Ingveldur Björnsdóttir fæddist 11. október 1946. Hún lést 7. nóvember 2022.

Útför Ingveldar fór fram 21. nóvember 2022.

Það féll í minn hlut að baka upprúllaðar pönnukökur fyrir erfidrykkjuna hennar ömmu. Á meðan ég hrærði í deigið stillti ég á Ellý Vilhjálms og raulaði með, til að gera seinustu stundina okkar ömmu saman í eldhúsinu hátíðlega. Ég spyr mig þó hvort Ellý hafi verið klisja, því ég minnist þess ekki að amma hafi nokkurn tímann hlustað eitthvað sérstaklega á Ellý. Raunar minnist ég þess ekki að amma hafi mikið verið raulandi.

Lífið krafði ömmu um að vera hörkudugleg – sem hún var. Hún var vinnuþjarkur. Þegar ég hugsa um ömmu hugsa ég um fjölskylduna. Um Kílakot. Ég hugsa um öll þau skipti sem ég hef reynt að setja mig í hennar spor – að ala upp fimm ólátabelgi á Blönduósi. Ég man jóladagsboðin þar sem hún bar fram kræsingar yfir allan daginn en minnist þess ekki að hafa séð hana borða meira en smakk af jafningnum. Ég man eftir kakómalti úr örbylgjuofninum, að leggja kapal í þögn, að leggja okkur inni í sjónvarpsherbergi í þögn, þegar hún sagði við mig: „Prófaðu að vanda þig við allt sem þú gerir.“ Amma gerði nefnilega allt vel. Óteljandi ullarsokkar, peysur, upprúllaðar pönnukökur og sviðakjammar. Og ég pirraði mig stundum á ömmu. Ég pirraði mig á að það væri alltaf svo mikill ys á henni. En þetta var það sem hún kunni best: hún hugsaði vel um fólkið sitt og allt sem hún gerði var gert af alúð.

Þegar ég hugsa um ömmu þá hugsa ég um Þórsmörk. Hún tjaldaði utan við tjaldsvæðið öll þau sumur sem við fórum í mörkina. Ég sé hana fyrir mér í fullum útivistarskrúða ganga til okkar þar sem við krakkarnir sátum með úfið hárið að borða morgunkorn úr plastskálum. Ég finn lyktina af blóðberginu og hrauninu og ég man hvernig hún brosti. Þetta yrði dagur stútfullur af ævintýrum. Og ég er ekki frá því að ég heyri hana raula.

Eydís Blöndal.