Kafbátur Rýnir segir Jón Kalman Stefánsson leika sér skemmtilega með sögumannsröddina í nýjustu skáldsögu sinni Gula kafbátnum.
Kafbátur Rýnir segir Jón Kalman Stefánsson leika sér skemmtilega með sögumannsröddina í nýjustu skáldsögu sinni Gula kafbátnum. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Guli kafbáturinn ★★★★· Eftir Jón Kalman Stefánsson Benedikt, 2022. Innbundin, 333 bls.

Bækur

Ragnheiður Birgisdóttir

Höfundur á miðjum aldri situr í almenningsgarði í London og veltir fyrir sér að taka Paul McCartney tali enda á hann, að eigin sögn, mikilvægt erindi við gamla Bítilinn. Á þá leið hefst nýjasta skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar, Guli kafbáturinn.

Við fylgjum þessum höfundi þegar hann dýfir sér í sífellu í minningalaugina þennan heita ágústdag í London. Hann kynnir lesendur fyrir litlum dreng með lifandi ímyndunarafl sem gerir sér vini úr Bítlunum fjórum, gömlu hjónunum á eftir hæðinni og þeim dánu í litlum kirkjugarði á Ströndum. Þessi drengur verður fyrir því mikla áfalli að missa móður sína og eftir það verður glíman við lífið, tilveruna og tilganginn með þessu öllu saman nokkuð snúin.

Hann reynir að nýta þau haldreipi sem hann getur til þess að átta sig á tilverunni enda fátt um svör við spurningum sem brenna á honum: Hvað varð um mömmu þegar hún dó? Og hvers vegna drekkur pabbi svona mikið? Jón Kalman nær vel að draga fram sakleysislegan og skemmtilega skrítinn hugsunarhátt barnsins og fylgdi ég þessum dreng af miklum áhuga, sérstaklega framan af.

Strákurinn verður fljótlega mjög upptekinn af Biblíunni og þeim persónum sem eru í aðalhlutverki þar. Á sama hátt og Bítlarnir verða að vinum hans fá Guð almáttugur, Jesús, María og margir fleiri hlutverk í hugarheimi hans. Þannig skoðar höfundurinn þetta áhrifamikla rit með óvenjulegum hætti.

Leikurinn með minningar þessa miðaldra rithöfundar og ímyndunarafl stráksins sem hann var einu sinni gerir það að verkum að frásagnarformið jaðrar við töfraraunsæi. Ímyndaðir vinir stráksins birtast ljóslifandi fyrir honum og fylgja honum í gegnum lífið.

Sögusvið verksins er annars vegar blokk í Safamýrinni, og fastir punktar í borgarlífi drengsins eins og grunnskólinn og sunnudagaskólinn, og hins vegar bóndabær á Ströndum þar sem strákurinn er í sveit með stjúpu sinni.

Það verður síðan vendipunktur þegar um tveir þriðju eru búnir af verkinu. Þá stekkur sögumaðurinn fram um um það bil tíu ár og yfir til Keflavíkur. Þetta er djarft stökk sem kemur á óvart og hristir upp í frásögninni sem er á þessum tímapunkti farin að verða ívið of endurtekningasöm.

Í Gula kafbátnum er að finna ýmis kunnugleg kalmanísk stef.

Tónlistin er höfundinum, eins og oft áður, ofarlega í huga. Hér eru það aðallega Bítlarnir og áhrif þeirra á heimsbyggðina sem mynda þráð í gegnum verkið, samanber titil verksins, Guli kafbáturinn, sem vísar í samnefnt lag hljómsveitarinnar frá 1966. Þó koma aðrir tónlistarmenn fyrir líka, t.d. Johnny Cash og Rod Stewart. Þessir tveir ólíku stólpar vestrænnar menningar, Biblían og Bítlarnir, kallast á og mynda ákveðna andstöðu.

Að sumu leyti minnir verkið á nýrri verk höfundar, Sögu Ástu (2017) og Fjarvera þín er myrkur (2020). Stíll Gula kafbátsins er svipaður, bæði margorður og margslunginn, og þarna er að finna óvenjuleg kaflaheiti sem hafa yfir sér kómískan blæ og töluvert tímaflakk sem minnir á frásagnarform þessara tveggja verka.

Jón Kalman tekst líka á við sömu stóru viðfangsefnin og til dæmis í Fjarvera þín er myrkur; líf og dauða og ekki síður órannsakanlega vegi minnisins.

En verkið tengist líka sterklega tveimur af eldri verkum hans, Ýmislegt um risafurur og tímann (2001) og Snarkið í stjörnunum (2003), þar sem má ætla að hann sé að vinna með form sem kalla mætti ‘sannsögu’ eða ‘skáldævisögu’, en útleggst ‘autofiction’ á ensku. Þessar bækur tvær voru einmitt endurútgefnar nú í haust af forlagi höfundarins, Benedikt bókaútgáfu.

Efniviður Gula kafbátsins er nauðalíkur efnivið Snarksins í stjörnunum. Þar er líka að finna sjö ára dreng sem hefur misst móður sína, elst upp í Hlíðunum og á föður sem keyrir um á Trabant.

Það er einhver hægagangur í framvindu þessa nýjasta verks, Gula kafbátsins. Þótt stíllinn sé svipaður og í verkunum tveimur sem á undan komu þá er byggingin einfaldari og frásögnin ekki jafn grípandi. Jón Kalman hefur áður skrifað bækur sem virðast við fyrstu sýn svolítið stefnulausar en þar hefur honum tekist að ríghalda í lesendur með því að byggja upp spennu og teyma þá áfram á forvitninni. En hér tekst sögumanninum ekki jafn vel að halda í lesandann.

Það er ekki þar með sagt að í verkinu sé ekki að finna mögnuð atriði og eftirminnilegar línur sem ýmist snerta við manni eða vekja mann til umhugsunar. Kalman er klókur höfundur sem leikur sér skemmtilega með sögumannsröddina og hann býr til net forvitnilegra tenginga sem gaman er að reyna að átta sig á.