Handónýtt Tölvukerfið sem læknar þurfa að nota er handónýtt.
Handónýtt Tölvukerfið sem læknar þurfa að nota er handónýtt.
Ljósvakaþáttur hefur sín tímamörk og ekki hægt að fara fram úr þeim vegna dagskrár. En stundum er miður að slík bönd séu á þáttum og óskandi að hægt væri að slaka á þeim. Þegar áhugavert umræðuefni er á ferð myndi maður glaður þiggja lengri…

Helgi Snær Sigurðsson

Ljósvakaþáttur hefur sín tímamörk og ekki hægt að fara fram úr þeim vegna dagskrár. En stundum er miður að slík bönd séu á þáttum og óskandi að hægt væri að slaka á þeim. Þegar áhugavert umræðuefni er á ferð myndi maður glaður þiggja lengri umfjöllun en því miður „komumst við ekki lengra að þessu sinni“, eins og þáttarstjórnendur segja gjarnan. Það er auðvitað ágætt þegar stjórnmálamenn keppast við að grípa hver fram í fyrir öðrum en í öðrum tilfellum væri gott að komast lengra.

Eitt slíkt dæmi er viðtal í morgunútvarpi Rásar 2 í gær. Það var áhugavert. Rætt var við Odd Þóri Þórarinsson lækni og tilefnið færsla á Facebook þar sem hann skrifaði m.a. um að stór hluti dagvinnu lækna færi í að eiga við hand­ónýtt tölvukerfi. Sagði Oddur frá því að umrætt tölvukerfi væri hægvirkt, óskilvirkt og hryndi nokkrum sinnum á dag. Úti á landi vantaði víða lækna, þar væru ekki fastir heimilislæknar og læknir kæmi því í nokkrar vikur og síðan tæki annar við. Með núverandi tölvukerfi sæju þeir ekki upplýsingar um skjólstæðinga, t.d. ekki yfir­lit yfir sjúkdóma, lyf eða ofnæmi. „Núverandi tölvukerfi er alveg handónýtt,“ sagði Oddur. En hvernig stendur á því að læknar þurfa að vinna með slíkt kerfi? Þeirri spurningu þarf að svara en við komumst því miður ekki lengra að þessu sinni.