Spennt Natasha Anasi hæstánægð með keppnistreyju Brann eftir að hún skrifaði undir tveggja ára samning við Bergen-liðið í lok októbermánaðar.
Spennt Natasha Anasi hæstánægð með keppnistreyju Brann eftir að hún skrifaði undir tveggja ára samning við Bergen-liðið í lok októbermánaðar. — Ljósmynd/Brann
Íslenska landsliðskonan Natasha Anasi gekk til liðs við Noregsmeistara Brann í lok október og skrifaði undir tveggja ára samning. Natasha er fædd í Irving í Texas-fylki í Bandaríkjunum og hefur leikið á Íslandi samfleytt frá árinu 2014, fyrst með…

Fótboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Íslenska landsliðskonan Natasha Anasi gekk til liðs við Noregsmeistara Brann í lok október og skrifaði undir tveggja ára samning. Natasha er fædd í Irving í Texas-fylki í Bandaríkjunum og hefur leikið á Íslandi samfleytt frá árinu 2014, fyrst með ÍBV, þá Keflavík og loks Breiðabliki á síðasta tímabili. Hún fékk íslenskan ríkisborgararétt undir lok árs 2019 og hefur leikið fimm landsleiki fyrir Íslands hönd, þar sem Natasha hefur skorað eitt mark.

„Ég er virkilega spennt. Ég myndi segja að þetta séu skipti sem við fjölskyldan höfum verið að íhuga í nokkurn tíma. Ég var með tveggja ára samning við Breiðablik en þetta kom upp á meðan hann var í gildi. Þetta var alltaf eitthvað sem við fjölskyldan höfðum rætt, að ef eitthvað svona kæmi upp myndum við skoða það.

Svo var Breiðablik mjög indælt og höndlaði aðstæðurnar stórkostlega fagmannlega. Þegar tækifærið bauðst fundum við að þetta væru skipti sem væru rökrétt og kæmu á góðum tíma fyrir mig. Ég er afar spennt og það sakar ekki heldur að þetta eru Noregsmeistararnir,“ sagði Natasha í samtali við Morgunblaðið.

Snerist um réttan tímapunkt

Spurð um aðdragandann að félagaskiptunum til Brann sagði hún: „Það var áhugi sem kom upp á tímabilinu þegar ég var enn leikmaður Breiðabliks og ég sýndi því fulla virðingu. Ég veit að félögin ræddu saman eftir það þannig að þetta snerist allt saman um að finna rétta tímapunktinn til þess að ganga frá skiptunum.

Það þurfti að finna hvað myndi henta mér og hvað myndi líka henta félaginu því ég vildi ekki skilja Blika eftir í lausu lofti. Ég taldi það ekki sanngjarnt gagnvart þeim, hvorki liðsfélögum mínum né mér sjálfri. Ég átti góðar samræður við Sigga [Sigurð Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks] og umboðsmanninn minn og við fundum svo lausn á þessu.“

Hjálpar að spila á hærra stigi

Hún telur líklegt að það að ganga til liðs sterkt lið Noregsmeistara Brann hjálpi henni að vinna sér inn fleiri tækifæri með íslenska landsliðinu, en Natasha náði til að mynda ekki að brjóta sér leið í lokahópinn fyrir EM 2022 á Englandi.

„Að sjálfsögðu. Ég held að það hjálpi manni alltaf að spila á hærra stigi þegar kemur að því markmiði. Ég reyni alltaf að taka ákvarðanir um skipti sem henta mér vel. Að spila fyrir landsliðið er auðvitað stórfenglegur heiður, það er hápunkturinn.

Það sem ég einblíni á núna er að koma mér inn í liðið og spila fyrir nýja félagið mitt, ásamt öllu hinu sem fylgir því að vera nýr leikmaður. Vonandi opnar það fyrir fleiri tækifæri með landsliðinu. Við þurfum bara að sjá hvað gerist. Ég trúi því sannarlega að þessi skipti geti hjálpað til við það en við skulum bíða og sjá.“

Ótrúlega gott að hafa Svövu

Fyrir hjá Brann er íslenska landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir, sem vann tvöfalt með Brann á síðasta tímabili. Natasha er þess fullviss að það að hafa annan Íslending með sér komi til með að hjálpa henni mikið.

„Alveg klárlega. Við höfum orðið ansi góðar vinkonur í öllum landsliðsverkefnunum sem við höfum verið saman í. Það er ótrúlega gott að hafa einhvern sem maður getur spurt milljón spurninga um staðinn sem maður er að flytja til, æfingar og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig.

Hún er algjör lykill fyrir mig, dásamleg vinkona til að leita til. Ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa manneskju sem getur hjálpað mér að aðlagast nýju umhverfi og að líða betur við að koma á nýjan stað.“

Verður svolítið púsluspil

Unnusti Natöshu er Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Íslandsmeistara Njarðvíkur í körfuknattleik kvenna, og saman eiga þau tvö börn. Þar sem leikið er á veturna í körfuboltanum á Íslandi lék blaðamanni forvitni á að vita hvernig fjölskyldan muni fara að þegar Natasha heldur til Bergen í Noregi til þess að hefja undirbúningstímabilið með Brann.

„Ég held að þetta sé spurning sem fjöldi fólks hefur verið að velta fyrir sér! Þetta verður svolítið púsluspil. Öll fjölskyldan flytur vitanlega ekki út með mér strax, ég fer fyrst ein. Svo munum við fara svolítið fram og til baka, sérstaklega með börnin.

Við eigum fjölskyldumeðlimi sem eru reiðubúnir að fara fram og til baka með börnunum og ef þeir geta dvalið örlítið lengur gera þeir það. Þetta verður púsluspil. Við sjáum hvernig þetta kemur til með að ganga og vinnum svo út frá því,“ sagði hún.

Ég líklega meira tvístígandi

„Ég hef alltaf sagt að ég hafi viljað svona skipti og það hefur verið draumur minn að spila á þessu stigi. Þegar að því kemur að ég hætti að spila fótbolta þá vildi ég forðast það að líða sem ég hafi ekki gert jafnmikið og ég vildi gera í fótbolta.

Ég var líklega sú sem var meira tvístígandi, Rúnar tók af skarið og var tilbúinn í þetta. Hann var svo spenntur og sagði við mig: „Ekki hafa áhyggjur, við látum þetta ganga upp“,“ sagði Natasha glaðbeitt að lokum.