[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öll höfum við okkar jólahefðir sem við ríghöldum í. Hefðir sem eru svo mikilvægar að fólk er tilbúið að arka um fjöll og firnindi í leit að fugli í útrýmingarhættu því annars verði bara engin jól og guð forði okkur frá því að borða skoskar villidúfur

Öll höfum við okkar jólahefðir sem við ríghöldum í. Hefðir sem eru svo mikilvægar að fólk er tilbúið að arka um fjöll og firnindi í leit að fugli í útrýmingarhættu því annars verði bara engin jól og guð forði okkur frá því að borða skoskar villidúfur. Það er bara ekki það sama.

Hamborgarhryggur virðist vera langvinsælasta jólamáltíðin hér á landi og fast á hæla honum koma svo kalkúnn, hangikjöt og ýmislegt annað sem við getum vart haldið jólin án.

Í minni fjölskyldu er kjölfestumáltíðin um jólin hangikjöt og kartöflusalat en þetta margfræga salat á sér sögu sem mér finnst um margt áhugaverð.

Móðir mín kynntist þessu salati á heimili vinafólks síns þegar hún var ung og tók strax ástfóstri við það. Hún kynnti það til leiks á heimili foreldra sinna þar sem það náði töluverðum vinsældum og náði þar fótfestu. Alla mína æsku fórum við í jólaboð til ömmu og afa þar sem boðið var upp á kalt hangikjöt og kartöflusalat. Ég varð því nokkuð hissa þegar ég frétti af því að þorri þjóðarinnar borðaði hangikjötið heitt með soðnum kartöflum og jafningi.

Í fyrsta sinn sem ég bauð eiginmanni mínum (sem er matreiðslumaður) upp á salatið starði hann opinmynntur á aðfarirnar og spurði hvort ég væri að grínast. Það vantaði allt bragð í þetta salat. Ég brást við af minni alræmdu yfirvegun og sagði það alrangt enda væri salatið hið fullkomna mótvægi við salt hangikjötið. Hann hristi hausinn og þegar ég dró fram paprikukryddið, sem er nauðsynlegt að sáldra ofan á salatið, hristi hann hausinn einfaldlega meira og gafst upp.

Frá þeim örlagaríka degi þegar móðir mín tók ástfóstri við salatið hefur það verið máttarstólpinn í jólahaldi fjölskyldunnar og ég hef staðfastlega boðað fagnaðarerindið af mikilli ákefð. Meira að segja eiginmaðurinn fær sér af því þótt hann stelist til að salta það og vera með smá bragðbætandi vesen.

Meira að segja tengdafjölskylda mín virðist loksins vera að sjá ljósið og um helgina kláruðust heilar tvær skálar af því og létu menn nokkuð vel af því.

Þetta kartöflusalat er nákvæmlega ekkert merkilegt og eins einfalt og hugsast getur. Bara kartöflur, egg, laukur og majónes. Helst í réttum hlutföllum. Þetta er síðan borðað með köldu hangikjöti og kryddað með paprikudufti. Eins metnaðarlaus matseld og hugsast getur.

En í mínum huga … og fjölskyldunnar boðar þetta salat komu jólanna. Þannig er það nefnilega með jólahefðirnar. Hversu ómerkilegar sem þær kunna að virðast þá skipta þær okkur svo miklu máli og þrátt fyrir allar gjafir og glingur eru það þessi litlu atriði sem öllu máli skipta.

Matur er manns megin og jólamaturinn er heilagur. Í þessu blaði höfum við fjölda góðra uppskrifta frá okkar besta fólki og ætti enginn að verða fyrir vonbrigðum. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og breyta aðeins til … svo lengi sem burðarstykkin halda sér.

Fyrir hönd Matarvefjar mbl.is óska ég ykkur gleðilegra jóla og vona að ykkur verði að góðu.