Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Ingvar S. Jónsson hefur gjarnan verið kallaður faðir körfuboltans í Hafnarfirði. Jón Arnór og Pétur, synir hans, eru báðir fyrrverandi landsliðsmenn í körfu og hafa auk þess getið sér gott orð sem þjálfarar, eins og pabbinn. Synir þeirra, Kári Jónsson og Hilmar Pétursson, voru í fyrsta skipti saman í landsliðinu í vor og svo aftur fyrir skömmu, þegar íslenska landsliðið tók á móti landsliði Georgíu og lék síðan á móti liði Úkraínu í Ríga í Lettlandi í undankeppni HM 2023. „Ég er stoltur af þessu,“ segir Ingvar.
Einar Ólafsson, þjálfari ÍR, var íþróttakennari í Langholtsskóla, þegar Ingvar var í skólanum. „Þar kynntist ég körfubolta og Einar sáði fræjunum,“ rifjar Ingvar upp. „Síðan var ég í körfu öll kvöld og um helgar þegar ég var í Reykholti í Borgarfirði, þar sem ég tók landsprófið.“ Í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni hafi karfa verið í hávegum höfð undir leiðsögn Antons Bjarnasonar. Eftir útskrift 1972 hafi hann byrjað að spila með Haukum í Hafnarfirði samfara íþróttakennslu og fljótlega bætt við sig þjálfun, sem hann hafi sinnt í aldarfjórðung.
„Ég byrjaði að þjálfa fyrir algjöra tilviljun,“ segir Ingvar. Hann hafi verið á æfingu og í kjölfarið hafi verið æfing hjá yngri strákum. Þjálfarinn hafi ekki mætt og þar sem enginn hafi fengið að fara inn í salinn án þjálfara hafi strákarnir beðið sig um að stjórna æfingunni. „Ég gerði það og þar með var þjálfaraferillinn kominn í gang.“
Margfaldur meistari
Ingvar sá um uppbygginguna hjá Haukum. Lið hans varð Íslandsmeistari í minni-bolta 1974 og 4. flokkur, undir hans stjórn, var fyrsti Íslandsmeistari Hauka í flokkakeppni, braut ísinn tímabilið 1975-76. Á hálfum öðrum áratug urðu unglingaflokkar í Haukum 14 sinnum Íslandsmeistarar með Ingvar sem þjálfara. Í þessum liðum voru drengir sem áttu eftir að vera í fremstu röð. „Þarna voru meðal annars strákar eins og Pálmar Sigurðsson, Kristján Arason, sem valdi svo handboltann, og Ívar Ásgrímsson auk annarra. Strákarnir mínir þvældust með pabba gamla og Jón Arnar varð fljótlega stjarna, Kári er ekki ósvipaður honum.“
Barnabörnin eru 12 og nánast öll í körfubolta. „Eplið og eikin eru vel við lýði,“ gantast Ingvar með. Hann segir stundum hafa verið krefjandi að þjálfa börnin sín og sérstaklega hafi hann þurft að gæta þess að hampa þeim ekki of mikið. „Stundum liðu þau fyrir það, en þetta er öðruvísi með barnabörnin. Ég horfi á þau eins oft og ég get, sé til dæmis alla leiki hjá Hilmari í Þýskalandi á netinu, og læt í mér heyra.“ Hann segist benda Kára og Hilmari á ýmislegt sem betur megi fara, en hann ráði engu lengur, hættur að vinna og þjálfa. „Kannski taka þeir tillit til þess sem ég segi. Í það minnsta taka þeir því ekki illa þegar ég ræði við þá um boltann og ég er endalaust stoltur af því að eiga tvo stráka í landsliðinu.“