Magnaðar „Carey Mulligan og Zoe Kazan eru magnaðar sem ofurkvendin Twohey og Kantor,“ skrifar rýnir.
Magnaðar „Carey Mulligan og Zoe Kazan eru magnaðar sem ofurkvendin Twohey og Kantor,“ skrifar rýnir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugarásbíó, Smárabíó og Sambíóin She Said / Hún sagði ★★★★· Leikstjórn: Maria Schrader. Handrit: Rebecca Lenkiewicz. Aðalleikarar: Carey Mulligan, Zoe Kazan, Patricia Clarkson og Andre Braugher. Bandaríkin, 2022. 129 mín.

kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Kvikmyndin Hún sagði hefst árið 2016. Rannsóknarblaðamaður hjá The New York Times, Megan Twohey (Carey Mulligan), hefur nýlega skrifað um ásakanir um kynferðisofbeldi á hendur Donald Trump, þáverandi forsetaframbjóðanda, í kjölfar hinnar alræmdu Access Hollywood-upptöku. Twohey gengur í lið með öðrum blaðamanni, Jodi Kantor (Zoe Kazan), sem er að rannsaka ásakanir á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein sem snúa að kynferðislegri áreitni og nauðgunum sem er viðfangsefni myndarinnar.

Hún sagði er kvikmyndaaðlögun á samnefndri bók sem kom út árið 2019 eftir fyrrnefnda blaðamenn um rannsókn þeirra á Weinstein þar sem þær afhjúpuðu ekki aðeins hann heldur þá sem gerðu honum kleift að halda áfram. Rýnir hefði viljað sjá Mariu Schrader kafa dýpra í hvernig umhverfið í Miramax réttlætti þessa hegðun í mörg ár en það er nánast það eina sem hefði mátt fara betur við gerð myndarinnar.

Rannsóknin hafði gríðarleg áhrif og hún hjálpaði til við að koma #MeToo-hreyfingunni af stað en fyrir þá vinnu hlutu þær Pulitzer-verðlaunin. Fyrir #MeToo-hreyfinguna var Weinstein einn valdamesti maður Hollywood og framleiddi hvern stórsmellinn á eftir öðrum en situr nú í fangelsi í New York vegna kynferðis­­­brots og málaferli gegn honum standa nú yfir í Los Angeles fyrir fleiri kynferðisbrot þar sem yfir 80 konur hafa ásakað Weinstein um að hafa brotið á sér.

Það getur verið vandasamt að færa slíkt efni yfir á kvikmyndaformið en leikstjórinn Maria Schrader gerir það vel. Weinstein kemur örstutt fram í myndinni, ein hljóðupptaka af honum er notuð og í einu atriði sést í hnakkann á honum eða réttara sagt leikaranum Mike Houston. Ofbeldið sjálft er aldrei sýnt heldur er áhersla lögð á afleiðingar þess. Þegar konurnar lýsa ofbeldinu eru rýmin sem ofbeldið átti sér stað í sýnd í staðinn, t.d. hótelherbergi. Það er virkilega vel gert því oftar en ekki er óþarfi að sýna sjálft ofbeldið í myndum.

Áhersla er lögð á sögur kvennanna og blaðamannanna sem sannfærðu þær um að stíga fram saman og hugrekkið sem þurfti til þess að þora því. Hún sagði leggur að miklu leyti áherslu á þá gríðarlegu vinnu og það erfiði sem fylgdi rannsókninni; öll símtölin, ferðalögin og sannfæringarmáttinn. Kvikmyndin er að því leyti ekki ólík myndunum All the President’s Men (Alan J. Pakula, 1976), Spotlight (Tom McCarthy, 2015) og The Post (Steven Spielberg, 2017) nema að í Hún segir er reynsla kvenkyns blaðamannanna ekki síður gerð að verðugu viðfangsefni. Maria Schrader fylgir blaðamönnum sínum heim og kannar sjálfsmynd þeirra sem kvenna og mæðra. Þó að Hún sagði takist ekki að vera jafnspennandi og Óskarsverðlaunamyndin Spotlight þá er sú ákvörðun að leyfa áhorfendum að kynnast einkalífi blaðamannanna frábær viðbót og þáttur sem Maria Schrader gerir betur en leikstjórar fyrrnefndra mynda.

Þessi ákvörðun gerir áhorfendum kleift að skilja þær fórnir sem þessir blaðamenn færðu og áhættuna sem þeir tóku við að birta þessa frétt. Auk þess dregur Maria Schrader úr hinni venjulegu Hollywood-formúlu þar sem karlmennirnir eru vinnufíklar og konurnar aðeins í stöðu stuðningsaðila eða þolinmóðu eiginkonunnar. Í Hún sagði eru það Kantor og Twohey sem vinna sleitulaust allan tímann á meðan eiginmenn þeirra, sem eru einnig í vinnu, hugsa um heimilið og börnin á meðan. Þessi stuðningur sem þær fá frá eiginmönnum sínum og ritstjórum er nauðsynlegur og því vert að segja frá því. Twohey glímir við fæðingarþunglyndi og Kantor hefur miklar áhyggjur af því að kröfur rannsóknarinnar komi ójafnvægi á hjúskaparlíf sitt en hún þarf t.d. að fara til Kaliforníu, London og Wales í leit að mögulegum vitnum.

Carey Mulligan og Zoe Kazan eru magnaðar sem ofurkvendin Twohey og Kantor. Leikurinn, og í raun öll myndin, er ekki dramatíseraður að óþörfu. Þær virka þrjóskar, hugrakkar og ekki síður málefnalegar í sínu starfi. Ef leikur þeirra er ekki nógu góð ástæða til þess að fara að sjá Hún sagði í bíó þá er það leikur aukaleikaranna. Samantha Morton leikur t.d. listilega Zeldu Perkins sem var fyrrverandi starfsmaður Miramax, Jennifer Ehle er einnig með frábæra frammistöðu sem Laura Madden, írsk kona sem Weinstein misnotaði árið 1992 og Ashley Judd leikur sjálfa sig í myndinni en Weinstein áreitti hana kynferðislega og hafði skaðleg áhrif á hennar feril.

Það sem Maria Schrader og handritshöfundurinn Rebecca Lenkiewicz gera svo vel í Hún sagði er að endurskapa óttann og kvíðann sem konur stóðu og standa frammi fyrir í #MeToo-hreyfingunni, þegar þær þurftu að standa upp á móti valdamiklum ofbeldismönnum eins og Harvey Weinstein sem lengi vel höfðu komist upp með þessa hegðun.