Vopn - vopnaburður fanga
Vopn - vopnaburður fanga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir grafalvarlega þróun eiga sér stað innan fangelsa landsins með auknu ofbeldi og vopnaburði fanga, líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær. Fangaverðir kalla eftir aukinni þjálfun og varnarbúnaði og hyggst ráðherra svara kallinu. Hann segir öryggi fangavarða, líkt og lögreglu, í hæsta forgangi.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir grafalvarlega þróun eiga sér stað innan fangelsa landsins með auknu ofbeldi og vopnaburði fanga, líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær. Fangaverðir kalla eftir aukinni þjálfun og varnarbúnaði og hyggst ráðherra svara kallinu. Hann segir öryggi fangavarða, líkt og lögreglu, í hæsta forgangi.

„Það sem á sér stað innan veggja fangelsa endurspeglar þá þróun sem við verðum nú vitni að í samfélaginu. Ég hef verið í miklu samtali við fangelsisyfirvöld og það er ljóst að bregðast þarf við á mörgum sviðum,“ segir Jón og bendir t.a.m. á miklar fyrirhugaðar endurbætur á Litla-Hrauni, sem munu að líkindum kosta um 2,5 milljarða króna. Munu þær auðvelda vinnu fangavarða við að aðskilja hópa sem eiga í deilum sín á milli og stórbæta allan aðbúnað starfsfólks og gesta.

Rafbyssur til skoðunar

Jón segist munu efla varnarbúnað fangavarða á næstunni, líkt og hann hefur í hyggju að gera fyrir lögregluna. Nefnir hann í því samhengi högg- og hnífavesti auk þess sem „vel komi til skoðunar“ að veita fangavörðum aðgengi að rafbyssum, svonefndum Taser. Hafa bæði fangaverðir og lögreglumenn óskað eftir þessum sama varnarbúnaði. Samhliða þessu verður þjálfun aukin.

„Við verðum nú ítrekað vitni að alvarlegum atvikum í fangelsum landsins. Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að útbúa okkar fólk þannig að öryggi þess sé sæmilega tryggt í vinnunni. Og það gerum við ekki öðruvísi en með auknum varnarbúnaði. Samhliða þarf svo að vinna að skipulagsmálum, enda ekki hægt að sætta sig við að málum sé leyft að þróast áfram með þessum hætti innan fangelsanna,“ segir Jón.

Vísar dómsmálaráðherra þarna m.a. til þess sem fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í gær, fimmtudag. Þar var rætt við fangelsismálastjóra, forstöðumann fangelsisins á Hólmsheiði og varðstjóra í sama fangelsi. Þeir höfðu allir sömu sögu að segja, þ.e. ofbeldi og vopnaburður meðal fanga hefur aukist mjög innan veggja fangelsa landsins. Er nú svo komið að fangaverðir finna nær vikulega vopn sem fangar hafa falið í klefum eða sameiginlegum rýmum.

Samhliða þessum vopnaburði hefur ofbeldisverkum fjölgað í fangelsum. Eru það bæði fangaverðir og fangar sem verða fyrir alvarlegum líkamsárásum. Var seinast ráðist á fangavörð á Litla-Hrauni fyrir um mánuði. Vopnum hefur enn ekki verið beitt gegn fangavörðum en sömu sögu er ekki að segja um árásir á fanga.

Höf.: Kristján H. Johannessen