[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það voru ákveðin vonbrigði að sjá umfjöllun þeirra sem voru á COP27 fundinum um hversu mikil vonbrigði fundurinn hefði verið. Einhverjir ljósir punktar eins og það var orðað en ekki nægar skuldbindingar við aðgerðir til þess að mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið

„Það voru ákveðin vonbrigði að sjá umfjöllun þeirra sem voru á COP27 fundinum um hversu mikil vonbrigði fundurinn hefði verið. Einhverjir ljósir punktar eins og það var orðað en ekki nægar skuldbindingar við aðgerðir til þess að mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið. Það er ekki langt í 1,5 °C hlýnun á heimsvísu. Evrópa er komin í 1,2 °C hlýnun nú þegar,“ segir Páll Ágúst Þórarinsson, doktorsnemi í veðurfræði við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi.

Páll Ágúst segir að stærstan þátt í losun gróðurhúsalofttegunda eigi framleiðsla og notkun jarðefnaeldsneytis, stóriðnaður og landnotkun.

„Lausnirnar eru þó til. Hlustum á sérfræðinga sem segja okkur að fjárfesta þurfi í grænum langtímalausnum, efla vistvænar almenningssamgöngur, byggja grænni borgir og minnka óþarfa neyslu. Þetta dregur úr þörf á stóriðnaði og spurn eftir jarðefnaeldsneyti. Ekkert miðjumoð dugar til. Tökum okkur taki. Þannig getum við á litla Íslandi verið fyrirmynd annarra sem eiga stærri þátt í heildarlosun mannkynsins, sýnt þeim að þetta er hægt svona hratt. Það verður dýrt en alltaf betra en að takast á við afleiðingarnar af mikilli hlýnun síðar,“ segir Páll Ágúst og að síðustu:

„Þetta eru ekki smáskammtalækningar ef losunarminni lausnir koma til að vera. Ef við sinnum þessu getum við komið í veg fyrir frekari hamfarir. Því við getum ekki lengur komið í veg fyrir loftslagsbreytingar eða alvarleg áhrif þeirra vegna. Þetta er spurning um skaðaminnkandi aðgerðir, hvað getum við gert til þess að þjást ekki óþarflega mikið meira.“ sbs@mbl.is

„Loftslagsmálin eru eitt af stóru viðfangsefnum samtímans og mikilvægt að koma þar með lausnir sem geta að minnsta kosti haft áhrif á hraðfara hlýnun andrúmsloftsins. Stóru snertifletirnir í því sambandi eru fyrir mér loftslagsvæn og vel rekin bú í sveitum – þar sem leiðarljósið er að fá sem mestar afurðir fyrir sem minnst umhverfisáhrif. Einnig landnýting og landgræðsla og svo orkuskipti eins og nú er unnið að,“ segir Gústav Ásbjörnsson, sviðsstjóri verndar og endurheimtar vistkerfa hjá Landgræðslunni.

„Þegar kemur að landgræðslu þá höfum við tækifæri til að draga mjög mikið úr losun með endurheimt votlendis. Þó fólk hafi misjafnar skoðanir á kolefnislosun svæðanna og hversu stór þau séu, þá er eftir sem áður klárt að þessi liður og þar með tækifærið til að gera betur er gríðarstórt. Víða um land er verið að moka ofan í skurði eða gera aðrar sambærilegar ráðstafanir.

Að öðru leyti má svo halda því til haga sem Sveinn Runólfsson, fv. landgræðslustjóri hefur bent á. Við Íslendingar erum rík af illa förnu landi. Með því að breyta ástandi þess úr illa förnu yfir í gróin og virk vistkerfi fáum við mjög mikinn ávinning, ekki bara út frá loftslagsmálum heldur einnig út frá nýtingarmöguleikum, vatnsbúskap, líffræðilegum fjölbreytileika, dýralífi og fleiru slíku,“ segir Gústav.

