Edward Magni Scott fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1943. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Akranesi, 18. nóvember 2022. Foreldrar hans voru Guðrún Jóhannesdóttir, f. 1924, d. 2018, og Troy Edward Scott, f. 1922, d. 1987.

Fósturforeldrar hans voru Ásgerður Þórey Gísladóttir, f. 1924, d. 1990, og Eiríkur Guðmundsson, f. 1920, d. 1960.

Hann ólst upp hjá þeim frá þriggja ára aldri en fór síðan nokkrum árum seinna til móðurafa síns Jóhannesar Jónssonar, f. 1889, d. 1982.

Systkin hans sammæðra eru Lucille, f. 1950, Barbara, f. 1952, David, f. 1962, og Kay, f. 1963.

Þann 30. október 1965 giftist hann Jónínu Sigfríði Karvelsdóttur, f. 23.7. 1943. Foreldrar hennar voru Halldóra S.G. Veturliðadóttir og Karvel Lindberg Olgeirsson.

Börn Edwards og Jónínu eru fimm: 1) Eiríkur Valgeir, f. 30.3. 1964, giftur Wendy Scott, f. 8.10. 1971, og eru börnin sex. 2) Dóra Björk, f. 23.3. 1965, gift Lárusi Hjaltested, f. 2.4. 1959, og eru börnin sex. 3) Eyþór Atli, f. 23.6. 1966, giftur Svanhildi Lýðsdóttur, f. 10.9. 1966, og eru börnin fjögur. 4) Gunnar Jóhannes, f. 8.4. 1976, í sambúð með Pálínu Guðmundsdóttur, f. 28.7. 1978, og eru börnin fjögur. 5) Lindberg Már, f. 25.5. 1982. Langafabörnin eru tuttugu og þrjú.

Edward ólst upp á Fögrubrekku í Súðavík og gekk hann í Barnaskóla Súðavíkur. Hann byrjaði að vinna ungur og vann við beitningu, til sjós, hjá Vegagerðinni og við fiskvinnslu. Um tíma átti hann ásamt öðrum gröfufyrirtækið Kögri sf. Hann var í ýmsum nefndum hjá Súðavíkurhrepp er hann bjó þar.

Árið 1986 fluttu þau til Akraness og hafa búið þar síðan. Á Akranesi vann hann við beitningu og í fiskvinnslu.

Útför Edwards Magna fer fram frá Akraneskirkju í dag, 25. nóvember 2022, kl. 13.

Athöfn verður streymt á vef Akraneskirkju.

Nú er komið að því að kveðja elsku pabba en það var erfitt að vera ekki á staðnum þegar hann fór.

Pabbi var staðfastur maður og vildi allt fyrir mig og mína gera. Hann var glaðlyndur, félagslyndur, hreinskiptinn, þrjóskur, elskaði að hlusta á harmonikkuspil, rokk og kántrí en hans uppáhaldstónlistarmaður var Fats Domino og fengum við oft að hlusta á hann.

Hann þekktist á hlátrinum því það fór ekki framhjá neinum er hann hló.

Hann var mikill fjörkálfur á yngri árum og hefur sennilega ekki verið auðveldasti drengurinn. Hann ólst upp hjá fósturforeldrum sínum, sem hann kallaði alltaf foreldra sína, frá þriggja ára aldri í ca. fjögur ár en þá fór hann til móðurafa síns vegna veikinda hjá fósturforeldrum og bjó hjá honum á Fögrubrekku í Súðavík.

Fyrir sautján ára aldurinn eignaðist hann jeppa og keyrði hann bílinn þó að ekki væru komin réttindi til þess. Voru þeir ansi lunknir vinirnir að skipta um sæti á ferð ef yfirvaldið nálgaðist þá.

Mamma og pabbi giftu sig eftir að tvö börn voru komin og mánuðir á milli barnanna voru ellefu og þrjár vikur. Mjög hentugt upp á afmæli að gera.

Hann naut þess að dansa og þá var tjúttað með mömmu og virkilega gaman að fylgjast með þeim því þau kunnu það.

Aldrei mátti sjást drullublettur á bílum sem hann átti en ef svo var, þá var tuskan tekin upp og bónið.

Pabbi og mamma fluttu á Akranes árið 1986 og byrjuðu að ferðast um landið þá. Þau nutu þess að fara til Súðavíkur á hverju sumri og eignuðust síðan Fögrubrekku í Súðavík eftir 2000 og voru með hjólhýsið sitt þar.

Hann sagði alltaf að enginn staður á jörðinni væri eins veðursæll á sumrin og Súðavíkin, var paradísin hans.

Hann naut þess að spila og kenndi barnabörnum og barnabarnabörnum ólsen-ólsen og vann hann alltaf. Vangaveltur voru um hvort hann hefði ekki bara svindlað því hann þoldi ekki að tapa.

Pabbi elskaði súkkulaði og var ekkert endilega að bjóða með sér en hann tók samt grænu molana úr Mackintosh-dósinni og hélt til haga fyrir Loga Mar.

Pabbi var alltaf heilsuhraustur en á síðustu árum fóru að koma fram kvillar sem hann var ekki alveg sáttur við og heftu hann við að gera marga hluti sem hann hafði yndi af.

Fyrir viku fór hann til læknis til að endurnýja ökuskírteini sitt og svaf hann lítið nóttina fyrir, því hann var svo hræddur um að fá ekki endurnýjun. En hann stóðst prófið og var eins og hann hefði unnið stærsta lottóvinning sögunnar er hann fór út með bráðabirgðaökuskírteini sitt.

Pabbi fór eins og hann hefði viljað skilja við, það er engin sjúkrahúslega.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, og sjáumst seinna í Blómabrekkunni.

