Garðabær Mikill og ör vöxtur hefur verið í bæjarfélaginu undanfarin ár og gert ráð fyrir frekari vexti hin næstu.
Garðabær Mikill og ör vöxtur hefur verið í bæjarfélaginu undanfarin ár og gert ráð fyrir frekari vexti hin næstu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar fjárfestingar eru áformaðar í Garðabæ á komandi ári með það að markmiði að efla bæði vöxt og velferð í bæjarfélaginu. Almar Guðmundsson, bæjarstjóri og oddviti meirihluta sjálfstæðismanna, segir í samtali við Morgunblaðið að sem fyrr sé byggt …

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Miklar fjárfestingar eru áformaðar í Garðabæ á komandi ári með það að markmiði að efla bæði vöxt og velferð í bæjarfélaginu. Almar Guðmundsson, bæjarstjóri og oddviti meirihluta sjálfstæðismanna, segir í samtali við Morgunblaðið að sem fyrr sé byggt á traustri fjármálastjórn og sterkri fjárhagsstöðu bæjarins, sem gefi svigrúm til nauðsynlegra og æskilegra fjárfestinga. Það sé gert um leið og álögum sé stillt í hóf, en miðað er við að útsvarið verði áfram 13,7%, sem er hið lægsta meðal stærri sveitarfélaga. Eins verður fasteignasköttum hagrætt til mótvægis við ört hækkandi fasteignamat.

Fjárhagsáætlun verður tekin til síðari umræðu í bæjarstjórn Garðabæjar kl. 17.00 í dag, svo endanleg niðurstaða fjárhagsáætlunarinnar liggur ekki fyrir, en ólíklegt má telja að á tillögunni verði gerðar verulegar breytingar.

„Það er mikil áhersla á fjárfestingu og framkvæmdir hjá okkur,“ segir Almar. „Það má segja að það sé þríþætt. Í fyrsta lagi að fjárfesta í skólum, leikskólum og gatnagerð í nýjum hverfum. Í öðru lagi hyggjumst við leggja í miklar endurbætur á húsnæði og lóðum í eigu sveitarfélagsins, ekki síst skólunum. Í þriðja lagi viljum við fjárfesta í umhverfi og sjálfbærni, en þar er fyrirferðarmest stórt fráveituverkefni, sem í fyllingu tímans endar með hreinsistöð á Álftanesi.“

Almar segir Garðabæ ávallt hafa búið að skynsamlegri fjármálastjórn og að á því verði ekki breyting. „Skuldahlutfallið okkar er lægra en hjá flestum sambærilegum sveitarfélögum. Veltufé frá rekstri og sjóðstreymi er sterkara en annars staðar. Því fylgi geta til fjárfestinga og minni þörf til lántöku. Við vökum yfir þessu, því að þetta gefur okkur tækifæri til þess að hafa lágar álögur á íbúana, við erum í 13,7% meðan öll önnur stærri sveitarfélög eru alveg við lögleyft hámarksútsvar sem er 14,52%. Þetta skilar meðal-Garðbæingnum 60 þúsund krónum í vasann og munar um minna.“ Sömuleiðis lækka fasteignagjöldin, svo þau þyngjast ekki þrátt fyrir hærri fasteignamatsstofn og verðbólgu.

„Hin hliðin á peningnum er sú, að þessi góði fjárhagur gerir okkur kleift að fara í þessar fjárfestingar og framkvæmdir, geta staðið myndarlega að vextinum og haldið þjónustustiginu góðu um allan bæ, bæði í nýjum hverfum og gömlum.“

Hann segir það líka sjást vel í fjárhagsáætluninni að þar er áhersla lögð á þjónustu sem miklu skiptir, þó það séu ekki endilega stærstu tölurnar. „Við erum t.d. að innleiða menntastefnu með mjög myndarlegum framlögum, sem tengist líka þjónustu við börnin, börn með frávik, meiri þjónustuþörf og fleiru. Eins í velferðinni, sem við höfum lagt æ meiri áherslu á. Við erum t.d. að byggja búsetukjarna fyrir fatlað fólk í Brekkuási og þessi málaflokkur tekur vel til sín.“ Eins megi nefna endurbætur á Garðatorgi, aukna menningarstarfsemi og meira líf í bættum miðbæjarkjarna.

Allt snúi það að auknum lífsgæðum í bænum, sem felist bæði í framkvæmdum og þjónustu í vaxandi bæjarfélagi.

Garðabær

Vellíðan og lífsgæði

Almar Guðmundsson bæjarstjóri segir að fjárhagsáætlunin eigi bæði að miða að verklegum þáttum í rekstri bæjarins og hinum mannlegu, markmiðið sé vitaskuld að stuðla að góðu mannlífi með vellíðan og lífsgæði bæjarbúa að augnamiði. Það hafi tekist vel til þessa samkvæmt bæði tölulegum mælikvörðum og könnun á ánægju fólks.

Hann segir að haldið verði áfram á þeirri braut og tillaga meirihlutans að fjárhagsáætlun geri því áfram ráð fyrir lágum álögum en á sama tíma traustum og ábyrgum rekstri, sem gefi bænum svigrúm til þess að vaxa og dafna.

„Í áætluninni er lögð áhersla á fjárfestingu í mannauði og mannvirkjum. Uppbygging þjónustu og innviða hefur verið metnaðarfull í Garðabæ og við viljum halda áfram í sömu átt,“ segir Almar.

Hann segir afkomuna jákvæða í erfiðu efnahagsumhverfi, en nú sem fyrr sé horft til þess hvernig hagræða megi í rekstri. „Okkur er treyst fyrir fjármunum bæjarbúa og okkur ber skylda til að nýta þá vel.