„Annars eru margir sem sjá líkindi með viðhorfi fólks til endurheimtar votlendis nú og viðhorfi fólks til sandgræðslu fyrir öld síðan. Sjálfsagt er eitthvað til í því; að minnsta kosti er verkefni dagsins afar brýnt og miklar hugsjónir búa að baki hjá þeim sem vilja bæta úr.“ sbs@mbl.is

„Stefnan er tvímælalaust fram af hengifluginu. Oft hefur verið sýnt hvaða afleiðingar hamfarahlýnun af mannavöldum hefur á lífið á jörðinni og að mannkynið á langt í land með að ná markmiðum um að forðast hættulegustu afleiðingarnar. Það þýðir samt ekki að það sé ekki hægt að forðast hengiflugið,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Aðgerðir í loftslagsmálum sem grípa þarf til nú eru margvíslegar, segir Auður. Stærstu orsakavaldarnir varðandi hlýnun séu notkun jarðefnaeldsneytis, óhófleg neysla og framleiðsla og slæm landnotkun, eins og skógareyðing og kjötframleiðsla. Hver og ein þjóð geti náð utan um þessa þætti með sínum hætti. Þó megi minna á að ekki hafi náðst samstaða um að hætta bruna á jarðefnaeldsneyti. Allar líkur eru á því að jörðin hlýni umfram þær 1.5°C á næstu 10 árum, sem menn hafa sett stefnu á.

„Viljaleysi valdhafa, það er stjórnmálafólks, fjármagnseigenda og stjórnenda stórra fyrirtækja til að taka á rótum vandans veldur áhyggjum. Það sem almenningur getur helst gert er að kalla þessa aðila til ábyrgðar. Orkuskipti, minni kjötneysla, vistvænar samgöngur og fleira slíkt eru raunhæfur hluti af lausninni,“ segir Auður. „Hins vegar hafa aðgerðir beinst allt of mikið að almenningi en ekki valdhöfum og framleiðendum sem verður að breytast. Og þrátt fyrir að nýta endurnýjanlega orkugjafa er Ísland með eitt stærsta kolefnisspor í Evrópu. Við getum miðlað af jákvæðum skrefum eins og hitaveituvæðingu og einnig af því sem á ekki að gera, svo sem eins og mjög slæmri landnotkun og óheftum vexti mengandi starfsemi eins og stóriðju og ferðaþjónustu.“ sbs@mbl.is

„Staðan er alvarleg, en ég tel ofmælt að við séum á leið fram af hengifluginu,” segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún var meðal fulltrúa Íslendinga á nýafstaðinni ráðstefnu um loftslagsmál í Sharm El Sheikh í Egyptalandi og segir að þar hafi margt áhugavert komið fram. Sérstaklega sé vert að gefa gaum þeirri yfirlýsingu Antonios Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um að veröldin sé á hraðri leið til loftslagshelvítis, slíkar hamfarir hljótist af hlýnun andrúmsloftsins.

Á sýningarbás Pakistans á ráðstefnunni ytra var brugðið upp svipmyndum af afleiðingum hamfarahlýnunar þar í landi, svo sem frá miklum flóðum þar í landi fyrr á þessu ári. Myndum þessum fylgdu þau skilaboð að afleiðingar hlýnunar gætu orðið með svipuðu móti annars staðar. Enginn væri eyland. Fleiri hefðu sýnt og sagt frá hinu sama.

„Þurrkar, brunnið land, flóð og veðuröfgar svo mannvirki skolast í burtu. Þetta sást í kynningarefni Sameinuðu þjóðanna og áhrifaríkum myndböndum þeirra. Hið jákvæða í stöðunni er hins vegar að fólk um allan heim viðurkennir vandann og ræðir saman um hann. Allir eru líka áfram um að finna lausnir; almenningur, atvinnulíf og stjórnvöld. Þá eru víða í þróun og framleiðslu tæknilausnir þar sem minni útblástur og kolefnisbinding eru stóru atriðin. Sjálfsagt verður ekki að öllu leyti hægt að sporna gegn hlýnun. Því þarf mannkynið að aðlagast nýjum veruleika. Til slíks þarf líka að horfa til uppbyggingar allra innviða; sem vegna veðuröfga þurfa að vera sterkbyggðari en áður. Þannig fléttast loftslagsbreytingar í rauninni inn í alla okkar tilveru og endurmats og alþjóðlegrar samvinnu er þörf.“ sbs@mbl.is