[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eldra fólki í Mosfellsbæ hefur á síðustu miserum boðist líkamsþjálfun og fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar á námskeiði sem nefnist Heilsa og hugur. Þátttakan hefur verið góð og nú er að ljúka tólf vikna námskeiði sem um 60 manns tóku þátt í

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Eldra fólki í Mosfellsbæ hefur á síðustu miserum boðist líkamsþjálfun og fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar á námskeiði sem nefnist Heilsa og hugur. Þátttakan hefur verið góð og nú er að ljúka tólf vikna námskeiði sem um 60 manns tóku þátt í. Þjálfarar og stjórnendur námskeiðsins eru Halla Karen Kristjánsdóttir og Berta Guðrún Þórhallsdóttir sem báðar hafa langa reynslu af íþróttaþjálfun hvers konar. Síðustu árin hafa þær í vaxandi mæli starfað með eldra fólki, enda hefur sýnt sig að reglubundin þjálfun, fjölbreyttar líkamsæfingar og góð samvera gerir öllum gott. Að fá þennan hóp til þáttttöku og í hreyfingu er áherslumál víða um land, ekki bara í Mosfellsbæ.

„Hér er ekki aðeins verið að bæta árum við lífið heldur líka lífi í árin. Þar sem Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag er þetta verkefni eitt af fjölmörgum öðrum verkefnum sem bærinn hefur stutt við. Einnig höfum við verið í samstarfi við heilsugæsluna og fleiri,“ segir Halla Karen um námskeið þessi, sem njóta mikilla vinsælda.

Miklar framfarir

Góð heilsa fólks nær til líkama en ekki síður sálar. Því er á námskeiðunum í Mosfellsbæ lögð mikil áhersla á heildræna nálgun, þar sem margir þættir eru undir. Þátttaka í æfingunum er algjörlega á forsendum hvers og eins, enda þótt þjálfararnir leggi línurnar og leiðbeini.

„Við veitum góð ráð og hvetjum, en enginn þátttakandi fer þó lengra en hann treystir sér til. Það er ánægjulegt að sjá hvað framfarir fólks eru miklar hvað varðar styrk, þol og jafnvægi sem og öryggi við framkvæmd æfinganna eins og við höfum séð í mælingum,“ segir Halla Karen.

Námskeiðið fer fram í íþróttamiðstöðinni á Varmá í Mosfellsbæ og er mæting þrisvar í viku. Einu sinni í viku er fræðsla, gönguferðir og útivist. Í fræðslustundum eru tekin fyrir fjölbreytt efni, svo sem uppskrift að góðri andlegri líðan, næring, svefn, jákvæðni og gleði, núvitund og hreysti. Tvisvar í viku er svo innanhússþjálfun í sal. Þar eru teknar fjölbreyttar æfingar með eigin líkamsþyngd, teygjum og lóðum. Einnig er litið til þess að byggja upp og auka þol og liðleika og bæta jafnvægi og samhæfingu.

Tónlist, taktur og hreyfing

„Tónlist skipar stóran sess hjá okkur og vinnum við mikið með takt og hreyfingar. Í verkefnum sem þessu er gleðin annars mjög mikilvægur þáttur. Einnig hafa samveran og góður félagsskapur góð áhrif á andlega vellíðan, sem leiðir til og getur gert lífið enn skemmtilegra. Við erum fullar tilhlökkunar að halda ótrauðar áfram að þjálfa eldra fólk. Ekkert er meira gefandi en að sjá fólk huga vel að heilsu sinni og blómstra,“ segir Halla Karen, sem síðan í vor hefur verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ.

Nú fyrr í vikunni var haldin uppskeruhátíð með skemmtilegum æfingum, göngu og söng í fallega jólagarðinum. Eftir æfingarnar var glæsilegt pálínuboð. Þar lagði hver og einn þátttakandi bakkelsi á borð svo úr varð glæsilegt veisluborð og notaleg stund eins og vera ber á aðventu.

Frábær hreyfing og góður félagsskapur

Hægir á framgangi parkinson

„Leikfimin er mér afar mikilvæg. Fyrir tíu árum greindist ég með parkinson, sem breytti vissulega mörgu í mínu lífi. Með því að vera virkur og stunda fjölbreytta hreyfingu tel ég hins vegar að mér hafi tekist að hægja á ferli sjúkdómsins og þar með viðhalda miklum lífsgæðum,“ segir Andrés Arnalds náttúrufræðingur. Þau Guðrún Pálmadóttir eiginkona hans, sem búa í Mosfellsbæ, hafa síðustu árin verið meðal þátttakenda í æfingum þeim sem þær Halla Karen og Berta stjórna.

„Þetta er frábær hreyfing þar sem til þjálfunar eru teknir þættir eins og til dæmis liðleiki, jafnvægi og styrkur. Þetta hefur gert mér ákaflega gott og félagsskapurinn er góður. Gleði og æfingarnar eru afar upplífgandi. Einnig kemur inn í þetta fræðsla, bæði um góðar æfingar, hugarfar og æskilegt mataræði. Slíkt hefur áhrif á framgang þess sjúkdóms sem ég glími við – og því finnst mér frábært að þessi fjölbreytta líkamsrækt bjóðist okkur eldra fólkinu hér í bæ,“ segir Andrés Arnalds.