Linda Finnbogadóttir Venegas fæddist á Siglufirði 18. maí árið 1942. Linda lést á Huntington-sjúkrahúsinu í Pasadena, Los Angeles, 5. október 2022.
Foreldrar Lindu voru Finnbogi Halldórsson skipstjóri, fæddur í Ólafsfirði 3. apríl árið 1900, látinn 27. mars 1954 og Jóna Friðrikka Hildigunn Franzdóttir, fædd á Dalvík 26. september 1910, látin 11. janúar 1965.
Systkini Lindu eru: 1) Karl Daníel, f. 25.11. 1928 á Siglufirði, kvæntur Ragnhildi Jónsdóttur, f. 26.2. 1930, d. 9.8. 2015, 2) Víðir, f. 20.4. 1930 í Vestmannaeyjum, kvæntur Karen Magnúsdóttur, f. 4.4. 1931, d. 29.3. 2018, 3) Hólmar, f. 21.2. 1932 í Vestmannaeyjum, d. 14.4. 2008, var kvæntur Sigrúnu Hallgrímsdóttur. Þau skildu. Seinni kona Hólmars var Karitas Guðmundsdóttir, f. 15.8. 1945. 4) Björk, f. 18.5 1942 á Siglufirði, gift Ólafi Steingrímssyni f. 5.1 1942. Systkinabörn Lindu eru eru átján.
Linda giftist Raul Venegas, f. 13.11. 1937, og eignuðust þau tvær dætur: 1) Letta Björk, f. 20.3. 1972, gift Felipe Lara, 2) Carlota Björk, f. 28.8. 1976.
Barnabörn Lindu eru fimm, Andres og Finnbogi og Julian, Sebastian og Zia.
Linda fluttist til Reykjavíkur frá Siglufirði ásamt foreldrum sínum og systkinum árið 1946. Linda útskrifaðist sem hjúkrunarkona frá Hjúkrunarkvennaskóla Íslands ásamt tvíburasystur sinni, Björk, árið 1963 og starfaði sem slík í Reykjavík, á Ísafirði, Vestmannaeyjum, Akranesi, Englandi og síðar árum saman í Los Angeles í Kaliforníu en þangað fluttist hún árið 1973.
Linda var afar elsk að landi sínu og þjóð, ekki síst sinni stóru fjölskyldu sem býr á Íslandi og reyndar víðar. Tíðar heimsóknir hennar til Íslands vöktu jafnan mikla tilhlökkun og gleði hjá henni, systkinum hennar og fjölskyldum. Linda og systkini hennar voru einkar náin og tækniframfarir nýttu Linda og Björk systir hennar og bræður sér til fulls og talaði Linda til Íslands daglega árum saman.
Bálför Lindu hefur farið fram í kyrrþey og duftker hennar verið jarðsett í Fossvogskirkjugarði að hennar eigin ósk.
Elsku Linda frænka okkar er fallin frá og er sárt saknað. Þrátt fyrir að hafa búið í Ameríku alla okkar tíð, þá var hún stór partur af lífi okkar systkina. Linda var eineggja tvíburasystir mömmu og voru þær um margt mjög líkar. Það var auðvelt að ruglast á þeim í síma og þær deildu kækjum, húmor, hreyfingum og fjöldamörgu öðru. Þær systur voru afskaplega nánar og það reyndi oft á mömmu að systir hennar byggi svona langt í burtu. Áður en farsímar og FaceTime voru í boði þá notuðu þær kassettutæki og „töluðu saman“ nær daglega. Mamma setti tækið á upptöku á meðan hún sinnti húsverkum eða yfir kaffibollanum á morgnana og sagði systur sinni frá okkar daglega lífi. Linda gerði eins í Kaliforníu og svo sendu þær spólurnar fram og til baka í pósti. Fyrir vikið fylgdust þær grannt með lífi hvor annarrar og gátu gefið umhyggju, góð ráð og annað, sem þær annars hefðu átt erfitt með vegna fjarlægðarinnar. Með tæknilegum framförum gátu þær að lokum talað saman í mynd og hringdust þær á nær daglega undanfarinn áratug. Linda frænka var sérlega hlý kona, gestrisin og örlát og það var gott að sækja hana heim. Hún hélt alltaf við tungumálinu sínu með lestri á íslenskum bókum, en einstaka sinnum henti það hana að rugla saman íslenskum og enskum orðum, oft með mjög skondnum afleiðingum. Til dæmis hrósaði hún einhvern tímann góðri máltíð með því að segja á ensku: „This was a wonderful meal, give my compliments to the kokk.“ Linda hló alltaf hátt og snjallt að sjálfri sér við þessar aðstæður enda hafði hún góða kímnigáfu og tók ekki sjálfa sig of hátíðlega. Hún var hörkutól, oft aðeins of mikið þannig að fólkið i kringum hana áttaði sig ekki alltaf á þegar hún þurfti að hægja aðeins á. Þegar hún kom í heimsóknir til Íslands á seinni árum, þá báru mamma og pabbi hana á höndum sér. Þau þrjú undu sér einstaklega vel saman og fóru í mörg góð ferðalög í gegnum árin. Pabbi kippti sér ekkert við að sofa stundum í gestaherberginu svo þær systur gætu setið uppi í rúmi og spjallað saman langt fram á nótt. Linda var einstaklega góð amma, ekki bara við sín eigin barnabörn, heldur líka barnabörnin hennar mömmu. Hún fylgdist alltaf grannt með öllu sem þeim viðkom og hringdi oft til að bjóða góð ráð, sýna stuðning og ástúð þegar eitthvað bjátaði á hjá okkur. Börnin okkar minnast hennar með mikilli gleði, því hún var skemmtileg frænka, gaf góðar gjafir, hlustaði vel og var alltaf svo hlý. Það er stórt skarð höggvið í fjölskylduna með fráfalli elsku Lindu okkar og hún mun svo sannarlega lifa áfram í minningunni. Hugur okkar er hjá dætrum hennar, Lettu Björk og Carlotu, sem eru að læra að lifa án mömmu sinnar. Við kveðjum þig með sárum söknuði, elsku frænka okkar. Takk fyrir að vera þú.
