Andmæli Mikill fjöldi fólks úr byggðum við strandlengju Noregs ferðaðist langa leið til Óslóar þar sem mótmælt var fyrirhuguðum skattahækkunum norsku ríkisstjórnarinnar.
Andmæli Mikill fjöldi fólks úr byggðum við strandlengju Noregs ferðaðist langa leið til Óslóar þar sem mótmælt var fyrirhuguðum skattahækkunum norsku ríkisstjórnarinnar. — Ljósmynd/Norsk Nærings- og Nytelsesmiddelarbeiderforbund
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óhætt er að segja að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, svokallaða grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Óhætt er að segja að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, svokallaða grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins. Skattahækkunin, sem lögð er til, hefur haft ýmsar hliðarverkanir sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar. Fyrirtæki hafa hætt við fjárfestingar, gripið til uppsagna og norska ríkisstjórnin hefur þurft að minnka gjaldstofn nýs auðlegðarskatts sem og bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, Havbruksfondet.

Þann 28. september síðastliðinn tilkynnti norska ríkisstjórnin að hún myndi leggja fyrir norska Stórþingið til samþykktar frumvarp um nýja 40% grunnleigu á sjókvíaeldi þar í landi. Verði tillagan samþykkt verður frá og með 1. janúar 2023 innheimt grunnleiga sem bundin er vísitölu meðalverðs á laxi, en söluverði á urriða og regnbogasilungi. Gert er ráð fyrir að grunnleigan skili 3,65 til 3,8 milljörðum norskra króna í tekjur, jafnvirði um 49 til 51,3 milljarða íslenskra króna, sem skipt verði milli ríkis og sveitarfélaga.

Norska ríkið gerir ráð fyrir að grunnleigan, ásamt tekjuskatti lögaðila, geri það að verkum að jaðarskattar fiskeldisfyrirtækja verði 62%, en að skatthlutfallið verði 51,3%. Á móti benda fiskeldis- og vinnslufyrirtækin á að grunnleigan, sem lögð er til, bætist við hækkun auðlegðarskatts á framleiðsluleyfi sem hafa verið útgefin, hækkun tekjuskatts lögaðila, hærra framleiðslugjald og hærri auðlindaskatt. Það sé því í raun verið að leggja 80% skatt á sjókvíaeldið.

Í kjölfar tilkynningar norsku ríkisstjórnarinnar um nýja grunnleigu af sjókvíaeldi hófu hlutabréf fiskeldisfyrirtækjanna, sem skráð eru í kauphöllina í Ósló, að falla. Verðmæti þeirra dróst á einum degi saman um 44 milljarða norskra króna, um 632 milljarða íslenskra króna eins og gengið er nú. Samhliða hafa fyrirtækin sett fjárfestingar fyrir um 24 milljarða norskra króna á ís.

Urðu af milljörðum

Úthlutun framleiðsluleyfa fer fram í gegnum uppboðskerfi í Noregi, sem tekið var upp fyrir nokkrum árum. Í aðdraganda uppboðs ársins í október hvöttu framleiðendur og vinnslustöðvar, í gegnum samtök sín Sjømatbedriftene og Sjømat Norge, norsk yfirvöld til að fresta uppboðinu í ljósi mikilla sviptinga á mörkuðum og óvissu vegna áforma um auðlindaskatt. Ekki var tekið tillit til varnaðarorða greinarinnar og þegar útboðið fór fram 13. október fengust mun færri krónur í opinbera sjóði en gert var ráð fyrir. Var því spáð, fyrir tillögu ríkisstjórnarinnar um auðlindaskatt, að útboðið myndi skila um tvöfalt meiri tekjum en raunin varð. Áætla samtök útgerðar- og fiskeldisfyrirtækja, Sjømat Norge, að norskt samfélag hafi orðið af um 4 milljörðum norskra króna, jafnvirði tæplega 58 milljarða íslenskra króna.

Stórum hluta af tekjum sem fást við útboð framleiðsluleyfa er ráðstafað til norskra sveitarfélaga í gegnum fiskeldissjóð, Havbruksfondet. Það urðu því mikil vonbrigði víða í byggðum við strandlengju Noregs vegna niðurstöðu útboðsins. Ekki varð staðan betri þegar fréttist að vegna tekjujöfnunarákvæðis í frumvarpi um nýtt auðlindagjald standi til að höfuðborgin Ósló fái tekjur í gegnum auðlindaskattinn nýja, þrátt fyrir að þar séu engar sjókvíar eða annar rekstur sem skatturinn nær til.

Gripið til uppsagna

Um miðjan nóvember sagði fiskeldisfyrirtækið Salmar upp 851 starfsmanni í vinnslustöðvum félagsins á Frøya og Senja. Ástæða uppsagnanna var í fréttatilkynningu sögð tillaga ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á greinina „sem hefur eyðilagt markaðinn fyrir langtímasamninga á föstu verði. […] Slíkir samningar eru venjulega gerðir löngu fyrir afhendingu og eru þeir algjörlega nauðsynlegir til að fylla aðstöðuna af nægri vinnslustarfsemi,“ sagði fréttatilkynningunni.

Benti Salmar á að um væri að ræða þreföldun framleiðslutengdrar skattlagningar á greinina um áramótin. Gagnrýndi félagið harðlega að skattstofninn skyldi miða við meðalverð á uppboðsmarkaði fyrir heilan fisk þar sem slíkt verð „getur vikið verulega frá raunverulegu innleystu söluverði fjölbreytilegra afurða og samningsgerða.“

Fyrr í nóvember sagði einnig Lerøy upp starfsfólki, alls 339 manns, og sagði í fréttatilkynningu að þetta væri „óumflýjanleg afleiðing óreiðuástandsins sem ríkisstjórnin hefur valdið“.

Mótmælt

Senterpartiet (systurflokkur Framsóknarflokksins á Íslandi), sem situr í ríkisstjórninni og hefur hefðbundið sótt fylgi sitt til hinna dreifðu byggða, hefur fengið miklar skammir, ekki síst frá eigin stuðningsfólki vegna áforma um stórfelldar skattahækkanir á eldisgreinarnar. Orðið hefur til hreyfingin „Kystbrølet“ eða „strandaröskrið“ sem í er fólk frá byggðum við strandlengjuna sem mótmælir skattahækkununum. Mættu fleiri hundruð til Óslóar í síðustu viku til mótmæla við norska Stórþingið.

Þá tilkynnti norska ríkisstjórnin í síðustu viku að hún hygðist bæta tjón sveitarfélaga af misheppnuðu útboði framleiðsluleyfa með því að leggja 800 milljóna norskra króna viðbótarframlag í fiskeldissjóðinn. Jafnframt hefur ríkisstjórnin þurft að gera fleiri breytingar á áformum sínum og hefur samþykkt að auðlegðarskattur á framleiðsluleyfi verði ekki miðaður við markaðsverð þeirra árið 2020, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, heldur það verð sem fékkst í hinu mislukkaða útboði sem fram fór í október.

Ekki er ljóst hvort norska ríkisstjórnin hyggst gera frekari breytingar á skattatillögum sínum en ljóst er að mikið uppnám er í atvinnugreininni og hefur það haft pólitískar afleiðingar. Senterpartiet, sem var ótvíræður sigurvegari þingkosninganna 2021 með 13,5% fylgi og var í oddastöðu við myndun ríkisstjórnar, mældist í tveimur skoðanakönnunum sem birtar voru í gær með 3,5% og 5,9% fylgi. Staðan var ekki betri fyrir Verkamannaflokkinn sem mældist með rúm 17% í báðum könnunum en fékk 26,3% í kosningunum.