Jóhannes Stefánsson
Jóhannes Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Úlfarsson og Jóhannes Stefánsson: "Geðþóttaákvarðanir í skattheimtu þegar hagnaður er talinn of hár fara gegn viðmiðum um fyrirsjáanleika og geta haft í för með sér mikla áhættu."

Íslenskt atvinnulíf hefur ekki siglt lygnan sjó undanfarin ár. Mikill titringur var í hagkerfinu í kjölfar útbreiðslu farsóttarinnar í ársbyrjun 2020 og loks þegar sá fyrir endann á faraldrinum braust út stríð í Evrópu með tilheyrandi afleiðingum. Til að bæta gráu ofan á svart eru kjarasamningar lausir og stéttarfélögin hafa ekki sparað stóru orðin. Í núverandi ástandi er aðeins eitt víst; óvissan.

Óvissa er óvinur okkar allra

Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lágmarka óvissu, í hvaða formi sem hún birtist okkur. Þar er hlutverk stjórnvalda að stuðla að aukinni festu með fyrirsjáanleika í ákvarðanatöku og draga úr óvissu eftir bestu getu. Það kemur undirrituðum því spánskt fyrir sjónir þegar talsmenn stjórnvalda lýsa þeirri skoðun að auka eigi álögur og skatta á fyrirtæki þegar vel árar. Sér í lagi málflutningur um að ákveðnar atvinnugreinar hagnist nú á tímabundnu ástandi, sem sé jafnvel tilkomið vegna ytri þátta.

Í staðhæfingum um aukna skattheimtu á meintan ofurhagnað virðist ákveðin staðreynd gjarnan gleymast. Hún er sú að skattar á Íslandi reiknast sem hlutfall af tekjum og hagnaði en eru ekki föst tala. Það þýðir að skatttekjur hins opinbera aukast samfara uppgangi í hagkerfinu. Sjávarútvegurinn verður gjarnan fyrir barðinu á þessari umræðu en til að mynda tvöfaldaðist afkoma í sjávarútvegi á milli ára í fyrra og viti menn, greiddur tekjuskattur í sjávarútvegi tvöfaldaðist sömuleiðis frá fyrra ári. Þar eru sérstök gjöld á sjávarútveginn ótalin.

Verum ekki lauf í vindi

Góð skattkerfi byggjast á fyrirsjáanleika. Stöðugleiki skiptir miklu máli þegar kemur að fjárfestingum og útgjöldum í rekstri fyrirtækja – sem standa bæði undir auknum hagvexti og bættum lífskjörum landsmanna. Geðþóttaákvarðanir í skattheimtu þegar hagnaður er talinn of hár fara gegn viðmiðum um fyrirsjáanleika og geta haft í för með sér mikla áhættu. Skattkerfið á ekki að vera eins og lauf í vindi.

Það er aldrei tryggt að atvinnugrein, eða fyrirtæki, geti skilað hagnaði. Stundum gengur vel og stundum illa. Afkoma á það nefnilega sameiginlegt með sköttum að hún er ekki fasti. Verðmætin verða ekki til af sjálfu sér. Sú umgjörð sem við höfum búið íslensku atvinnulífi hefur skapað vænlegt umhverfi til fjárfestinga til lengri tíma, til að kaupa ný tæki og tól, ráða starfsfólk og stunda rannsókna- og þróunarstarf. Þannig höfum við m.a. tryggt að við Íslendingar séum í fararbroddi þegar kemur að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda. Hér má einnig nefna að Ísland er eina landið á meðal OECD-ríkja þar sem skatttekjur af sjávarútvegi eru hærri en niðurgreiðslur.

Hvæs eða síðasta andvarp?

Afleiðing geðþóttaskattlagningar er sú að fyrirtækjum sem gengur vel, og greiða þar með hærri skatta, er refsað fyrir velgengnina. Þá hækka skattarnir hlutfallslega í góðu árferði en á móti standa þessi fyrirtæki ein og óstudd þegar illa árar. Það getur skapað óheilbrigða hvata í hagkerfinu. Sveiflukennd skattlagning dregur úr hvötum til fjárfestinga og nýsköpunar, sem heftir vöxt framleiðni og verðmætasköpunar. Hið síðarnefnda er það sem ákvarðar efnisleg lífskjör og ástæða þess að við Íslendingar erum meðal mestu velmegunarþjóða heims.

Jean-Babtiste Colber, fjármálaráðherra Loðvíks 14. Frakkakonungs, lýsti skattheimtu eins og list sem snúist um að plokka gæsina þannig að sem flestar fjaðrir fáist með sem minnstu hvæsi. Að öllu virtu er geðþóttaskattlagning ávallt slæm hugmynd og áður en lagt er í að reyta gæsina er nauðsynlegt að geta gert greinarmun á hvæsi og síðasta andardrætti. Allsber gæs lifir ekki lengi.

Höfundar eru hagfræðingur og lögfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands.

Höf.: Gunnar Úlfarsson, Jóhannes Stefánsson