Enginn er bættari með háa verðbólgu eftir óraunhæfa samninga

Getur verið að hver kynslóð þurfi að endurtaka mistök þeirra sem á undan gengu? Við horfum upp á stríð í Evrópu með miklu mannfalli og eyðileggingu sem engan enda virðist ætla að taka. Það styður mögulega slíkar kenningar.

Þegar við horfum okkur nær verða fréttir af kjaraviðræðum umhugsunarefni í þessu sambandi. Hér gerist það að Seðlabankinn hækkar stýrivexti hóflega og með skýrum rökum, en viðbrögðin eru þau að menn í Karphúsinu vilja helst standa upp frá borði og slíta viðræðum. Slík viðbrögð eru úr öllu samræmi við tilefnið og ekki hjálpleg.

Eitt af því sem Seðlabankinn horfir til eru samningar á vinnumarkaði. Það er óhjákvæmilegt og felur ekki í sér að launamenn eigi að bera allar byrðarnar því að hann horfir til margra annarra þátta eins og þekkt er. En vinnumarkaðurinn er þýðingarmikill og þar hafa komið fram kröfugerðir sem hljóta að vekja áhyggjur í Seðlabankanum eins og annars staðar. Þá er það staðreynd að samningar hafa runnið út án þess að nýir hafi tekist og að deilendur eru komnir í sali ríkissáttasemjara. Líka þeir deilendur sem gera mestu kröfurnar, og virðist minnst alvara um að ná samningum, hafa ekki óskað liðsinnis ríkissáttasemjara og rúmast varla í sölum hans.

Ennfremur vekur áhyggjur að þeir sem sitja við samningaborðið virðast nálgast samningagerðina án þess að horfa til þess hvernig kaupmáttur hefur þróast á samningstímanum þrátt fyrir efnahagsáfallið sem atvinnulífið mátti þola. Þegar samið er hlýtur að verða að horfa bæði fram og aftur til að meta forsendur hækkana. Hækkun kauptaxta sem étin yrði upp í verðbólgu næstu missera er minna en einskis virði fyrir launamenn. Slíkt höfrungahlaup kaupgjalds og verðlags kom illa við almenning áður fyrr og kostaði tuga prósenta verðbólgu. Samningamenn verða að þekkja söguna betur en svo að þeir vilji endurtaka þann leik.