Við Kiyomizuhofið í Kýótó Frá vinstri: Þórólfur Jarl Þórólfsson, Yukari Takahashi (japönsk vinkona), Kristín, Lára Jónasdóttir, Eva Dís Pálmadóttir (systurdóttir) og Jón Jónsson (eiginmaður Evu Dísar).
Við Kiyomizuhofið í Kýótó Frá vinstri: Þórólfur Jarl Þórólfsson, Yukari Takahashi (japönsk vinkona), Kristín, Lára Jónasdóttir, Eva Dís Pálmadóttir (systurdóttir) og Jón Jónsson (eiginmaður Evu Dísar).
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Ísleifsdóttir fæddist 25. nóvember 1952 í Reykjavík. Hún ólst upp þar, sem og á Hólmavík og Hvolsvelli. Flest grunnskólaárin var Kristín í Langholtsskóla. „Ég átti að taka landspróf í Skógum undir Eyjafjöllum, en þá bjuggum við á Hvolsvelli þegar faðir minn var héraðslæknir Suðurlands

Kristín Ísleifsdóttir fæddist 25. nóvember 1952 í Reykjavík. Hún ólst upp þar, sem og á Hólmavík og Hvolsvelli.

Flest grunnskólaárin var Kristín í Langholtsskóla. „Ég átti að taka landspróf í Skógum undir Eyjafjöllum, en þá bjuggum við á Hvolsvelli þegar faðir minn var héraðslæknir Suðurlands. Ég vildi frekar vera í Reykjavík hjá móðurforeldrum mín en að vera á heimavist og tók því landsprófið í Reykjavík. Það sama var með framhaldsskólaárin. Ég hafði meiri áhuga á að vera í Reykjavík en að fara á heimavist á Laugarvatni og var áfram hjá ömmu og afa. En ég var alla páska, jól og á sumrin hjá foreldrum mínum. Ég er elst af fimm systkinum og það var nóg að gera við að passa þau því við bjuggum fyrir ofan læknastofurnar og mamma aðstoðaði pabba mikið í hans störfum.“

Kristín útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972. „Þar myndaðist góður vinkonuhópur sem enn heldur nánu sambandi og fagnaði t.d. sjötugsafmælunum saman.“

Á menntaskólaárunum kynntist Kristín verkum japanska kvikmyndagerðarmannsins Kurosawa og heillaðist þá af Japan. Hún ákvað að fara í háskólanám þangað og fór með þáverandi eiginmanni sínum, sem stundaði nám þar í veiðarfæraverkfræði. Þau voru fyrstu íslensku námsmennirnir sem kláruðu BA- og BS-gráður við japanska háskóla.

Kristín útskrifaðist frá Tokyo Designers College í Japan árið 1979 sem vöruhönnuður. „Ég vildi læra keramik í Japan, en ef maður fer til meistara í keramik þar þá verður maður að eyða fyrstu árunum í að sópa gólf og hella upp á te. Það fannst mér vera tímaeyðsla og þarafleiðandi fór ég í háskólanám í vöruhönnun, en þar var hægt að vinna með leir og gler og ýmis önnur efni. Svo þegar ég lauk náminu þá þurfti ég að bíða í eitt ár eftir manninum mínum og var svo heppin að fá vinnu á postulínsverkstæði hjá einum kennaranum mínum. Ég lærði ofboðslega mikið hjá henni og lærði eiginlega mest á verkstæðinu þar.“

Kristín lauk námi í kennsluréttindunum fyrir grunn- og framhaldsskólastig frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Hún hefur sótt ýmis námskeið og vinnustofur í Bandaríkjunum, Japan og Ungverjalandi.

