Til að komast af í okkar harða og miskunnarlausa heimi þurfum við á von að halda, því ekkert gerist án vonar. Hún er drifkraftur lífsins. Án vonar getum við bara pakkað saman og gleymt þessu.
Ekkert er öruggt í þessum heimi
Þegar klukkan er eitt megum við eiga von á að eftir klukkustund verði hún tvö. Þannig vonumst við til að tíminn haldi áfram og við séum ekki stöðugt að upplifa okkar síðasta.
Þegar við förum að heiman vonumst við til að skila okkur á áfangastað og komast síðan að lokum aftur heim, ekki satt? Þegar við förum að sofa á kvöldin vonumst við til að vakna að nýju morguninn eftir. Þegar síminn hringir og við svörum megum við eiga von á að heyra rödd í símanum. Þegar við leggjum fé í banka vonumst við til að geta ávaxtað það og tekið það síðan aftur út. Þegar við kaupum okkur hús vonum við að það haldi vindi og vatni. Þegar við kaupum okkur bíl vonumst við til að hann virki og komi okkur á milli staða. Þegar við kaupum heimilistæki vonumst við til að þau virki og hreinlega ætlumst til þess, þótt vissulega sé ekkert öruggt í þeim efnum frekar en nokkru öðru. Þannig getur vonin brugðist okkur. Í lífi okkar togast vonin á við óttann. Vonin vekur bjartsýni, eykur þrek og þor en óttinn stuðlar að kvíða. Þannig gerir vonin okkur jákvæð og upplitsdjörf, þrátt fyrir allt, en óttinn og kvíðinn draga úr okkur og lama og gera okkur neikvæð.
Allir þurfa á von að halda
Allir þurfa á von að halda. Við sem fetum okkur fram veginn í átt til framtíðar þurfum á von að halda. Börnin okkar þurfa á von að halda, nemendur þurfa á von að halda, allt vinnandi fólk þarf á von að halda, að ekki sé talað um atvinnulausa. Ástfangið fólk þarf á von að halda. Hjón og uppalendur þurfa á von að halda. Þeir sem eru haldnir erfiðum sjúkdómum þurfa á von að halda. Syrgjendur þurfa á von að halda og ekki síst þarf deyjandi fólk á von að halda.
Já, líka við sem finnst vonin hafa brugðist okkur, við þurfum samt áfram á henni að halda.
Spurning um lífsafstöðu
Vonin er að miklu leyti bundin lífssýn og því spurning um hugarfar og ákvörðunartöku eða lífsafstöðu. Tækifærin til að geta notið vonarinnar eru nefnilega allt í kringum okkur. Stundum komum við bara ekki auga á ljósið fyrr en myrkrið er skollið á.
Trúin er fullvissa vonarinnar
Enginn vonar það sem hann veit, sér eða getur þreifað á. Það liggur fyrir. Það eru staðreyndir sem ekki þarf að deila um.
Því finnst mér gott að eiga trú á upprisinn lifandi ósýnilegan frelsara, sem vekur með mér von og eykur mér andlegt þrek til að takast á við aðstæður mínar hverju sinni.
Trúin er nefnilega fullvissa um það sem við vonum, sannfæring um þá hluti sem ekki er hægt að sjá.
Því er svo mikilvægt að halda í vonina, þrátt fyrir öll vonbrigðin, og gera hana að meðvituðu og markvissu leiðarljósi í lífinu.
Trú, von og kærleikur
Gleymum því aldrei að þegar allt kemur til alls er það er í rauninni aðeins þrennt sem virkar sem drifkraftur í þessum heimi. Það er trúin, vonin og kærleikurinn. Og þeirra er reyndar kærleikurinn mestur.
Þessi þrjú meginstef jákvæðrar nálgunar á lífið þurfa að haldast í hendur, vinna saman og styðja hvert annað.
Keppum því meðvitað og markvisst að því að vera kærleiksríkir vonarneistar, „vonistar“, í umhverfi okkar sem láta stjórnast af ávöxtum kærleikans, virðingu og samstöðu, þótt ólík séum. Umhyggju og uppörvun, jákvæðni og auðmýkt, gjafmildi og síðast en ekki síst þakklæti.
Og hverju ætli við höfum svo að tapa með því að fela okkur kærleiksríkum Guði, höfundi og fullkomnara lífsins, í von um að hann muni vel fyrir sjá?
Með kærleiks- og friðarkveðju!
Lifi lífið!
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.