Aðalsteinn Gunnarsson
Aðalsteinn Gunnarsson
Aðalsteinn Gunnarsson: "Áhrif áfengis varða ekki einungis þann sem drekkur heldur snerta þau einnig aðra fjölskyldumeðlimi. Bjartsýni eykst með auknum forvörnum."

NordAN hittist í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Þar var fjallað um áfengisforvarnir á breiðum grundvelli. Yfirskriftin var „Áfengi og fjölskyldulíf“ en Blái krossinn hélt utan um viðburðinn. Flutt voru meðal annars erindi um stöðu neyslu ungs fólks í fyrstu bylgju covid, foreldrasamstarf um forvarnir, „Fetal alcohol syndrom“ og „Fetal alcohol spectrum disorder“, Espad-rannsóknirnar, umferðaröryggi, barnavernd, norrænu velferðarnefndina ásamt áfengisstefnu Evrópu. Ályktun var sett saman í lok ráðstefnunnar þar sem komið var inn á að áhrif áfengis varða ekki einungis þann sem drekkur heldur snerta þau einnig aðra í fjölskyldu hans/hennar. Áfengisnotkun getur leitt til streitu innan fjölskyldunnar, samskiptavanda, átaka, öryggisleysis og jafnvel ofbeldis sem getur valdið varanlegum tilfinningalegum skaða. Erfiðir tímar, eins og covid-19-heimsfaraldurinn, geta verið sérstaklega varasamir vegna þess að þeir skapa aðstæður sem gera fólk berskjaldaðra en venjulega. Slíkar aðstæður geta magnað upp skaðleg áhrif áfengis og leitt af sér ástand sem fólk kann að eiga erfitt með að takast á við. Félagsþjónusta þarf að vera aðgengileg, skilvirk og taka mið af þeim fjölbreytilegu aðstæðum sem fólk stendur frammi fyrir. Þegar fjölskylda tekst á við áfengisvanda þarf að bregðast við á mörgum sviðum. Auk þess sem þjáist af áfengisneysluröskun (alcohol use disorder) gætu aðrir í fjölskyldu hans/hennar, sérstaklega börn, þurft sérstaka athygli og aðstoð. Þótt fjölskyldumiðuð meðferð geti verið gagnleg er mikilvægt að hafa í huga að hver einstaklingur hefur sínar sérstöku þarfir. Við verðum að geta tekið tillit til margra sjónarmiða og þarfa á sama tíma. Sem dæmi þarf foreldri með áfengisneysluröskun meðferð við fíkninni, hitt foreldrið (ef það er ekki með fíkn) gæti þurft aðstoð vegna meðvirkni, báðir foreldrar þurfa stuðning í foreldrahlutverkinu og hvert barn hefur sínar þarfir.

Ályktunin leggur áherslu á og styður eftirfarandi þætti sem varða réttindi og þarfir barna í fjölskyldum sem glíma við áfengisneysluröskun: 1) Barn á rétt á að koma í heiminn án þess að skaðast af áfengisdrykkju eða ávana- og vímuefnaneyslu foreldris. 2) Börn eiga rétt á æsku án skaða af völdum áfengis eða annarra ávana- og vímuefna. 3) Börn eiga rétt á æsku án áfengismarkaðssetningar og hvers kyns þrýstings til að drekka áfengi eða nota önnur ávana- og vímuefni. 4) Það ættu að fyrirfinnast skilvirk kerfi til þess að finna börn sem líða fyrir áfengi og önnur ávana- og vímuefni og styðja þau. Slík kerfi þurfa að vera alls staðar þar sem börn koma við sögu, svo sem í heilsugæslu og á öllum skólastigum. 5) Þekking, verkferlar og úrræði þurfa líka að vera fyrir hendi þar sem foreldrar eru. Allir sem vinna með fullorðnum með áfengisneysluröskun ættu að hafa sem vinnureglu að spyrja um börn og tryggja að þau fái einnig stuðning. 6) Það að draga almennt úr áfengisneyslu er mikilvægt framlag í að vinna gegn ofbeldi gagnvart börnum og ofbeldi og misnotkun í nánum samböndum. Við hvetjum stjórnvöld og sveitarfélög til að gera ráð fyrir áfengisneyslu í öllum áætlunum og starfsemi sem varðar fjölskyldur, börn og ungmenni. Það er mikilvægt að á tímum eins og covid-19 gleymist ekki að huga að áfengisvandanum sem alltaf er til staðar og versnar einungis þegar annað álag bætist við.

Að auki viljum við leggja áherslu á skuldbindingu Íslands, sem fer með formennsku í norrænu ráðherranefndinni árið 2023, um geðheilbrigði ungs fólks þar sem fram kemur að „forvarnir hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem áhrifaríkt tæki til að efla líkamlega og andlega heilsu, ekki síst meðal ungs fólks“. Við viljum einnig leggja áherslu á og styðja ályktun Eystrasaltsþingsins á 41. þingi þess, þar sem kallað er eftir hraðari innleiðingu SAFER, átaks Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem getur verndað fjölskyldur og einstaklinga fyrir áfengisskaða. Og við beinum orðum okkar til Norðmanna sem fara með formennsku í Norðurlandaráði (árið 2023), sem hefur viðurkennt að heimsfaraldurinn hafi haft áhrif á geðheilsu ungs fólks. Það kemur í þeirra hlut að skoða hvað gert var í faraldrinum til að verja heilsu ungs fólks á krepputímum; þar verður einnig að taka til skoðunar notkun og áhrif ýmissa ávana- og vímuefna.

Þátttakendur voru sammála um að nú sé bjartsýni að aukast um aukinn skilning yfirvalda á nauðsyn forvarna og að fram séu komnar sterkustu aðgerðirnar sem eru jafnvel ódýrastar í framkvæmd. Tími áfengisiðnaðarins til að frekjast með sinni gróðavon án tillits til neikvæðra afleiðinga er liðinn.

Höfundur er framkvæmdastjóri IOGT á Íslandi.

Höf.: Aðalsteinn Gunnarsson