Í Manchester María ásamt dætrum á EM kvenna í fótbolta í haust.
Í Manchester María ásamt dætrum á EM kvenna í fótbolta í haust.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Björg Ágústsdóttir fæddist 1. desember 1982 á fæðingarheimilinu í Reykjavík og ólst upp í Garðabæ. „Ég byrjaði í fótbolta árið 1989 og endaði fljótt í marki þar sem yngsti flokkurinn á þeim tíma var 4

María Björg Ágústsdóttir fæddist 1. desember 1982 á fæðingarheimilinu í Reykjavík og ólst upp í Garðabæ.

„Ég byrjaði í fótbolta árið 1989 og endaði fljótt í marki þar sem yngsti flokkurinn á þeim tíma var 4. flokkur og stelpurnar því um 4 árum eldri en ég. Það snerist allt um fótboltann á yngri árum, hvert tækifæri nýtt til að hoppa út á tún með krökkunum í hverfinu, þó ég hafi einnig stundað tónlistarskólann, bæði sem trompetleikari í lúðrasveit Garðabæjar og sungið í barnakór Garðabæjar.“

María gekk í Garðaskóla og fór síðan í Verzlunarskólann. „Það var bókhaldstími í 10. bekk sem kveikti áhugann á Verzlunarskólanum. Þaðan útskrifaðist ég af hagfræðibraut árið 2002.“

Strax eftir útskrift flutti María til Bandaríkjanna þar sem hún hóf nám í Harvard og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu í hagfræði sumarið 2006. „Sá tími var allt að því draumkenndur, en þrátt fyrir að mikill tími færi í lærdóm var vel haldið utan um nemendur og alltaf skemmtilegt að setjast niður í Annenberg Hall, sem var matsalur allra nemenda á fyrsta ári og kynnast nýju fólki. Meðfram námi spilaði ég með knattspyrnuliði Harvard háskólans og íslenska kvennalandsliðinu svo það var talsvert flakkað á milli landa á þessum árum.

Ég fór svo beint í viðskiptaháskóla Oxford í Englandi og íhugaði að fara í doktorsnám. Ég fann þó fljótlega að akademían væri ekki mitt draumastarf til lengri tíma og útskrifaðist ég því með MSc í stjórnunarfræðum haustið 2007.“

Í framhaldinu flutti María heim og hóf störf við lausafjárstýringu í fjárstýringu Glitnis banka í september 2007. „Það varð fljótt ansi fjörugt í vinnunni því einungis ári síðar skall bankahrunið á. Í framhaldinu var ég beðin um að koma að störfum fyrir skilanefnd bankans og þrátt fyrir að hafa einungis séð fyrir mér nokkurra mánaða starfssamning var ég þar til 2018 og flutti mig svo til Íslandssjóða þar sem ég vinn með gefandi og skemmtilegu fólki.“ Þar gegnir María stöðu deildarstjóra viðskiptaþróunar.

María hélt áfram knattspyrnuiðkun eftir að hún kom heim úr náminu í Englandi. „Verandi uppalin Stjörnukona hafði ég skipt yfir í KR í nokkur ár en endaði svo ferilinn hér heima með liði Vals, sem sannarlega er hægt að segja að hafi verið mín uppáhaldsár í boltanum, en árið 2010 unnum við allt sem hægt var á vinna á árinu og urðum fimmfaldir meistarar sem hafði ekki verið leikið eftir áður.

Þeir leikir sem standa helst upp úr eru bikarúrslitaleikur Vals og Breiðabliks á árinu 2009 þegar við lentum undir en náðum að sigra 4-1 í framlengingu eftir 1-1 jafntefli í venjulegum leiktíma. Sá leikur bauð upp á skemmtilegan leik fyrir áhorfendur. En sá sem stendur allra mest upp úr er landsleikurinn við Írland á Laugardalsvelli 30. október 2008 þar sem leikið var á gaddfreðnum grasvelli. Ólíkt leikmönnum Írlands man ég ekki eftir því að það hafi verið sérstaklega rætt á neikvæðan hátt innan hópsins hvað þetta væru furðulegar aðstæður. Spurningarnar lutu helst að því hvort betra væri að vera í takkaskóm eða gervigrasskóm enda enga festu að fá í grasinu. Hugur allra leikmanna var einfaldlega á einn veg, við myndum tryggja okkur á EM í fyrsta sinn með þessum leik, í hvaða aðstæðum sem er. Það þýddi ekkert að vera velta sér upp úr því hversu kalt væri. Það var stórkostleg upplifun að ljúka þeim leik með sigri.“

María tók sér launalaust leyfi árið 2011 frá Glitni þar sem henni bauðst atvinnumannasamningur hjá knattspyrnuliði Örebro í Damallsvenskan deildinni í Svíþjóð. „Það ár fór ekki sérlega vel þar sem ég þurfti að leggja skóna á hilluna eftir slæm meiðsl. Þrátt fyrir að fótboltaferillinn hafi endað fyrr en ég ætlaði er ég þakklát fyrir þennan tíma og að hafa fengið að læra tungumálið.

