Fimm orð sem grafin eru á tvö þúsund ára gamla hönd úr bronsi geta veitt nýjar upplýsingar um tilurð og þróun basknesku, sem álitið er eitt leyndardómsfyllsta tugumálið í Evrópu. Þessu greinir Independent frá. Tilurð basknesku hefur löngum verið ráðgáta því tungumálið virðist ekki skylt neinu öðru máli og er því stakmál. Bronshöndin, sem talin er vera frá því kringum 100 eftir Krist, fannst við fornleifauppgröft í fyrra. Fræðingar telja sig hafa fundið á höndinni elstu útgáfuna af vaskon-tungumáli, sem er fyrirrennari basknesku sem töluð er af um 700.000 manns á N-Spáni og S-Frakklandi.
Fram til þessa hafa fræðingar talið að Vaskonar, þjóðflokkur sem á járnöld bjó á landsvæðinu þar sem í dag er Navarra-héraðið á Spáni, hafi ekki átt neitt ritmál og fyrst byrjað að skrifa talmál sitt eftir að þeir höfðu haft kynni af handritum á latínu með innrás Rómverja. „Þessi gripur kollvarpar fyrri kenningum okkar um Vaskonana og skrif þeirra,“ segir Joaquín Gorrochategui, prófessor í indóevróskum tungumálum við Háskóla Baskalands. „Við vorum sannfærð um að Vaskonar hefðu hvorki kunnað að lesa né skrifa á fornöld og aðeins notað letur til myntsláttu.“ Fornleifafræðingar telja að bronshöndin hafi verið hönnuð til að hanga sem verndargripur á hurð. Málvísindafólki hefur enn sem komið er aðeins tekist að þýða eitt orð á bronshöndinni, þ.e. orðið „sorioneku“ sem er skylt baskneska orðinu „zorioneku“ sem þýðir „farsæll“.