Trivíaleikar Daníel Óli bjó til hlaðvarpið sem honum fannst vanta.
Trivíaleikar Daníel Óli bjó til hlaðvarpið sem honum fannst vanta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hugmyndin kviknaði sumarið 2021, þá hafði ég þjálfað Gettu betur-lið í hátt í áratug og var búinn að semja um tíu þúsund spurningar um allt milli himins og jarðar og fór að velta því fyrir mér hvort ég gæti gert eitthvað úr þessum…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

„Hugmyndin kviknaði sumarið 2021, þá hafði ég þjálfað Gettu betur-lið í hátt í áratug og var búinn að semja um tíu þúsund spurningar um allt milli himins og jarðar og fór að velta því fyrir mér hvort ég gæti gert eitthvað úr þessum spurningum,“ segir Daníel Óli Ólafsson, læknanemi og maðurinn á bak við spurningahlaðvarpið Trivíaleikarnir, en það er innblásið af Gettu betur og sambærilegum spurningakeppnum en sjálfur keppti Daníel fyrir hönd Borgarholtsskóla í Gettu betur árin 2013 og 2014 og hefur síðan tekið að sér að þjálfa lið fyrir keppnina.

„Ég byrjaði að taka saman spurningar, raða þeim í mismunandi spurningaflokka og setja þetta allt saman í spurningaspil sem kallaðist Trivíaleikarnir. Svo meðan ég var í þessari vinnu fór ég að leita að einhverju alvöru spurningakeppnishlaðvarpi til að hlusta á, hvort sem það væri erlent eða íslenskt, en ég fann ekkert sem hélt mér við efnið,“ sagði Daníel en hann vildi finna eitthvað fyndið, spennandi, passlega þungt en með nóg af kjöti á beinunum. Upp frá því kviknaði hugmyndin af hlaðvarpinu sem fagnar nú eins árs afmæli.

Hann segist hafa verið dálítið taugatrekktur fyrst þegar hann fékk vini sína til að taka upp með sér fyrsta þáttinn í skammdeginu í lok nóvember í fyrra.

„Fyrstu sekúndurnar eftir að ég byrjaði að taka upp heyrði ég hjartsláttinn minn í gegnum þögnina og hugsaði með mér: Jæja Daníel, hvað í ósköpunum ertu búinn að koma þér út í núna,“ sagði hann en hann segir að viðtökurnar hafi verið magnaðar. Hlustendatölur tífölduðust

„Í fyrstu og annarri vikunni í byrjun september tífölduðum við næstum hlustendatölur okkar. Svo margir sem hafa sagt við mig að þeir hafi ekki haft neinn áhuga á spurningakeppnum en urðu alveg „húkkt“ á Trivíaleikunum, þar sem þeir væru svo fyndnir og skemmtilegir,“ segir Daníel.

„Uppáhaldslofið sem ég hef fengið frá hlustanda var: „Það er ekki nóg með að maður hlæi endalaust með ykkur heldur læri ég alltaf eitthvað nýtt í hverjum þætti.“ Það er nákvæmlega tilgangurinn með þessu öllu,“ segir hann.

Daníel rifjar upp nokkur uppáhaldsatvik þáttarins fyrir blaðamanni en meðal þess sem hann minnist að hafa hlegið mikið yfir er þegar bæði liðin áttu í mesta basli við að muna á hvaða línu lagið Bohemian Rhapsody með Queen hefst.

„Liðin voru sönglandi í svona korter að reyna að muna hvaða lína kom fyrst en mest af því þurfti ég að klippa út,“ segir Daníel og hlær. „Bæði liðin komust ekki lengra en: „Mama, just killed a man”, sem var rangt og svo þegar rétta svarið kom loks fram heyrðust há angistarvein og liðin báðu Freddie Mercury og Queen-aðdáendur innilegrar afsökunar,“ rifjar hann upp kíminn. Hann segir að fyrsti þátturinn sé enn mest spilaði þátturinn enda sá þáttur sem flestir byrja á að spila þegar þeir uppgötva hlaðvarpið.

„Svo er áttundi þáttur af einhverjum ástæðum sá næstvinsælasti, við fengum okkur allir bjór í þeim þætti – það er kannski ástæðan,“ sagði Daníel. Sjálfur hlustar Daníel á fjölbreytt úrval hlaðvarpa en K100 fékk hann til að deila fimm af sínum uppáhaldshlaðvörpum.

Pitturinn

„Þessir strákar eru algjörir snillingar, ég get ekki ímyndað mér formúluna án þeirra. Það er alltaf veisla hvern þriðjudag þegar Kristján Einar og Bragi kryfja formúlu 1-keppni helgarinnar. Staðfest, skjalfest og þinglýst.“

Accused

„Blaðakona Cincinnati Enquirer fer ofan í saumana á gömlum morðmálum og tekur fyrir nýtt mál í hverri seríu. Líkt og fyrsta serían af hlaðvarpinu Serial gerði svo vel þá færir Accused manni þetta klassíska Netflix True Crime- fyrirkomulag í hlaðvarpsformi.“

Fozcast

„Fyrrverandi markmaður Watford, Ben Foster, fer yfir leiki ensku deildarinnar í hverri viku og fær til sín leikmenn og fótboltasérfræðinga í viðtöl um allt sem tengist íþróttinni, algjör negla.“

Tölvuleikjaspjallið

„Vikulegir spjallþættir um allt sem viðkemur tölvuleikjaheiminum, manni leiðist aldrei með Arnór og Gunnar í eyranu, fullkomið í göngutúrinn eða morguntraffíkina.“

Listin og lífið

„Mosfellingarnir Ástrós og Tanja tækla bókmenntir, leikrit, kvikmyndir og allt þar á milli. Skemmtilegt hlaðvarp sem allir bókmenntaspekúlantar ættu að kíkja á.“

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir