lok fundarins að þær kröfur sem komið hafa fram af hálfu verkalýðshreyfingarinnar væru óraunhæfar og í engu samræmi við stöðuna í hagkerfinu.
Ásgeir benti í fyrirlestri sínum á og ítrekaði í umræðum að það skipti engu máli hvað aðilar vinnumarkaðarins semja um ef Seðlabankinn stendur ekki að baki þess fjármagns sem samið er um. Það myndi ekki skila sér í auknum kaupmætti. Hann sagði jafnframt að verkalýðsfélögin yrðu að átta sig á því að þjóðin gæti ekki verið áskrifandi að ákveðnum kaupmætti.