Viðræður Vilhjálmur Birgisson, Hjördís Sigurþórsdóttir og Björn Snæbjörnsson fulltrúar SGS.
Viðræður Vilhjálmur Birgisson, Hjördís Sigurþórsdóttir og Björn Snæbjörnsson fulltrúar SGS. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ríkissáttasemjari segir ýmsar ytri aðstæður ekki hjálpa til í yfirstandandi kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins, samflots iðn- og tæknimanna, LÍV, VR og Samtaka atvinnulífsins. Stíf fundarhöld voru í húsnæði ríkissáttasemjara í gærdag og fram til…

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

Ómar Friðriksson

Ríkissáttasemjari segir ýmsar ytri aðstæður ekki hjálpa til í yfirstandandi kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins, samflots iðn- og tæknimanna, LÍV, VR og Samtaka atvinnulífsins.

Stíf fundarhöld voru í húsnæði ríkissáttasemjara í gærdag og fram til klukkan rúmlega 18 í gærkvöldi og voru viðræðurnar sagðar á afar viðkvæmu stigi.

„Við fylgdum okkar áætlun,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við Morgunblaðið en fundi var slitið í gær klukkan rúmlega 18. Er boðað aftur til funda kl. 13 í dag. Spurður hvort VR og LÍV verði einnig á þeim fundi segir Aðalsteinn: „Nei. Við erum að sjálfsögðu í góðu sambandi en þetta eru þeir aðilar sem eru boðaðir á fund,“ segir hann og á við SGS, samflot iðn- og tæknimanna og SA.

„Þetta eru mjög krefjandi viðræður sem eiga sér stað. Og ýmsar ytri aðstæður sem hjálpa ekki til.“

Titringur vegna leka

Upplýsingum frá kjaraviðræðunum var lekið og greint frá þeim í fjölmiðlum í gær, þar sem sagt var frá því að krónutölu- og prósentuhækkanir væru til umræðu. Aðalsteinn segist ekki geta tjáð sig um efni viðræðnanna: „Það ríkir trúnaður um þau samtöl sem eiga sér stað hjá ríkissáttasemjara og sá trúnaður er bundinn lögum.“ Heimildir Morgunblaðsins herma að lekinn hafi sett samningsaðila í flókna stöðu.

Kapp er lagt á að ná niðurstöðu sem fyrst ef ganga á frá skammtímasamningi sem gildi til 14 mánaða eða út janúar árið 2024.

Samningamenn í Karphúsinu verjast allra frétta af gangi viðræðna en samkvæmt heimildum var um það rætt í viðræðunum að farin yrði blönduð leið krónutölu- og prósentuhækkana, sem er sögð afar vandasöm útfærsla og rætt hefur verið um að flýta útgreiðslu hagvaxtarauka, sem á samkvæmt lífskjarasamningnum að koma til greiðslu 1. maí á næsta ári. Miðað við hagvöxt um þessar mundir ætti sá launaauki að vera 13 þúsund kr. á launataxta og 9.750 kr. á föst mánaðarlaun í dagvinnu.

Eftir að VR sleit viðræðunum í seinustu viku má segja að SA standi frammi fyrir því verkefni að ná samningum við fjórar fylkingar launafólks, sem eru með mismunandi áherslur enda samsetning þeirra um margt ólík.

Þar er um að ræða samninganefnd SGS fyrir hönd 17 aðildarfélaga, VR, stærsta stéttarfélag landsins, og önnur félög verslunarmanna í LÍV, í þriðja lagi stórt samflot iðnaðar- og tæknifólks og loks stéttarfélagið Eflingu sem er eina félagið sem ekki hefur enn vísað kjaradeilunni til sáttameðferðar.

Samflot iðnaðar- og tæknifólks hefur fundað daglega með viðsemjendum í Karphúsinu að undanförnu og hófust fundarhöld þeirra fyrir hádegi í gær og stóðu fram eftir degi.

Stórir hópar millitekjufólks

Upp úr hádeginu komu svo samninganefndir SA og Starfsgreinasambandsins saman. Eftir því sem næst verður komist var þá litið svo á að viðræður þeirra væru langt á veg komnar en SGS mun hafa lagt fram tillögur með sérstakri áherslu á launahækkanir lágtekjufólks. Síðustu daga var rætt um að fara blandaða leið krónutölu- og prósentuhækkana til að sætta ólíka hópa, en ekki hefur verið með öllu útilokað að semja eingöngu um krónutöluhækkanir ef aðrar leiðir reynast ófærar.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði þó Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, að ekki stæði til að semja um neitt annað en krónutöluhækkanir af hálfu SGS. Viðræður SA og SGS voru sagðar komnar á beinu brautina í gærdag þó ekki lægi fyrir hvort þær leiði til samkomulags og hvort verslunarmenn koma að samningaborðinu og fást til að semja á þessum nótum.

Á bak við samninganefnd verslunarmanna eru stórir hópar millitekjufólks sem telja sig þurfa á umtalsverðum prósentuhækkunum að halda til að vega upp minnkandi kaupmátt vegna verðbólgu og mikilla kostnaðarhækkana að undanförnu.

Iðnaðar- og tæknimenn eru í svipaðri stöðu en Efling hefur aftur á móti hafnað prósentuhækkunum eins og fram hefur komið og fylgir eftir kröfunum um 56.700 króna flata krónutöluhækkun á öll laun og 15.000 kr. framfærsluuppbót til viðbótar.

Ljóst er einnig að atvinnurekendur líta svo á að allt sé í senn undir í yfirstandandi viðræðum og ef takist að loka samningum verði það gert gagnvart öllum hópum á sama tíma áður en upp er staðið.

Miklu skiptir svo hverju stjórnvöld munu spila út til að liðka fyrir á lokasprettinum.