Vön „Það er höfundurinn sjálfur, Felix Bergsson, sem ljær Frikka rödd sína og Þuríður Blær Jóhannsdóttir talar fyrir Freyju. Bæði gera þau það listavel, enda vant fólk hér á ferðinni,“ skrifar gagnrýnandi meðal annars.
Vön „Það er höfundurinn sjálfur, Felix Bergsson, sem ljær Frikka rödd sína og Þuríður Blær Jóhannsdóttir talar fyrir Freyju. Bæði gera þau það listavel, enda vant fólk hér á ferðinni,“ skrifar gagnrýnandi meðal annars. — Ljósmynd/Margrét Helga Weisshappel
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Barnasaga Ævintýri Freyju og Frikka - Á kafi í Kambódíu ★★★★½ Eftir Felix Bergsson. Felix Bergsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir lesa. Storytel 2022. 1 klst. og 54 mín.

Hljóðbók

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

Ævintýri Freyju og Frikka - Á kafi í Kambódíu er önnur bókin um samnefnd tvíburasystkini sem aftur eru á faraldsfæti, leita uppi ævintýri og komast jafnvel í háska. Í síðustu bók fóru þau til Galapagoseyja með pöbbum sínum, en nú eru þau komin til Kambódíu með mömmu sinni, sem ekki er nú minna spennandi, sérstaklega fyrir Frikka sem dreymir um að verða fornleifafræðingur.

Í Kambódíu kynnast systkinin loftfimleikastráknum San Li sem vinnur líka að mikilvægu verkefni í sögufræga hofinu Angor Wat. Áður en þau vita af fara dularfullir atburðir að gerast og þau komast á snoðir um fyrirætlanir fólks sem hefur eitthvað misjafnt í hyggju. Erfitt er að vita hverjum er hægt að treysta og jafnvel fornleifafræðingar sem á vegi þeirra verða eru hugsanlega ekki allir þar sem þeir eru séðir. San Li lendir í undarlegu slysi og Freyja týnist og kemst í lífsháska þegar hún strýkur af hótelinu til að reyna að komast að því hvað er í gangi í hofinu.

Bókin er skemmtilega uppsett bæði sem bréf sem Frikki skrifar til pabba þeirra og sem frásögn Freyju sem notast við upptökutæki til að skrásetja það sem er að gerast hverju sinni og eru upptökurnar líka ætlaðar pöbbunum. Umhverfishljóð sem heyrast í hljóðbókinni gera mikið fyrir söguna og hún verður enn meira lifandi fyrir vikið. Maður sogast hálfpartinn inn í hana og upplifir sig stundum eins og í leikhúsi.

Spennan magnast upp jafnt og þétt og verður sagan æsispennandi og nær hámarki þegar Frikki og mamma krakkanna eru að leita að Freyju.

Það er höfundurinn sjálfur, Felix Bergsson, sem ljær Frikka rödd sína og Þuríður Blær Jóhannsdóttir talar fyrir Freyju. Bæði gera þau það listavel, enda vant fólk hér á ferðinni.

Ævintýri Freyju og Frikka - Á kafi í Kambódíu er einstaklega vel skrifuð, spennandi og uppfull af húmor og nýtur sín afar vel í formi hljóðbókar í frábærum leiklestri.