Völundur Þorsteinn Hermóðsson, búfræðikandídat og leiðsögumaður, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 26. nóvember sl. eftir skamma sjúkdómslegu. Hann fæddist í Nesi í Aðaldal 8. nóvember 1940 og var fyrsta barn foreldra sinna, Jóhönnu Álfheiðar…

Völundur Þorsteinn Hermóðsson, búfræðikandídat og leiðsögumaður, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 26. nóvember sl. eftir skamma sjúkdómslegu. Hann fæddist í Nesi í Aðaldal 8. nóvember 1940 og var fyrsta barn foreldra sinna, Jóhönnu Álfheiðar Steingrímsdóttur, húsmóður og rithöfundar, og Hermóðs Guðmundssonar, bónda og frumkvöðuls í Laxárdeilunni.

Völundur ólst upp hjá foreldrum sínum, fyrst í Nesi og síðan nýbýlinu Árnesi, sem þau stofnuðu árið 1945. Hann átti þrjú yngri systkini, Sigríði Ragnhildi, Hildi og Hilmar.

Hann útskrifaðist gagnfræðingur frá Laugaskóla, fór í Bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist sem búfræðikandídat 1961. Völundur stundaði síðan framhaldsnám í vélaverkfræði við búnaðarháskólann í Ultuna í Svíþjóð. Eftir að hann kom heim vann hann hjá Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga, hjá búnaðardeild atvinnudeildar Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Völundur starfaði síðan hjá Surtseyjarfélaginu við rannsóknir í Surtsey. Eftir það flutti hann á heimaslóðir og stofnaði fyrirtæki sem rak skurðgröfur og rútur. Þekktastur var Völundur sem leiðsögumaður og leiðbeinandi við Laxá í Aðaldal þar sem hann þekkti hvert kennileiti og hvern veiðistað eins og lófann á sér.

Völundur kvæntist 1961 Höllu Lovísu Loftsdóttur kennara, f. 31.5. 1943. Börn þeirra eru: 1) Steinunn Birna, f. 1961, sem starfar á Heilsugæslu Húsavíkur. Eiginmaður hennar er Sigmundur Hreiðarsson, framleiðslustjóri hjá Norðlenska, synir þeirra eru Jóhann Ágúst og Vilberg Lindi. 2) Viðar, hárgreiðslumeistari og danskennari í London, f. 1963, maki hans er Robert Gowing lögfræðingur. 3) Völundur Snær, f. 1973, matreiðslumaður í Reykjavík. Eiginkona hans er Þóra Kolbrá Sigurðardóttir, rithöfundur og blaðamaður, börn þeirra eru Baldvin Snær og Móey Mjöll. Barnabarnabörn Völundar og Höllu eru þrjú.