Einmitt Einar talar við áhugavert fólk í nýju hlaðvarpi en sjálfur hlustar hann mikið á ýmiss konar hlaðvörp.
Einmitt Einar talar við áhugavert fólk í nýju hlaðvarpi en sjálfur hlustar hann mikið á ýmiss konar hlaðvörp.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Bárðarson er mættur með látum á hlaðvarpslestina með nýja hlaðvarpið Einmitt en þar ræðir Einar við áhugavert fólk úr ýmsum áttum um umhverfismál, samfélagsmál og markaðsmál. Hlaðvarpið, sem fór í loftið um síðustu helgi, stökk beint á Topp…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Einar Bárðarson er mættur með látum á hlaðvarpslestina með nýja hlaðvarpið Einmitt en þar ræðir Einar við áhugavert fólk úr ýmsum áttum um umhverfismál, samfélagsmál og markaðsmál. Hlaðvarpið, sem fór í loftið um síðustu helgi, stökk beint á Topp 10-listann hjá íslenskum hlaðvarpshlustendum. Hefur Einar meðal annars talað við pólfarann Vilborgu Örnu Gissurardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur sálfræðing og fyrrverandi knattspyrnukonu, Davíð Lúther, framkvæmdastjóra Sahara, og Frey Eyjólfsson, dagskárgerðarmann og sérfræðing hjá Sorpu og því augljóst að umræðuefnin eru fjölbreytt – alveg eins og Einar vill hafa það.

„Ég hef svo mikinn áhuga á fólki almennt og áhuga á því sem fólk er að gera. Ég tala nú ekki um þegar mér finnst mikið til þess koma,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið og K100 en hann segir að hlaðvörp hafa lengið heillað hann.

„Ég hef alltaf verið rosahrifinn af þessu samtalsformatti, sem maður getur bara sótt þegar maður hefur tíma og spyrillinn og viðmælandinn geta rætt hlutina aðeins betur en hægt er að gera í útvarpssamtölum – þó að aðalatriðunum sé nú oft gerð mjög vel skil í þeim,“ segir hann.

„Ég kalla þetta hlaðvarp um umhverfismál, samfélagsmál og aðeins um markaðsmál. Ég leyfi mér að valsa svona um áhugamálin mín. Þá getur fólk, ef það hefur enga trú á mér sem markaðsmanni, bara hlustað á hlaðvörpin með viðtölum við fólk í umhverfisverndinni og „vice versa“. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Einar stígur á hlaðvarpsvagninn en hann segir margt hafa breyst síðan hann stoppaði stutta stund á vagninum með hlaðvarpinu Öll trixin í bókinni fyrir þremur árum.

„Ég gerði eiginlega þau mistök að vera of fókuseraður á eitt viðfangsefni,“ segir Einar en þar var hann meira að einblína á tónlistarbransann en hlaðvarpið tengdist ævisögu Einars með sama nafni.

Muna eftir honum úr fyrra lífi

„Ég hef upplifað það að fólk man eftir mér úr mínu fyrra lífi sem einhverjum músíkkarli en í dag er ég bara að vinna í umhverfisvernd og í endurheimt votlendis og svo stend ég fyrir plokkdeginum, og svona. Ég hugsaði með mér: Væri nú ekki nær að tala við leiðandi öfl í umhverfisvernd og svo þá sem eru að vinna í því að gera okkur kolefnishlutlausari og fræðast um þetta og sjá hvort ég geti ekki frætt almenning um leið,“ segir hann.

„Ég er líka oft að taka þessi samtöl fyrir sjálfan mig,“ segir Einar og hlær. „Til dæmis talaði ég við Frey Eyjólfsson um breytingarnar á sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu um áramótin. Svakalega ósexí umræða en ef einhverjir geta gert hana skemmtilega eru það við Freyr Eyjólfsson,“ segir hann.

Um helgina er von á viðtali við Víði Reynisson, ekki um Covid heldur um öryggismál á stórmótum eins og nú á sér stað á HM í Catar en Víðir hefur farið fyrir öryggisgæslu í kringum bæði karla- og kvennalandsliðin.

K100 fékk Einar Bárðarson til að mæla með fimm áhugaverðum hlaðvörpum sem hann hlustar á en hann hefur nokkuð fjölbreyttan smekk.
Heimskviður „Stundum langar mann að vita aðeins meira um það sem er að gerast í kringum okkur úti í hinum stóra heimi. Þau Birta, Bjarni og Sunna gera efninu sínu alltaf mjög góð skil.“
Þjóðmál „Ég hlusta á Gísla Frey Valdórsson til að halda mér upplýstum. Áhugaverð samtöl um samtímaviðfangsefni. Hlusta ekki á hvern einasta en marga og hef gagn af.
Jákastið „Kristján Hafþórsson er með fallega og einlæga nálgun á viðfangsefnið sem er bara jákvæðni. Það er alltaf eftirspurn og nánast vöntun á jákvæðni.“
The Move „Lance Armstrong er orðinn ágætiskunningi minn eftir nokkrar heimsóknir hingað til lands. Hann er mjög áhugaverður einstaklingur á svo margan hátt að það er of langt að þylja það allt upp en þegar maður þekkir til þá er oft skemmtilegra að hlusta
Skoðanabræður „Beggi og Snorri Más eru snillingar. Það er gaman að fá að kíkja inn í hausinn á þeim og viðmælendum þeirra.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir