Alzheimer Sjúkdómurinn er algengasti taugahrörnunarsjúkdómur í heimi og er talið að hann hrjái allt að 50 milljónir manna um víða veröld.
Alzheimer Sjúkdómurinn er algengasti taugahrörnunarsjúkdómur í heimi og er talið að hann hrjái allt að 50 milljónir manna um víða veröld. — AFP/Alain Jocard
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is Alzheimer-vísindaheimurinn, sem er búinn að vera að eltast við lækningu við þessum sjúkdómi áratugum saman, er núna allur mjög uppveðraður út af þessum niðurstöðum,“ segir Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir og formaður Læknafélags Íslands, um jákvæðar niðurstöður rannsókna á nýja tilraunalyfinu lecanemab.

Fréttaskýring

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Alzheimer-vísindaheimurinn, sem er búinn að vera að eltast við lækningu við þessum sjúkdómi áratugum saman, er núna allur mjög uppveðraður út af þessum niðurstöðum,“ segir Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir og formaður Læknafélags Íslands, um jákvæðar niðurstöður rannsókna á nýja tilraunalyfinu lecanemab.

Alzheimer-sjúkdómurinn er oft tengdur við hækkandi aldur, en Steinunn segir hann þó ekki vera hluta af eðlilegri öldrun, þótt sjúkdómurinn sé miklu algengari hjá þeim sem eldri eru. Uppsöfnun svokallaðra mýlildis-próteina í heilanum er talin valda sjúkdómnum. Fyrstu einkenni eru yfirleitt skerðing á skammtímaminni en eftir því sem einstaklingar búa við sjúkdóminn lengur skerðir hann í auknum mæli vitræna getu og að lokum hreyfigetu.

Fyrsti alvöru möguleikinn

„Nýja lyfið er mótefni sem bindur próteinið og hreinsar það úr heilanum. Það hafa verið gerðar rannsóknir á svipuðum mótefnum sem hafa ekki gefið jafngóða raun og þetta virðist gera. Helstu sérfræðingar á þessu sviði telja nýja lyfið vera fyrsta raunverulega möguleikann á því að við séum að fá lyf sem gæti virkað á sjúkdóminn. Þannig að þessar fréttir eru gífurlega spennandi og mikið fagnaðarefni,“ segir Steinunn.

Bendir hún á að í rannsókninni sé unnið með sjúklinga sem hafa annars vegar fyrstu einkenni sjúkdómsins, fólk sem er með svokallaða væga vitræna skerðingu sem sé mælanleg, og hins vegar hóp sem kominn er lengra í sjúkdómnum og telst vera með væga heilabilun. „Í fyrri hópnum er fólk sem er komið með minnisvandamál en ekki þó svo mikil að það geti ekki bjargað sér. Í seinni hópnum er fólk sem er komið með meiri minnisvandamál sem eru farin að hafa áhrif á sjálfshjálpargetu þess.

En það verður örugglega horft til þess að gera fleiri stórar rannsóknir í framhaldinu, ekki síst á einkennalausu fólki sem er í mikilli áhættu að fá alzheimer út frá erfðum, og þá væri verið að skoða hvort lyfið seinkaði því að fyrstu einkenni kæmu fram í þeim hópi eða kæmi jafnvel alveg í veg fyrir þau.“

Hugsanleg flýtimeðferð

Vegna þess hve alzheimer er útbreiddur sjúkdómur má búast við að kapp verði lagt á að koma nýju lyfi sem fyrst á markað. Steinunn segir að fordæmi sé fyrir því í Bandaríkjunum, en fyrir einu og hálfu ári fékk lyfið aducanumab markaðsleyfi þar og fékk flýtimeðferð í gegnum bandarísku lyfjastofnunina vegna þess að neyðarástand þykir ríkja.

„Ég á von á því að það sama verði gert núna með þetta lyf, ekki síst þar sem það er með meira sannfærandi niðurstöður á bak við sig heldur en hitt lyfið var með þegar það var samþykkt og sett á markað,“ segir Steinunn. Um það sé þó erfitt að spá, því það sé gríðarlega flókið og strangt ferli að koma lyfi á markað. „En ef ekkert alvarlegt bakslag kemur og lyfið heldur áfram að standa sig vel í rannsóknum á maður von á því að það verði ekki mörg ár í að við fáum ný meðferðarúrræði við alzheimer-sjúkdómnum.“

Lyfið lecanimab

Tilraunir lofa mjög góðu

Í vísindaritinu New England Journal of Medicine voru á þriðjudaginn birtar niðurstöður rannsóknar á nýja tilraunalyfinu lecanemab sem ætlað er að hægja á hrörnun heilans, en lyfið var þróað af fyrirtækjunum Biogen og Eisai.

Úrtakið í rannsókninni var 1795 einstaklingar og fengu 898 þeirra lyfið lecanemab en 897 fengu lyfleysu. Rannsóknin stóð yfir í 18 mánuði og sýndu niðurstöður að lyfið hægði á heilahrörnun og þar með einkennum sjúkdómsins um 27% á tímabilinu og eru það þær niðurstöður sem vekja mikla von hjá fræðasamfélaginu.

Þegar aukaverkanir eru skoðaðar eru þær minniháttar og ganga fljótt yfir. 17,3 prósent þeirra sem fengu lyfið urðu fyrir örheilablæðingu, samanborið við 9 prósent hjá þeim sem fengu lyfleysu, og 12,6 prósent þeirra sem tóku lyfið fengu bjúg í heila, samanborið við 1,7 prósent þeirra sem fengu lyfleysu.