Elska þig og sakna þín óendanlega.

Þín dóttir,

Dóra Björk.

Elsku pabbi.

Nú ertu farinn yfir í sumarlandið og bar það fljótt að, sem var í takt við þinn karakter því allt sem þú gerðir eða þurftir að gera varð að vinnast hratt.

Þegar ég lít til baka streyma minningarnar fram, í æsku varstu duglegur að spila við mig og kenndir mér t.d. mannganginn í skák. Í skákinni þurftir þú aldrei hrókana og gafst mér þá í forgjöf eins og þú sagðir. Til að byrja með vannst þú oftast í spilum og oft var ég ekki viss hvort þú hefðir svindlað enda varstu svolítið stríðinn en með tímanum breyttust spilin og ég fór að vinna þig.

Þegar ég var um 12 ára aldur starfaðir þú sem verkstjóri á Langeyri við Álftafjörð og baðst mig um að koma að vinna hjá þér. Þar átti ég að taka fisk frá flatningsvélinni og dýfa í kar fullt af vatni, skola fiskinn vel og setja svo upp á borð eða í hjólbörur. Ég man hvað ég var upp með mér með þessa vinnu sem var mín fyrsta en komst svo seinna meir að því að þetta væri kallað að vera í apavatninu. Síðar áttum við saman plastbát þar sem við lékum okkur meðal annars við að dorga saman á tveimur handfærarúllum.

Um 1990 keyptuð þið mamma ykkur hjólhýsi í Galtarholti sem þið áttuð í mörg ár og komum við Svanhildur ásamt börnunum oft þangað. Þar áttum við margar góðar stundir saman, bæði inni að spila og úti að leika. Um verslunarmannahelgi voru oft varðeldar og gat orðið mikið fjör.

Þú varst mikill bílaáhugamaður og ræddum við mikið saman um bíla. Mig grunar að þú hafir verið mikill Ford-maður. Þú hafðir gaman af því að kíkja á rúntinn og lagðir mikið upp úr því að bílarnir þínir væru hreinir og fínir. Þið mamma deilduð ýmsum áhugamálum saman svo sem að hlusta á tónlist, dansa og ferðast innanlands á húsbílnum, helst um Snæfellsnes og Vestfirði. Eftir að þið eignuðust aftur jörðina, Fögrubrekku í Súðavík, þá voruð þið mikið þar á sumrin með hjólhýsið og leið ykkur mjög vel þar. Það verður ekki annað sagt en að þú, pabbi, hafir verið mikill Vestfirðingur í þér því að alltaf þegar talið barst að Vestfjörðum fylgdist þú vel með, þá sér í lagi frá Súðavík.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, bestu kveðjur, elsku pabbi, í sumarlandið.

Þinn sonur,

Eyþór Atli.

Það eru ótal minningar sem koma upp í kollinn á þessari stundu.

Þér fannst alltaf svo gaman að spila og man ég eftir mörgum stundum þar sem við sátum saman og spiluðum ólsen-ólsen og alltaf „sigraðir“ þú. Stundirnar þar sem við sátum saman að hlusta á „afatónlist“, þú naust þess alltaf að hlusta á tónlist og varst alltaf minn helsti stuðningsaðili þegar kom að söngnum. Mér fannst jafn gaman að syngja fyrir þig eins og þér fannst að hlusta.

Þú varst alltaf svo hress og hafðir húmor fyrir öllu, það var alltaf gaman að borða með þér vínarbrauð þar sem þú reyndir að eigna þér þau flest en ég hélt nú ekki. Þessu gátum við hlegið að í hvert sinn sem við borðuðum vínarbrauð saman. Ég mun sakna þess að heyra hláturinn þinn, elsku afi.

Ég naut þess alltaf þegar ég sat á móti ykkur ömmu hinum megin við matarborðið og hlustaði á ykkur rifja upp gamla tíma, þið munduð ótrúlegustu hluti og ef annað ykkar mundi það ekki þá var hitt með það á hreinu.

Ég mun sjá til þess að halda áfram að spila ólsen-ólsen við strákana mína, hlusta á afatónlist, syngja og halda minningunni þinni á lofti, því hún er dýrmæt.

Elsku besti afi minn, ég ylja mér með hlýjum minningum og hugsa hlýtt til þín.

Ég sé þig seinna, sofðu rótt.

Í sumarlandið kominn er,

í Fögrubrekku situr.

Horfir yfir fjörðinn fagra

í fallegum regnbogans litum.

Þín

Ína.

Elsku afi.

Þegar við lítum til baka og hugsum um þig, þá fyllumst við gleði í hjarta. Þú varst stór karakter og barst alltaf velferð fólksins þíns fyrir brjósti og hafðir alltaf tíma fyrir okkur. Upp í hugann koma minningar úr æsku frá tímum okkar saman í hjólhýsinu hjá ykkur ömmu en þar þótti okkur gott að vera. Þar var teiknað, leikið og spilað þó svo við værum ekki alltaf sammála um hvort þú hefðir spilað heiðarlega enda vannstu óvenju oft.

Við minnumst þín sem mikils gleðigjafa með bros á vör sem gat alltaf komið okkur til að hlæja. Þú hafðir margar skemmtilegar sögur að segja og varst heiðarlegur í frásögn.

Nú ertu kominn á þinn uppáhaldsstað, Costa Del Súðavík, þar sem er alltaf bongóblíða eins og þú hafðir svo oft orð á.

Þú skilur eftir skarð í hugum og hjörtum okkar sem ekki verður fyllt en við þökkum fyrir margar ógleymanlegar minningar. Þær ylja um ókomna tíð og erum við þakklátar fyrir að hafa átt þig sem afa.

Guðbjörg Ása og Karen Sif.