Með sorgarkveðjum,
Sigrún Ólafsdóttir,
Ólafur Darri Ólafsson, Orri Ólafsson,
makar og börn.
Þegar við hugsum um Lindu minnumst við einstakrar manneskju, hún var svo ljúf og jákvæð og sá allt það góða í fólkinu sínu og lífinu öllu. Linda var einnig afskaplega glæsileg, fínleg og falleg með dökka, þykka hárið sitt, alltaf svo fallega klædd með fallega brosið sitt.
Linda elskaði Ísland en hún hafði búið í Los Angeles í Kaliforníu öll sín fullorðinsár. Þar ytra stofnaði hún sína fjölskyldu og eignaðist yndislegu dætur sínar þær Lettu Björk og Carlotu Björk og eru barnabörnin orðin fimm. Linda var mikil fjölskyldumanneskja og þrátt fyrir að búa langt frá stórfjölskyldunni voru samskiptin mikil. Linda heimsótti Ísland eins oft og henni var unnt, einnig hringdi hún oft í fjölskyldumeðlimi, bæði systkini sín og börn þeirra og lagði mikið á sig til að vera í góðum tengslum og fylgjast með hverjum og einum. Margir úr fjölskyldunni hafa heimsótt Lindu til Ameríku, einnig hafa systkinabörn hennar mörg hver dvalið hjá henni um lengri eða skemmri tíma, sem au pair eða annað. Heimilið hennar stóð alltaf opið fyrir fjölskylduna og margir eiga dýrmætar minningar um dvöl eða heimsókn til Lindu.
Linda var mikill matgæðingur og eldaði dásamlegan mat. Við minnumst veislumáltíða sem Linda eldaði oft ofan í fjölda manns þegar hún var á Íslandi, sérstaklega þegar hún hélt mexíkóskar veislur sem hún var snillingur í, við elskuðum það.
Linda heimsótti Ísland í hinsta sinn síðastliðið sumar, fyrir samverustundir þá erum við systur þakklátar.
Við minnumst Lindu með mikilli hlýju um leið og við sendum eftirlifandi systkinum Lindu, Kalla, pabba okkar Víði og Björk og frænkum okkar Lettu og Carlotu og þeirra börnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(Valdimar Briem)
Minningin um yndislega konu mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.
Anna Jóna, Stella,
Berglind og Harpa.
Kveðjuorðin mín til frænku minnar voru einkar erfið, á myndsíma frá Hafnarfirði til Los Angeles. Því þar var ég að kveðja Lindu frænku hinstu kveðju en Linda hefur verið svo stór hluti af lífi mínu frá því ég fæddist þó hún hafi lengstum búið í Los Angeles.
Það hefur þó fátt komið í veg fyrir að Linda frænka hafi heimsótt föðurlandið sitt ótal sinnum og ég farið og heimsótt hana og fjölskyldu hennar mörgum sinnum.
Í gegnum árin okkar hefur Linda föðursystir mín frekar verið eins og systir mín en frænka. Það segir mikið um þessa stórkostlegu konu sem hún var.
Linda var svo ljúf, hún var svo glaðvær, hún var góðmennskan uppmáluð, og Linda var glæsileg yst sem innst.
Linda mín var systir hans pabba míns og þau áttu einstakt samband. Fallegasta systkinasamband sem ég hef séð.
Amma og afi, foreldrar hennar, dóu fremur ung frá þeim systkinum sem leiddi til þess að foreldrar mínir urðu þeim tvíburasystrum Lindu og Björk eins og foreldrar og því styrktust tengslin enn frekar.
