Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson
Íslendingar hafa árum saman þurft að leita utan til að sækja sér læknisþjónustu sem hægt væri að veita hér á landi. Þetta hefur verið vitað lengi og töluvert rætt en lítið aðhafst eins og sjá má á nýjustu tölum í þessum efnum.

Íslendingar hafa árum saman þurft að leita utan til að sækja sér læknisþjónustu sem hægt væri að veita hér á landi. Þetta hefur verið vitað lengi og töluvert rætt en lítið aðhafst eins og sjá má á nýjustu tölum í þessum efnum.

Í Morgunblaðinu í gær mátti sjá að eftir fækkun á milli áranna 2019 og veiruársins 2020 fjölgaði þessum íslensku læknatúristum á ný og voru 164 í fyrra. Á þessu ári er útlit fyrir verulega fjölgun, nánar til tekið tvöföldun frá því í fyrra, eða vel yfir 300 utanlandsferðir sjúklinga sem fá ekki viðunandi þjónustu hér á landi.

Það sem hefur valdið þessum óþörfu og óþægilegu ferðalögum sjúklinga er tregða ríkisins við að greiða einkaaðilum hér á landi fyrir þessa læknisþjónustu. Þess í stað er valinn sá kostur að greiða erlendum sjúkrahúsum, einkareknum eða ekki, fyrir þjónustuna. Ekki nóg með það, kostnaðurinn er margfaldur á við það sem hann væri hér á landi, fyrir utan óþægindin fyrir sjúklingana.

Þá kom fram í umfjölluninni í gær að Sjúkratryggingar geri ráð fyrir auknum fjölda í desember og í byrjun næsta árs, sem boðar hvorki gott fyrir ríkissjóð né sjúklinga. Hjá ríkisvaldinu halda vangaveltur og umræður áfram, en lausn vantar. Nú er það líklega ekki lengur óvild í garð einkaaðila sem veldur ástandinu, en hvað þá?