Gunnar Tryggvason
Gunnar Tryggvason
Stjórn Faxaflóahafna hefur samþykkt að ráða Gunnar Tryggvason sem hafnarstjóra. Hann hefur gegnt stöðu aðstoðarhafnarstjóra síðan 1. september 2019. Þetta er gamalgróið embætti því fyrsti hafnarstjórinn í Reykjavík, Þórarinn Kristjánsson verkfræðingur, tók til starfa 1918 og gegndi embættinu í 25 ár

Stjórn Faxaflóahafna hefur samþykkt að ráða Gunnar Tryggvason sem hafnarstjóra. Hann hefur gegnt stöðu aðstoðarhafnarstjóra síðan 1. september 2019.

Þetta er gamalgróið embætti því fyrsti hafnarstjórinn í Reykjavík, Þórarinn Kristjánsson verkfræðingur, tók til starfa 1918 og gegndi embættinu í 25 ár. Sameinað fyrirtæki hafnanna, Faxaflóahafnir, tók til starfa 1. janúar 2005, og er Gunnar þriðji hafnarstjóri þess félags. Gísli Gíslason var fyrstur en Magnús Þór Ásmundsson tók við af honum.

Sjö umsóknir bárust að þessu sinni. Stjórn Faxaflóahafna byggði ákvörðun sína á tillögu ráðgefandi hæfnisnefndar, sem mælti einróma með ráðningu Gunnars í stöðuna. Hann hefur verið starfandi hafnarstjóri síðan í maí sl.

Gunnar Tryggvason er 53 ára gamall, menntaður sem rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands og háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi. Þá er hann einnig með diplómagráðu í rekstri og fjármálum frá Háskóla Íslands.

Gunnar starfaði fyrstu sjö ár starfsævinnar sem verkfræðingur en frá 2008 til 2019 starfaði Gunnar við fjármál fyrirtækja, lengst af hjá KPMG sem framkvæmdastjóri. Gunnar hefur víðtæka stjórnunarreynslu og hefur unnið að verkefnum víðs vegar um heim.

Hann hefur auk þess reynslu af störfum á opinberum vettvangi en hann starfaði árið 2012 sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Auk þess hefur Gunnar fengist við kennslu og ýmis nefndarstörf fyrir hið opinbera.

Gunnar er alinn upp í kringum útgerð og fiskvinnslu á landsbyggðinni og stundaði sjómennsku töluvert á námsárum. Hann situr í stjórn Landsvirkjunar, sinnir félagsstörfum í íþróttahreyfingunni, er kjörræðismaður Tyrklands á Íslandi og rekur stórt heimili með eiginkonu sinni, Úlfhildi Leifsdóttur tannlækni. sisi@mbl.is