[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, spurð á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær um hvort eðlilegt hefði verið að Bjarni Benediktsson,…

„Það er mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, spurð á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær um hvort eðlilegt hefði verið að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gæti tekið ákvörðun um heildarsöluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Katrín sat fyrir svörum hjá nefndinni auk Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra.

Katrín sagði aðkomu náins ættingja vekja spurningar í litlu samfélagi eins og Íslandi og bætti við að ríkisstjórnin hefði ekki endilega séð fyrir að slík náin tengsl yrðu uppi á borði í kaupendalistanum.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði frekar út í traust og ásýnd gagnvart almenningi í tengslum við söluna og hvort Bjarni hefði ekki átt að skoða þessa hluti betur.

Katrín sagði Bjarna bera ábyrgð gagnvart ferlinu og að það væri málefnalegt. Hann hefði haft almenna rannsóknarskyldu en ekki skyldu til að fara yfir þá 150 til 200 fjárfesta, nöfn og kennitölur þeirra, til að athuga með tengslin. Kaupendalistinn hefði ekki verið lagður fram fyrir hann og honum hefði ekki verið kunnugt um hverjir voru á honum. Hún sagði fjármálaráðherra hafa haft þá valkosti að taka afstöðu til þess sem Bankasýslan lagði fram í sínu mati með því að samþykkja það eða hafna því. Lög hefðu verið sett til að tryggja sjálfstæði Bankasýslunnar gagnvart stjórnmálamönnum.

Lilja sagði það hafa komið ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar í opna skjöldu að kaupendalistinn vegna sölu bankans var ekki birtur á sínum tíma.

„Ég skal viðurkenna það að ég hafði ekki hugmyndaflug í það. Það er algjört grundvallaratriði þegar er verið að selja eigur fólksins í landinu að kaupendalistinn liggi fyrir,“ sagði hún á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gærmorgun. Annars ríki vantraust á milli ráðherranefndarinnar og Bankasýslunnar.

Þegar hún sá síðan kaupandalistann sagði hún að fokið hefði í sig vegna fagfjárfestanna sem þar voru og að sumir hefðu keypt fyrir „tiltölulega lágar upphæðir“. „Það bara fauk mig,“ sagði hún og bætti síðar við: „Maður hefði viljað að um leið og það var búið að ganga frá sölunni væri kaupendalistinn birtur.“