Linda var einstök móðir dætra sinna, Lettu og Carlotu, einstök amma, einstök systir og mágkona og ekki síst dásamleg frænka okkar systkinabarna hennar sem mörg hver heimsóttu Lindu um lengri eða skemmri tíma og undu þar í dásamlegu skjóli hennar.
En Linda mín hafði heimþrá, hún saknaði Íslands og því hvílir hún á Íslandi þar sem hún var lögð til hinstu hvílu í kyrrþey.
Hafðu þökk fyrir allt og allt, dásamlega Linda frænka mín.
Hvíldu í friði.
Þú ert komin heim. Þín elskandi bróðurdóttir,
Jóna Dóra
Árin í heimavistinni í Hjúkrunarskólanum voru gefandi og skemmtileg og við sem hófum nám þarna haustið 1960 bundumst vináttuböndum sem aldrei hafa rofnað.
Ég kynntist Lindu og Björk mjög fljótt og við urðum góðar vinkonur þó að við kæmum úr ólíku umhverfi, ég sveitastelpan en þær ekta borgarstúlkur úr Reykjavík sem höfðu meira að segja ferðast til útlanda.
Eftir að námi lauk og við brautskráðar hjúkrunarkonur tók alvara lífsins við.
Minningarnar eru margar, dvölin í Englandi í enskunámi var mikil upplifun.
Heimkomnar nokkrum árum síðar leigðum við Linda saman íbúð vestur í bæ, við unnum þá báðar á Slysavarðstofunni. Hollsystur okkar voru flestar komnar með eiginmenn og jafnvel börn og þar á meðal Björk. Þetta var skemmtilegur tími, sambúðin gekk vel, Linda var mér reyndar mikið fremri í öllu heimilishaldi og matargerð.
En brátt var frjálsræðinu lokið og við fórum hvor í sína áttina. Linda fór til Bandaríkjanna og kynntist þar Raoul eiginmanni sínum og þau eignuðust tvær yndislegar dætur.
Vináttan hélst með bréfaskriftum og Linda kom til Íslands eins oft og kostur var. Þá var oft glatt á hjalla hjá okkur hollsystrunum, og við ræddum saman eins og árin hefðu þurrkast út.
Það var mér mikil ánægja að fá tækifæri til að heimsækja Lindu og fjölskyldu hennar til Los Angeles þegar ég var á ferð í Bandaríkjunum 1988. Mér var svo vel tekið af þeim öllum og Linda fór með mig um allt og sýndi mér margt og mikið í þessari stórkostlegu borg.
Síðasta Íslandsferð Lindu var í júní síðastliðnum og við hollsysturnar áttum saman ánægjustundir. Ekki datt okkur í hug þá, að rúmum þremur mánuðum seinna væri hún öll.
Linda var einstök, hafði hlýja og góða nærveru, henni var mjög annt un útlit sitt. Hún var vel gefin og bókhneigð og hafði sérstaka ánægju af að lesa íslenskar bækur. Hún var afskaplega gjafmild, kom alltaf færandi hendi til Íslands.
Ég sakna Lindu þó að samverustundir hafi ekki verið margar um árabil.
Elsku Letta Björk, Carlota, Björk, Karl og Víðir, við Hörður vottum ykkur og fjölskyldum ykkar einlæga samúð.
Jóna Margrét Kristjánsdóttir.
Hún Linda Finnbogadóttir gekk á vit forfeðra og –mæðra sinna 5. október síðastliðinn; sumpart hvíldinni fegin eftir langvarandi heilsuleysi, en samt svo lífsglöð og virk fram á síðasta dag. Hún bjó stærstan hluta sinna fullorðinsára í Los Angeles í Bandaríkjunum, en elskaði Ísland og allt sem íslenskt var heilshugar og með sterkri tilfinningu.
Hún Linda var litla systir Karls Finnbogasonar, tengdaföður míns, og var samband þeirra og annarra systkina einstakt í alla staði – elskan algjör og takmarkalaus. Ég kynntist því þessu góða fólki vel í gegnum tíðina og bast því sterkum vinaböndum.
Það var og er gott að vera hluti af þessari góðu og samheldnu fjölskyldu, þar sem vinátta, kærleikur og hjálpsemi var í öndvegi. Og ekki síst þegar Linda var mætt til leiks í heimsókn frá Bandaríkjunum og lífgaði og lýsti upp góðar stundir.
Ég þakka fyrir góða samferð og vináttu og bið eftirlifandi dætrum, Lettu Björk og Carlotu Björk, og barnabörnum Lindu Guðs blessunar. Guð gefi látnum ró og þeim líkn sem lifa.
Blessuð sé minning góðrar konu, Lindu Finnbogadóttur.
Guðmundur Árni Stefánsson.