Hlynur Helgason
Hlynur Helgason
KvikMyndlist er yfirskrift haustráðstefnu Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi sem haldin verður í dag og á morgun. Umræðuefni ráðstefnunnar eru mörk kvikmynda og lista, varðveisla og miðlun kvikra og stafrænna miðla á söfnum og þær áskoranir sem felast í því, eins og segir í tilkynningu

KvikMyndlist er yfirskrift haustráðstefnu Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi sem haldin verður í dag og á morgun. Umræðuefni ráðstefnunnar eru mörk kvikmynda og lista, varðveisla og miðlun kvikra og stafrænna miðla á söfnum og þær áskoranir sem felast í því, eins og segir í tilkynningu. Segir þar að ein kveikjan að umræðuefni ráðstefnunnar sé sú að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verði afhent í Reykjavík 10. desember.

„Listasafn Reykjavíkur varðveitir nú viðamikið safn kvikra verka og ekki úr vegi þegar slík hátíð kemur til landsins að líta inn á við og skoða þær tengingar sem liggja fyrir. Það er mikill fengur í að fá bæði fagaðila um varðveislu kvikmynda og listamenn til að sýna afrakstur vinnu sinnar og hvetja til frekari umræðu og rannsókna á þessu sviði,“ segir í tilkynningunni.

Dagskráin hefst kl. 13 í dag og ber hún yfirskriftina Áskoranir í varðveislu kvikra verka. Á morgun frá kl. 13 munu lista- og fræðimenn ræða fagurfræðilegar víddir kvikmyndamiðilsins og áhrif hans á þeirra eigin listsköpun og meðal þeirra sem taka til máls eru Hlynur Helgason listfræðingur og Joshua Reiman myndlistarmaður.

Skráning á ráðstefnuna fer fram á vef safnsins og má þar finna dagskrá hennar í heild og frekari upplýsingar.