Hversu mikið er fullveldið þegar lögin berast í pósti frá Brussel?

Í dag er fullveldisdagurinn, 1. desember, en þá minnast Íslendingar þess þegar Ísland öðlaðist – fyrir 104 árum – langþráð sjálfstæði undan 656 ára erlendum yfirráðum fyrst Norðmanna og svo Dana. Áður hafði þjóðveldið staðið í 388 ár.

Sjálfsagt sem okkur kann að þykja sjálfstæði landsins nú, þá er hollt að minnast þess að meirihluta þess tíma, sem Ísland hefur verið byggt, var það undir erlendri stjórn. Það voru Íslendingar sjálfir sem gengu erlendu konungsvaldi á hönd og tíndu til þess ýmsar góðar og gildar ástæður. Gleymdu því hins vegar, sem Einar Þveræingur hafði skynsamlegt til þeirra mála lagt um að ekki myndu konungarnir allir reynast góðir eða til blessunar.

Um leið og við rifjum það upp eigum við ekki síður að minnast þeirra þjóðhollu og bjartsýnu manna sem börðust hinni löngu en friðsamlegu baráttu fyrir frelsi þjóðarinnar, trúðu á mátt hennar og megin, treystu á framtíð hennar í harðbýlu landi og hörðum heimi. Vissu að enginn gæti betur farið með hagsmuni Íslendinga en þeir sjálfir, þó að þeim væri líka ljóst að stjórn þeirra gæti einnig verið upp og ofan.

Allt frá endurreisn Alþingis árið 1845 fram til 1918 stóð baráttan á Alþingi um endurheimt sjálfstæðis þjóðarinnar, bæði hinu lögformlega en einnig hinu andlega og efnalega. Það var á grundvelli hins síðarnefnda, sem hið fyrra varð óhjákvæmilegt og þjóðin öðlaðist sjálfstæði bæði í orði og á borði. Það er rétt að hafa það hugfast á þessari nýju öld, þegar Ísland hefur opnast fyrir umheiminum og alþjóðleg áhrif bersýnileg á hverjum skjá og hverju götuhorni.

Fullveldið endurheimtu Íslendingar þegar ægilegum hildarleik var nýlokið í Evrópu og hér geisaði hryllileg drepsótt og frostavetur. Forverum okkar var því fullljóst að vandi fylgir vegsemd hverri, en þeir gerðu sér einnig ljósa grein fyrir kostum landsins og tækifærum eftir langvinnan efnahagsuppgang og framfarir í menningarlegu og pólitísku tilliti, þar sem almennur kosningaréttur hafði verið upp tekinn þremur árum fyrr. Þá tók að myndast það stjórnmálaumhverfi sem enn er að breyttu breytanda við lýði.

Sjálfstæðisbaráttan snerist ekki um að brjótast undan erlendu kúgunarvaldi – stjórn Dana markaðist fremur af áhugaleysi en yfirgangi – heldur miklu frekar um að Íslendingar gætu ráðið sér sjálfir og nýtt tækifærin sem forsjónin og framfarir höfðu fært okkur.

Það á allt enn við. Íslendingar taka dyggan þátt í alþjóðlegu samstarfi og eru aðilar að hinu frjálslynda, reglubundna alþjóðasamfélagi, sem mótað var eftir seinni heimsstyrjöld, en nokkuð hefur verið sótt að á undanförnum árum. Ísland hefur gengist undir margvíslegar alþjóðlegar skuldbindingar á þeirri vegferð, að ógleymdri aðildinni að hinu Evrópska efnahagssvæði (EES), sem hefur að mörgu leyti samhæft stjórnsýslu, atvinnuumhverfi og lífsskilyrði almennings því sem gerist á meginlandi Evrópu.

Það hefur haft margvíslegan ávinning í för með sér, en annað hefur reynst síðra og sumt jafnvel andstætt íslenskum hagsmunum. Það er ekki vegna þess að Brusselvaldið sé Íslendingum fjandsamlegt eða aðrar alþjóðastofnanir sitji um landið. Fremur má segja að þar reynist að mörgu leyti skiljanlegt áhugaleysi, jafnvel skeytingarleysi, um íslenska hagsmuni og aðstæður Íslendingum þyngst í skauti. Rétt eins og þegar fjarlægir kóngar fóru með æðsta vald í málefnum lands og þjóðar.

Í þætti Dagmála, streymis Morgunblaðsins á netinu, sem sýndur var í gær, var rætt við Arnar Þór Jónsson, lögmann og varaþingmann Sjálfstæðisflokksins, sem jafnframt er formaður Fullveldisfélagsins. Hann ræddi þar um bæði frelsi og fullveldi og lá talsvert á hjarta. Ekki þá síst hvernig menn hefðu gefið frá sér bæði frelsi og fullveldi af værukærð og jafnan af hinum besta ásetningi. Eins og áður eru það þó afleiðingarnar sem þarf að hafa mestar áhyggjur af.

Af fullveldi Íslands leiðir, að íslensk lög, dómsvald og lögsaga ríkir í landinu og nær til allra sem hér dveljast. Arnar Þór spurði hins vegar réttilega hversu mikið fullveldið væri í raun í ljósi þess aragrúa laga og reglugerða sem Alþingi og stjórnarráðinu berast einfaldlega í pósti frá Brussel og þurfa að leggja blessun sína yfir.

Það kann að vera þægilegt fyrir löggjafann að láta aðra hafa fyrir lagasmíðinni. En það eru landsmenn allir sem bera af því afleiðingar og kostnað án þess að hafa nokkuð um það að segja. Ef ábyrgðinni er þannig aflétt, þá er frelsinu það einnig. Er það ásættanlegt fullveldi?