Bardagar Úkraínskur hermaður fylgist hér með eldflaugavagni hefja skothríð á víglínu Rússa í fyrradag.
Bardagar Úkraínskur hermaður fylgist hér með eldflaugavagni hefja skothríð á víglínu Rússa í fyrradag. — AFP/Anatolii Stepanov
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að ESB myndi leggja til að settur yrði upp sérstakur stríðsglæpadómstóll innan sambandsins með stuðningi Sameinuðu þjóðanna til þess að rannsaka þá „glæpi gegn friðnum“ (e. crimes of aggression) sem rússnesk stjórnvöld hefðu framið með því að hefja innrás sína í Úkraínu og sækja hina ábyrgu til sakar.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að ESB myndi leggja til að settur yrði upp sérstakur stríðsglæpadómstóll innan sambandsins með stuðningi Sameinuðu þjóðanna til þess að rannsaka þá „glæpi gegn friðnum“ (e. crimes of aggression) sem rússnesk stjórnvöld hefðu framið með því að hefja innrás sína í Úkraínu og sækja hina ábyrgu til sakar.

Úkraínsk stjórnvöld hafa kallað eftir slíkum dómstól í nokkurn tíma, og sagði Andrí Jermak, einn helsti ráðgjafi Selenskís Úkraínuforseta, í gær að Úkraínumenn fögnuðu tillögunni. „Rússar munu gjalda fyrir glæpi sína og eyðileggingu. Þeir munu ekki forðast það,“ sagði Jermak á samfélagsmiðlum sínum í gær.

Tillagan á rót sína í þeirri staðreynd að alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur ekki lögsögu yfir þeim glæpum sem Rússar kunna að hafa framið „gegn friði“ með því að hefja innrásina, þar sem Rússland er ekki aðili að dómstólnum.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur því einungis lögsögu yfir einstökum stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni sem framdir eru í Úkraínu, en sú lögsaga nær ekki til þeirra í æðstu lögum rússneska stjórnkerfisins sem tóku ákvarðanir um að hefja stríðið, þar sem þeir njóta friðhelgi meðan þeir sitja í embætti, nema öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki að dómstóllinn geti skorið úr um lögmæti innrásarinnar.

Kanna nýtingu eigna

Þar sem Rússar hafa neitunarvald í öryggisráðinu er ólíklegt að slík tillaga fengi samþykki, og því hefur von der Leyen lagt til þessa leið, að setja upp dómstól í Evrópusambandsríki, sem geti fjallað um hvort efnt hafi verið til innrásarinnar með lögmætum hætti samkvæmt alþjóðalögum. Hollensk stjórnvöld, sem nú þegar hýsa alþjóðlega sakamáladómstólinn í Haag, hafa boðist til þess að hýsa hinn nýja dómstól, verði hann settur á fót.

Evrópusambandið er einnig að kanna leiðir til að nýta þær eignir Rússa, sem hafa verið frystar, til að aðstoða við uppbyggingu Úkraínu eftir að stríðinu lýkur. Sérfræðingar framkvæmdastjórnarinnar segja hins vegar að lagalegar hindranir þýði að líklega sé einungis hægt að nýta fjármagn sem stýring eignanna gefur af sér, frekar en eignirnar sjálfar.

Eldur í olíubirgðastöð

Olíubirgðastöð í Bríansk-héraði Rússlands, sem liggur að landamærunum við Úkraínu, varð í gær alelda, en grunur leikur á að um drónaárás hafi verið að ræða. Þakti eldsvoðinn um 1.800 ferkílómetra og þurfti rúmlega 80 manns til að slökkva í honum. Alexander Bogomas, héraðsstjóri í Bríansk-héraði, sagði að enginn hefði farist í eldsvoðanum.

Harðir bardagar voru áfram í nágrenni við Bakhmút, sem Rússar hafa lagt allt kapp á að hertaka síðustu mánuði, en án árangurs. Í gær sögðust þeir hafa tekið tvö þorp í nágrenni borgarinnar, en ekki var hægt að staðfesta þá yfirlýsingu í gær.

Þá særðist öryggisvörður í sendiráði Úkraínu í Madrid í gær, þegar hann var að opna umslag sem ætlað var sendiherra landsins á Spáni. Reyndist bréfasprengja vera í umslaginu og ætla úkraínsk stjórnvöld að efla öryggisgæslu við sendiráð sín í kjölfarið. Öryggisvörðurinn særðist ekki illa, og fór hann sjálfur á sjúkrahús til að leita sér meðferðar við sári á hægri hendi að sögn lögreglunnar í Madrid, sem hefur nú málið til rannsóknar.

Vilja sjá frekara framsal

Mevlut Cavusoglu sagði í gær að hin nýja ríkisstjórn Svíþjóðar vildi gera meira en hin gamla til að svara þeim áhyggjum sem tyrknesk stjórnvöld hafa, en Tyrkir hafa sakað norrænu ríkin tvö um að skjóta skjólshúsi yfir hópa Kúrda, sem þeir saka um að vera viðriðnir hryðjuverkastarfsemi. Enn væri hins vegar nokkuð í land áður en Tyrkir gætu samþykkt aðildarumsókn Svía að Atlantshafsbandalaginu.

„Yfirlýsingar [Svía] eru góðar, ákveðni þeirra er góð, en við þurfum að sjá ákveðin skref,“ sagði Cavusoglu í gær og nefndi þar sem dæmi framsal á meintum glæpamönnum til Tyrklands og frystingu eigna sem tengist hryðjuverkastarfsemi.

Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði að hann teldi að málið væri að þokast í rétta átt. „Við erum að halda áfram að uppfylla hið þríhliða minnisblað sem var undirritað í Madrid,“ sagði Billström og vísaði þar til samkomulags Tyrkja við norrænu ríkin, sem leiddi til þess að Svíar og Finnar gátu hafið aðildarferlið á leiðtogafundi bandalagsins í sumar.