Forseti Jiang Zemin heilsar hér Davíð Oddssyni í valdatíð sinni.
Forseti Jiang Zemin heilsar hér Davíð Oddssyni í valdatíð sinni. — Morgunblaðið/Jim Smart
Jiang Zemin, fyrrverandi forseti Kína, lést í gær, 96 ára að aldri. Jiang varð aðalritari kínverska kommúnistaflokksins í kjölfar atburðanna á Torgi hins himneska friðar árið 1989, og forseti á árunum 1993-2003

Jiang Zemin, fyrrverandi forseti Kína, lést í gær, 96 ára að aldri. Jiang varð aðalritari kínverska kommúnistaflokksins í kjölfar atburðanna á Torgi hins himneska friðar árið 1989, og forseti á árunum 1993-2003. Hann hóf fyrstu skref Kínverja í átt að því að verða annað stærsta hagkerfi heims.

Tilkynnt var um andlát hans með bréfi frá flokksfélögum hans, sem sögðu hann hafa verið „framúrskarandi leiðtoga“ og frábæran marxista og leiðtoga „öreigabyltingarinnar“. Þá var honum þakkað fyrir að hafa kveðið niður þá óánægju sem varð sumarið 1989 með því að hafa framfylgt „réttum ákvörðunum“ flokksins.

Miklar breytingar urðu í embættistíð Jiang. Sem dæmi, þegar hann lét af störfum sem forseti árið 2003 var Kína m.a. orðið aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni auk þess sem búið var að tryggja að Peking yrði gestgjafi Ólympíuleikanna árið 2008. Landið hafi verið á góðri leið með að verða að stórveldi í kjölfar valdatíðar hans.

Óheppilegur tími fyrir Xi

Andlát Jiang kemur á óheppilegum tíma fyrir forseta Kína, Xi Jinping, sem hefur mátt sæta mikilli gagnrýni undanfarin misseri en víða hefur fólk mótmælt honum og harðri stefnu hans í Covid-málum. Þá hafa sum mótmæli snúist upp í kröfu um að landið auki lýðræði og frelsi borgaranna. Xi stendur því nú frammi fyrir erfiðu vali, hvernig syrgja skuli Jiang.

Jiang kom hingað til lands sumarið 2002 í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta Íslands, þar sem þeir ræddu samstarf ríkjanna tveggja ásamt Davíð Oddssyni, sem þá var forsætisráðherra. Jiang fór í þeirri heimsókn meðal annars að Geysi í Haukadal og snæddi í Perlunni.