Þó að aldurinn sé ekki hár hefur fyrri hluti ævinnar verið mér afar gjöfull og margt sem ég get þakkað fyrir með mikilli hlýju. En á svona tímamótum er líka oft gott að líta yfir farinn veg og ætli minn lærdómur sé ekki, þegar ég staldra við í þessum hálfleik, að hægja aðeins á hraðanum í seinni hálfleik. Tíminn líður svo hratt og fleiri ár eru svo sannarlega ekki sjálfsögð.

Áhugamálin hafa legið aðeins niðri vegna framkvæmda við hús og garð síðastliðið ár en fyrir nokkrum árum datt ég inn í frábæran fjallahjólahóp þar sem engin vandamál voru til staðar, einungis tækifæri til að finna nýjar lausnir þrátt fyrir mikið bras oft á tíðum. Slík útivist er einstök og fær maður tækifæri til að sjá Ísland með allt öðrum augum en áður, þar sem gangan með hjólið á bakinu upp fjallið var ávallt þess virði vegna adrenalínsins og frelsisins sem ferðin á leið niður gefur af sér.

COVID-tímabilið gaf af sér byrjun laxveiðidellunnar, enda hægt að fá mun hagstæðari verð á veiðileyfunum meðan túrisminn lá niðri. Sumarið 2020 fór ég í mína fyrstu laxveiði með stórum hópi kvenna sem hefur í framhaldinu farið einu sinni á ári og verður stefnan næsta sumar sett á Grímsá eftir tvö sumur í Þverá/Kjarrá og eitt í Blöndu. Einnig var ég lánsöm að fá að prófa Langá síðastliðið sumar með öðrum stórum og skemmtilegum kvennahópi þar sem gleðin er síst minni á bakkanum en í ánni.

Á meðan fjallahjólið hefur legið ónotað alltof lengi inni í bílskúr hefur fókusinn farið meira í að skapa minningar með börnunum, líkt og hringferðin í hjólhýsinu með dætrunum árið 2019, og ég get ekki sagt að mér leiðist mikið að taka hvert ár í Hrekkjavökuskreytingum aðeins lengra en árinu áður. En ætli golfið fari ekki að lauma sér inn í dagskrána næstu árin á milli Hrekkjavaka og laxveiðiferða?

Fjölskylda

Maki Maríu er Klara Íris Vigfúsdóttir, f. 6. 3. 1981, starfsmannastjóri. Þær eru búsettar í Garðabæ. Foreldrar Klöru: Hjónin Sólveig Brynjólfsdóttir, f. 30.8. 1950, d. 17.9. 2002, flugfreyja, og Vigfús Ásgeirsson, f. 17.5. 1948, tryggingastærðfræðingur. Núverandi eiginkona Vigfúsar er Þuríður Vilhjálmsdóttir, f. 12.11. 1956, flugfreyja. Þau eru búsett í Garðabæ.

Dætur Maríu með fv. maka, Erlu Hlíf Kvaran, f. 2.3. 1987, hjúkrunarfræðingi eru Unnur Ágústa, f. 1.8. 2012, og Sigrún Lára, f. 23.7. 2014. Stjúpbörn Maríu eru Vigfús Ingi, f. 6.1. 2010; Steinar Kári, f. 17.9. 2012, og Sveinn Mar, f. 15.8. 2014.

Systkini Maríu eru Helga Björg Ágústsdóttir, f. 8.5. 1972, sellóleikari, búsett í Garðabæ, og Ragnar Þórarinn Ágústsson, f. 4.10. 1975, tölvunarfræðingur hjá Landsbankanum, búsettur í Garðabæ.

Foreldrar Maríu eru hjónin Ágúst H. Bjarnason, f. 30.4. 1945, rafmagnsverkfræðingur, og Sigrún Ragnarsdóttir, f. 23.3. 1947, píanókennari. Þau eru búsett í Garðabæ.