Eftir heimkomu frá Japan stofnaði Kristín keramikverkstæðið Menju ásamt Sóleyju Eiríksdóttur og Hildi Sigurbjörnsdóttur, en verkstæðið var á horni Lindargötu og Frakkastígs. Meðfram vinnu sinni við keramikið hefur Kristín kennt leirmótun og hönnun á öllum skólastigum. Síðastliðin 15 ár hefur hún kennt við list- og verkgreinadeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Árið 2016 gaf hún út tvær kennslubækur um leirmótun fyrir grunnskólanemendur í samvinnu við Menntamálastofnun.

Kristín var virk í sýningarhaldi á árunum 1980-2010. Hún sýndi verk sín bæði innanlands og utan og á verk í eigu safna á Íslandi og í Japan. „Ég kynntist mörgum skólafélögum Sóleyjar í nýja málverkinu, eins og það er kallað, og margir komu á verkstæðið til okkar. Verkin mín breyttust þá úr fínu postulíni í frekjulegan steinleir og stór verk. Þá var eins og maður væri kominn í listina en á 9. áratugnum hrundu allir múrar milli handverks og listar.

Ég var svo heppin að á 9. áratugnum var mikið verið að selja af grafík og keramik og ég gat lifað svolítið vel af listinni.“ Kristín hlaut Hönnunarverðlaun DV árið 1990.

Árið 1981 stóð Kristín að stofnun Íslensk-japanska félagsins ásamt öðrum aðdáendum japanskrar menningar. Hún var formaður félagsins af og til í samtals 12 ár. Í formennskutíð sinni stóð hún að allt að 30 menningarviðburðum í Japan og á Íslandi. Hún tók einnig á móti japönskum vísinda- og listamönnum og aðstoðaði þá við störf sín á Íslandi. Ótal margir vísinda- og listamenn, stjórnmálamenn og fólk í viðskiptaerindum slógust í för með henni til Japan í ólíkum erindagjörðum. „Ein af eftirminnilegustu ferðum mínum til Japan var með frú Vigdísi Finnbogadóttur.“

Árið 2011 veitti Japanskeisari Kristínu heiðursorðu hinnar rísandi sólar (The Order of the Rising Sun) fyrir að stuðla að auknum menningarsamskiptum og vináttutengslum Íslands og Japan.

Í gegnum kennslustörf sín hefur áhugi Kristínar á börnum með sérþarfir aukist og hefur hún sl. 16 ár unnið í hlutastarfi hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, nánar tiltekið á Álfalandi.

Áhugamál Kristínar eru allt er varðar Japan, einkum matargerð, handverk, ikebana blómaskreytingar og bonsai trjárækt. „Það má segja að mér líði best þegar ég er með mold eða leir á höndunum. Zen hugleiðsla er mér einnig afar hugleikin. Ég hef stundað hana í 30 ár og m.a. dvalið á Sonoma Mountain Zen Center í Kaliforníu um tíma.“

Kristín eyðir afmælisdeginum í Japan með fjölskyldu sinni.

Fjölskylda

Dóttir Kristínar með fyrrverandi eiginmanni sínum, Jónasi Hallgrímssyni, f. 3.6. 1952, verkfræðingi, er Lára Jónasdóttir, f. 3.2. 1981, verkefnastjóri, búsett í Reykjavík. Maki hennar er Þórólfur Jarl Þórólfsson leiðsögumaður.

Systkini Kristínar eru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, f. 20.2. 1956, lögfræðingur, búsett í Reykjavík; Þorfinnur Ísleifsson, f. 25.5.1960, bílstjóri, búsettur í Reykjavík; Halldór Heimir Ísleifsson, f. 3.10. 1962, smiður, búsettur í Biskupstungum, og Gunnar Hafsteinn Ísleifsson, f. 27.8. 1963, verkfræðingur, búsettur í Danmörku.

Foreldrar Kristínar voru hjónin Ísleifur Halldórsson, f. 26.9. 1932, d. 23.9. 2021, læknir, og Kolbrún Þorfinnsdóttir, f. 1.8. 1934, húsmóðir. Þau voru lengst af búsett á Hvolsvelli og í Garðabæ.