Góð vika Haukur Már Hergeirsson verslunarstjóri í Elko á Akureyri segir vikuna hafa verið annasama.
Góð vika Haukur Már Hergeirsson verslunarstjóri í Elko á Akureyri segir vikuna hafa verið annasama. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einstök veðurblíða norðan heiða gerir að verkum að fjöldinn allur af fólki er á ferðinni, enda færð eins og á sumardegi. „Fólk er greinilega að nýta sér gott veður og góða færð, það er mikil umferð, fólk úr nágrannabyggðalögum kemur mikið til að…

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Einstök veðurblíða norðan heiða gerir að verkum að fjöldinn allur af fólki er á ferðinni, enda færð eins og á sumardegi. „Fólk er greinilega að nýta sér gott veður og góða færð, það er mikil umferð, fólk úr nágrannabyggðalögum kemur mikið til að versla og eins þau sem koma um lengri veg,“ segir Þórhallur Jónsson kaupmaður í Pedromyndum og varaformaður Miðbæjarsamtakanna á Akureyri. Jólaverslun í höfuðstað Norðurlands fer vel af stað og markar svarti föstudagurinn gjarnan upphaf hennar.

Þórhallur segir kaupmenn á Akureyri ekki kvarta, sumarið var gott og ágætis umferð á góðu hausti og í upphafi jólavertíðar. Hann segir margar verslanir bjóða upp á tilboð á vörum alla þessa viku, enda biðu viðskiptavinir eftir þeim og verslun í vikunni á undan datt svo gott sem niður fyrir svarta föstudaginn. „Það er almennt gott hljóð í kaupmönnum og bjartsýni ríkjandi á góða jólaverslun, við verðum ekki vör við að fólk sé neitt að draga úr, ekki strax í það minnsta.“

Halldór Halldórsson hefur um langa hríð rekið verslun með úr og skartgripi á Glerártorgi og er ánægður með jafna og stöðuga umferð allan nóvembermánuð. „Við byrjum með afmælishátíð í byrjun mánaðar og síðan hefur umferð verið stöðug. Mér líst vel á upphaf jólaverslunar, hún fer vel af stað, en margir byrja einmitt í kringum tilboðin á svörtum föstudegi.“

Haukur Már Hergeirsson verslunarstjóri hjá Elko segir að oft hafi biðröð myndast við búðina þegar opnað er og mikið fjör alla daga. „Þessi vika hefur verið mjög góð, við erum með tilboð tengd svörtum föstudegi alla vikuna, dreifum þessu á fleiri daga og það hefur gefið góða raun. Landsmenn ætla sér greinilega að nýta tilboðin og gera hagstæð kaup,“ segir Haukur og bætir við að margir nýti sér verslanir í meira mæli en undanfarin ár þegar fjöldatakmarkanir voru í gildi.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir