Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í gær ofbeldisverk íranskra stjórnvalda gegn friðsömum mótmælendum og samþykkti að setja á fót nefnd til að rannsaka harkalegar aðgerðir þeirra til að kveða mótmælin niður. 25 af aðildarríkjum ráðsins samþykktu tillöguna sem Þjóðverjar og Íslendingar stóðu að. 16 ríki sátu hjá, en einungis sex ríki, Armenía, Eritrea, Kína, Kúba, Pakistan og Venesúela, greiddu atkvæði gegn henni.
Volker Türk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði á fundinum í gær að það þyrfti að binda enda á hið ónauðsynlega ofbeldi Íransstjórnar, sem hefði leitt til þess að rúmlega 300 manns hefðu fallið fyrir hendi öryggissveita Írans. Þá hefðu um 14.000 manns verið handteknir vegna mótmælanna. Sagði Türk það vera ótrúlega háa tölu og fordæmdi um leið að írönsk stjórnvöld hefðu látið dæma sex manns til dauða fyrir þátttöku í mótmælunum.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ávörpuðu báðar fundinn, sem haldinn var í Genf, og hvöttu þær til þess að tillagan um óháðu rannsóknarnefndina yrði samþykkt. Sagði Þórdís óskiljanlegt að nokkur stjórnvöld veldu að brjóta svo grimmilega á mannréttindum eigin þegna, á sama tíma og hún hrósaði hugrekki Írana fyrir að krefjast frelsis og jafnréttis.