Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Ég sá fljótlega út frá gögnunum mínum að þegar Öræfajökull hörfaði á öldum áður þá gerðist það hratt í jarðsögulegu tilliti. Í kjölfar þess fylgdu eldgos, miðað við gjóskulög sem ég kortlagði á svæðinu. Það er mjög góð fylgni á milli jökulhörfunar og misstórra eldgosa í Öræfajökli. Nú bráðna jöklarnir okkar sem aldrei fyrr,“ segir dr. Hjalti Jóhannes Guðmundsson landfræðingur. Hann rannsakaði eldvirknisögu og jöklabreytingar í Öræfajökli vegna doktorsritgerðar sinnar.
Nokkrir jarðskjálftar hafa mælst í Öræfajökli undanfarið. Eins var þar talsverð skjálftavirkni 2017-2018. Hjalti segir að jöklarnir okkar séu mjög viðkvæmir fyrir lofthitabreytingum og bregðist fljótt við þeim. Því getur fylgt aukin hætta á eldvirkni ef miðað er við að það sé samband á milli jökulhörfunar og eldvirkni í fjallinu. Hann segir að í raun viti menn lítið um hvað er að gerast í eldfjallinu þótt vísindamenn Háskóla Íslands og Veðurstofunnar fylgist vel með því.
„Fjallið virðist vera að vakna og þá spyr maður sig hvort það sé að koma í ljós að þegar jökullinn þynnist og farginu léttir opnist jarðskorpan og fari að hleypa kviku upp í gegnum sig? Eða er eitthvað allt annað að gerast? Það þarf að gera rannsóknir á því,“ segir Hjalti. Hann rannsakaði súr eldgos í Öræfajökli en frá þeim kemur ljósleit gjóska. Hjalti nefnir að eldgosið 1727-1728 hafi verið ísúrt. Öræfajökull gaus einnig 1362.
„Fyrir eldgosið 1362 var Litlahérað, eins og sveitin hét, ein blómlegasta sveit á Íslandi. Sveitin lagðist í eyði eftir eldgosið og það bjó nánast enginn þarna næstu 100 árin. Eftir það fékk sveitin nafnið Öræfi, sem þýðir auðn,“ segir Hjalti. Eldfjallafræðingarnir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson hafa rannsakað sprengigosið 1362. Það er öflugasta eldgos Íslandssögunnar og fylgdu því gjóskuflóð og gusthlaup. Algjör eyðilegging var 20 km út frá eldstöðinni og menn og skepnur fórust.
Hjalti segir að nú séu jöklarnir að bráðna og það megi alveg ræða það hvort því fylgi aukin eldvirkni. „Við þurfum að vera á tánum gagnvart Öræfajökli,“ segir Hjalti.