Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þetta var frábært kvöld í París og mér fannst mjög gaman að geta komið og tekið við þessum verðlaunum. Mér þykir mjög vænt um þau,“ segir Ragnar Jónasson rithöfundur.
Bók Ragnars, Snjóblinda, var nýverið valin besta glæpasaga sem gefin hefur verið út í Frakklandi undanfarin 50 ár í kosningu þarlendra bókaunnenda. Ragnar tók við verðlaunum þessu til staðfestingar í París á miðvikudagskvöld.
„Hlýtur að vera draumur“
Eins og kom fram í Morgunblaðinu fyrir skemmstu ákváðu franska bókaforlagið Points sem sérhæfir sig í kiljum og tímaritið Le Point að efna til sérstakra verðlauna í tilefni af 50 ára afmæli tímaritsins. Tilnefndar voru átján bækur í þremur flokkum frá þessari hálfu öld, skáldsögur, glæpasögur og bækur almenns efnis. Það voru síðan lesendur sem völdu bestu bókina í hverjum flokki. Í flokki bóka almenns efnis var bókin Gúlag-eyjarnar eftir Alexander Solzhenitsyn valin best en Where the Crawdads Sing eftir Deliu Owens varð hlutskörpust í flokki skáldsagna. Snjóblinda Ragnars hlaup afgerandi kosningu en meðal annarra tilnefndra höfunda var Arnaldur Indriðason fyrir bók sína, Mýrina.
Í ræðu sinni við verðlaunaafhendinguna þakkaði Ragnar frönskum lesendum fyrir þennan heiður og bætti við: „Þið eruð einstök, þið lifið í bókmenntum, lifið fyrir bókmenntir, þær renna eins og blóð um æðarnar.“ Hann rifjaði upp að þegar hann var lítill strákur hefðu foreldrar hans hvatt hann til að skrifa „og einhvern veginn komust sögurnar sem ég skrifaði í íslenska myrkrinu alla leið yfir hafið og öðluðust nýtt líf í nýjum löndum“. Hann lauk ræðu sinni með þessum orðum: „Þegar ég kem til Frakklands og sé einhvern lesa bækurnar mínar, eða hitti lesendur sem biðja mig um að árita bækurnar mínar, – eða þegar ég fæ svona dásamlega viðurkenningu eins og núna – þá segi ég stundum við sjálfan mig: Þetta hlýtur að vera draumur, en leyfið mér að halda áfram að dreyma.“
Þykir vænt um verðlaunin
Ragnar var á heimleið frá París þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Hann kvaðst eiga erfitt að átta sig á þessum verðlaunum og þeim vinsældum sem bækur hans hafa notið á erlendri grundu. Bækur Ragnars hafa selst í 1,1 milljón eintaka í Frakklandi frá árinu 2016 þegar sú fyrsta kom þar út.
„Ég næ ekkert utan um þessar tölur enda hef ég aldrei skrifað bækur til að selja þær eða neitt slíkt, mér finnst ég einfaldlega þurfa að skrifa. Þessar vinsældir eru dásamlegur bónus og mér þykir mjög vænt um þessi verðlaun. Maður finnur svo mikinn áhuga frá lesendum og stuðning, það hlýjar manni um hjartarætur hvað fólk hefur gaman af bókunum. Ég vona að verðlaun sem þessi geti opnað dyr fyrir fleiri íslenska rithöfunda í Frakklandi. Það væri gaman því þetta er frábært land til að gefa út bækur í. Hér er mikil ást á bókum.“