Ármannsreitur Hjúkrunarheimilið Sóltún (rauða byggingin) til vinstri. Fjölbýlishúsin standa við götuna Sóltún.
Ármannsreitur Hjúkrunarheimilið Sóltún (rauða byggingin) til vinstri. Fjölbýlishúsin standa við götuna Sóltún. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil uppbygging er fyrirhuguð á lóðinni Sóltún 2-4 á svokölluðum Ármannsreit í Reykjavík. Þegar breytt deiliskipulag fyrir reitinn var auglýst fyrr á þessu ári barst mikill fjöldi athugasemda og mótmæla frá íbúum í nágrenninu

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Mikil uppbygging er fyrirhuguð á lóðinni Sóltún 2-4 á svokölluðum Ármannsreit í Reykjavík. Þegar breytt deiliskipulag fyrir reitinn var auglýst fyrr á þessu ári barst mikill fjöldi athugasemda og mótmæla frá íbúum í nágrenninu. Engu að síður hefur deiliskipulagið verið samþykkt í tveimur fagráðum borgarinnar og bíður nú fullnaðarafgreiðslu í borgarstjórn.

Ármannsreitur er í Túnunum og afmarkast af Sóltúni, Miðtúni, Nóatúni og Hátúni. Þarna var Glímufélagið Ármann með starfsemi um árabil og dregur reiturinn nafn sitt af því. Eftir að Ármann flutti í Laugardalinn var reiturinn tekinn til annarra nota og reist þar hjúkrunarheimilið Sóltún, sem opnað var í ársbyrjun 2002. Sóltún 2-4 er eina óbyggða lóðin á reitnum. Í deiliskipulagstillögunni felst í meginatriðum að lóðinni verði skipt í tvennt. Annars vegar verður hjúkrunarheimili á númer 2 og hins vegar íbúðir á númer 4. Breytingar á húshluta nr. 2 eru þær að tvær álmur eru lengdar til að bæta við hjúkrunarrýmum, 5. hæðinni er bætt við að hluta og kjallarinn verður stækkaður.

Íbúðir í stað hjúkrunarrýma

Breytingar á húshluta nr. 4 eru þær að formi byggingarreitsins er breytt og notkun er breytt úr hjúkrunarheimili yfir í íbúðir. Þá er hæðarheimild breytt úr fjórum hæðum í fimm hæða hús með 6. hæð að hluta. Hámarksbyggingamagn að meðtöldum kjallara eykst úr 19.300 fermetrum í 22.850 fermetra. Fjölga á hjúkrunarrýmum Sóltúns um 36 og ráðgerðar eru 79 íbúðir í fjölbýlishúsinu.

Sem fyrr segir barst mikill fjöldi athugasemda og mótmæla frá íbúum í næsta nágrenni. Lutu þær í meginatriðum að því að byggingamagn væri of mikið á lóðinni og húsin of há. Þá gera íbúarnir athugasemdir við að byggja eigi fjölbýlishús í stað hjúkrunarheimilis. Enn fremur eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi verið könnuð áhrif aukinnar bílaumferðar. Fleiri athugasemdir voru gerðar.

„Nýju tillögurnar loka af byggingarnar í Mánatúni og Sóltúni og virka kæfandi fyrir íbúa sem þar búa,“ segir í einni athugasemdinni. „Við búum í Mánatúni 2, sem er blokkin næst Sóltúni. Við keyptum þessa íbúð árið 2020 og þá vissum við af fyrirhugaðri byggingu. Með sölunni fylgdu teikningar og skuggamynd af fyrirhugaðri byggingu og sættum við okkur við það þar sem skugginn kom ekki inn á pallinn okkar. Með breytingu á byggingunni, með því að hækka hana, mun skugginn hylja algjörlega pallinn okkar á þeim tíma sem við njótum sólarinnar mest. Þetta teljum við vera gríðarlega skerðingu á okkar lífsgæðum þar sem aðalástæða fyrir kaupum á þessari íbúð var að njóta þess að hafa pall og sól. Skugginn mun líka hafa gríðarleg áhrif á birtu í íbúðinni og rýra verðgildið. Það er í raun verið að setja hverfið okkar í skugga. Við mótmælum því harðlega þessari breytingu,“ segir í annarri athugasemd.

Þrátt fyrir þessi hörðu og almennu mótmæli íbúa í hverfinu var deiliskipulagstillagan samþykkt óbreytt í borgarráði með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Þetta var stefnubreyting hjá sjálfstæðismönnum, en fulltrúar þeirra í umhverfis- og skipulagsráði höfðu setið hjá við afgreiðslu málsins þar.

Uppbygging í þéttri byggð

Borgarráðsfulltrúar meirihlutaflokkanna, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, bókuðu að lóðin Sóltún 2-4 væri á skipulögðu íbúðasvæði samkvæmt aðalskipulagi og lengi hefði staðið til að byggja á svæðinu. „Niðurstaða greiningar er að skuggavarp breytist óverulega vegna breyttrar tillögu og sé innan þeirra marka sem við má búast þegar uppbygging á sér stað í þéttri borgarbyggð.“ Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, bókuðu að mikilvægt væri að hönnun leiksvæðis og almannarýmis yrði vönduð og útfærð í samráði og sátt við alla íbúa á svæðinu.

Margir eru á biðlista

Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, Sunna Magdalena Mörtudóttir, harmaði í bókun að borgin hefði ekki haldið sig við upprunalegt deiliskipulag reitsins, sem gerði ráð fyrir að allur reiturinn yrði nýttur í hjúkrunartengda þjónustu. „Í nóvember eru 122 á biðlista eftir þjónustuíbúð í Reykjavík og hefði verið betra að sjá kvaðir um samfélagslega uppbyggingu, t.d. þjónustuíbúðir á þessum reit, frekar en íbúðir á almennum markaði.“