[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sádi-Arabar ætla að reyna að fá Cristiano Ronaldo til að spila í landinu eftir að hann var laus allra mála frá Manchester United. Prinsinn Abdulaziz bin Turki Al-Faisal, sem er íþróttamálaráðherra landsins, staðfesti við Sky News í gær að stefnt…

Sádi-Arabar ætla að reyna að fá Cristiano Ronaldo til að spila í landinu eftir að hann var laus allra mála frá Manchester United. Prinsinn Abdulaziz bin Turki Al-Faisal, sem er íþróttamálaráðherra landsins, staðfesti við Sky News í gær að stefnt væri að því að fá hann til félagsins Al-Hilal en með því leikur stór hluti sádiarabíska landsliðsins. Manchester United fékk tilboð í Ronaldo frá Sádi-Arabíu síðasta sumar en Ronaldo staðfesti á dögunum að hann hefði hafnað því tilboði.

Belgar vonast til þess að geta teflt fram sóknarmanninum öfluga Romelu Lukaku á sunnudaginn þegar þeir mæta Marokkó á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á sunnudaginn. Lukaku missti af sigurleik Belga gegn Kanada, 1:0, í fyrrakvöld vegna meiðsla en hann hóf æfingar með liðinu í gær.

Knattspyrnumaðurinn Ásgeir Marteinsson sem hefur leikið lengst af með HK er genginn til liðs við 1. deildar lið Aftureldingar og samdi þar til tveggja ára. Ásgeir, sem er 28 ára sóknar- eða miðjumaður, skoraði sex mörk fyrir HK í 21 leik í 1. deildinni í ár þegar Kópavogsliðið endurheimti sætið í úrvalsdeildinni. Hann hefur leikið 95 leiki í efstu deild með HK, ÍA og Fram og skorað í þeim 14 mörk.

Völsungur er á toppi úrvalsdeildar kvenna í blaki eftir sigur á KA, 3:0, í uppgjöri efstu liðanna á Húsavík í fyrrakvöld. Völsungur er með 13 stig, KA 12, Álftanes 10 og Afturelding 10 í efstu sætunum. Nikkia Benitez var stigahæst hjá Völsungi gegn KA með 15 stig en hjá KA var Nera Mateljan atkvæðamest með 12 stig.

Slóveninn Luka Doncic skoraði 42 stig fyrir Dallas Mavericks í fyrrinótt þegar lið hans sótti heim Boston Celtics, topplið Austurdeildar NBA í körfubolta. Hann átti auk þess níu stoðsendingar og tók átta fráköst en Boston vann þó leikinn 125:112. Serbinn Nikola Jokic skoraði 39 stig fyrir Denver Nuggets sem vann Oklahoma City Thunder á útivelli, 131:126. Chicago Bulls vann óvæntan útisigur á Milwaukee Bucks, 118:113, þar sem DeMar DeRozan skoraði 36 stig fyrir Chicago og Giannis Antetokounmpo 36 fyrir Milwaukee.