Öflugur Robert Turner skoraði 35 stig fyrir Stjörnuna í sigrinum í gær.
Öflugur Robert Turner skoraði 35 stig fyrir Stjörnuna í sigrinum í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Stjarnan lenti ekki í neinum vandræðum með Grindavík þegar liðin áttust við í 7. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í Garðabænum í gærkvöldi. Stjarnan vann að lokum öruggan 94:65-sigur

Stjarnan lenti ekki í neinum vandræðum með Grindavík þegar liðin áttust við í 7. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í Garðabænum í gærkvöldi.

Stjarnan vann að lokum öruggan 94:65-sigur. Í leiknum juku Stjörnumenn forskot sitt jafnt og þétt og sáu Grindvíkingar aldrei til sólar.

Með sigrinum fór Stjarnan upp í 5. sæti þar sem liðið er nú með 8 stig. Grindavík er í 7. sæti með 6 stig.

Robert Turner fór á kostum og skoraði 35 stig fyrir Stjörnuna ásamt því að taka átta fráköst.

Stigahæstur hjá Grindavík var Damier Pitts með 18 stig og skammt á eftir honum komu Kristófer Breki Gylfason með 16 og Ólafur Ólafsson með 14.

Stólarnir kjöldrógu Blika

Tindastóll fékk Breiðablik í heimsókn á Sauðárkrók og vann sömuleiðis afar öruggan 110:75-sigur.

Hreint magnaður annar leikhluti Stólanna, þar sem liðið skoraði 34 stig gegn aðeins 8 stigum Breiðabliks, varð til þess að staðan var 64:33 í leikhléi.

Reyndist eftirleikurinn í síðari hálfleik auðveldur enda um formsatriði að ræða.

Stigahæstur í liði Tindastóls var Antonio Woods með 24 stig og skammt undan var Adomas Drungilas með 22 stig.

Hjá Breiðabliki var Julio Afonso stigahæstur með 15 stig.

Tindastóll fór með sigrinum upp í 4. sæti deildarinnar þar sem liðið er með 8 stig.

Breiðablik er áfram í 2. sæti með 10 stig.

ÍR vann botnslaginn

ÍR fékk þá botnlið Þórs frá Þorlákshöfn í heimsókn í Breiðholtið og vann nauman sigur, 79:73.

Gífurlegt jafnræði var með liðunum allan leikinn en undir blálokin reyndust Breiðhyltingar hlutskarpari og höfðu að lokum sex stiga sigur.

Taylor Johns fór fyrir ÍR er hann skoraði 30 stig og tók 13 fráköst að auki.

Stigahæstur hjá Þór var Styrmir Snær Þrastarson með 23 stig og tók hann auk þess 14 fráköst. Næststigahæstur hjá Þórsurum var Vinnie Shahid með 18 stig.

ÍR er eftir sigurinn í 10. sæti deildarinnar með 4 stig.

Þór er áfram á botninum, í 12. sæti, með 2 stig.