Skalli Harry Souttar er magnaður skallamaður. Hann fór nokkrum sinnum illa með danska framherjann Martin Braithwaite í loftinu í gær.
Skalli Harry Souttar er magnaður skallamaður. Hann fór nokkrum sinnum illa með danska framherjann Martin Braithwaite í loftinu í gær. — AFP/Natalia Kolesnikova
Miðvörðurinn Harry Souttar hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu með Ástralíu á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar. Souttar, sem er 24 ára, hefur leikið hverja einustu mínútu fyrir landslið þjóðar sinnar á mótinu

HM 2022

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Miðvörðurinn Harry Souttar hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu með Ástralíu á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar. Souttar, sem er 24 ára, hefur leikið hverja einustu mínútu fyrir landslið þjóðar sinnar á mótinu. Átti hann stóran þátt í að liðið hélt hreinu gegn bæði Túnis og Danmörku og fór í 16-liða úrslit í annað sinn í sögunni.

Souttar hefur verið samningsbundinn Stoke City, sem leikur í ensku B-deildinni, frá árinu 2016, en lék aldrei með liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Var hann lánaður til Fleetwood Town, sem þá var í ensku C-deildinni, tímabilin 2018/’19 og 2019/’20. Þar lék hann afar vel og var orðinn lykilmaður hjá Stoke tímabilið eftir.

Sleit krossband í landsleik

Eftir að hafa byrjað síðustu leiktíð afar vel með Stoke, varð hann fyrir því óláni að slíta krossband í landsleik með Ástralíu gegn Sádi-Arabíu 11. nóvember á síðasta ári. Vegna þessa var varnarmaðurinn frá keppni í heilt ár, því hann lék ekki aftur með Stoke fyrr en 8. nóvember síðastliðinn í 2:0-sigri á Luton. Næsti leikur þar á eftir var gegn Frakklandi á lokamóti HM. Honum var því hent í djúpu laugina frægu, um leið og hann jafnaði sig á gríðarlega erfiðum meiðslum.

Meiðslin hafa lítið hægt á Souttar, því hann hefur leikið virkilega vel með ástralska liðinu. Hann er rétt tæpir tveir metrar, tapar varla skallabolta og var hann sérstaklega góður gegn Túnis í öðrum leik. Einnig var hann öruggur í flestum sínum aðgerðum í sigrinum góða gegn Danmörku í gær.

Bróðirinn leikur með Skotum

Þrátt fyrir að leika með ástralska landsliðinu, er Souttar uppalinn í Skotlandi. Móðir hans er áströlsk en faðir hans skoskur. Hann er uppalinn hjá skoska stórliðinu Celtic, en lék aldrei með aðalliði félagsins.

Þess í stað skipti hann yfir til Dundee United, þar sem hann náði aðeins tveimur leikjum í skosku úrvalsdeildinni, áður en hann var keyptur til Stoke. Þar þurfti hann að vera þolinmóður, því hann var búinn að vera hjá félaginu í fimm ár, þegar hann lék sinn fyrsta aðalliðsleik. Síðan þá hefur hann verið einn besti leikmaður liðsins.

Souttar lék nokkra leiki með U17 og U19 ára landsliðum Skotlands, áður en hann ákvað að leika með ástralska landsliðinu. Bróðir hans, John Souttar, hefur leikið sex leiki með A-landsliði Skotlands og skorað í þeim eitt mark.