Til samanburðar Fokið var í flest skjól Sveins þegar hann reif sig upp, fór í aðgerð og breytti algjörlega um takt í lífi sínu.
Til samanburðar Fokið var í flest skjól Sveins þegar hann reif sig upp, fór í aðgerð og breytti algjörlega um takt í lífi sínu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta byrjaði með því að ég var farinn að fá bakverki og þrengingu í mænugöngum og var að lokum orðinn svo slæmur í bakinu að ég átti erfitt með gang,“ segir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson sem sneri blaðinu við, létti sig um hátt í hundrað kílógrömm og …

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Þetta byrjaði með því að ég var farinn að fá bakverki og þrengingu í mænugöngum og var að lokum orðinn svo slæmur í bakinu að ég átti erfitt með gang,“ segir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson sem sneri blaðinu við, létti sig um hátt í hundrað kílógrömm og fæst nú við að aðstoða fólk sem er í sömu, eða svipuðum, sporum og hann var á sínum tíma.

Þegar sem verst lét gekk Sveinn við hækjur án þess að nokkurt slys hefði orðið og sá dagur kom að hann sá sængina frægu upp reidda. „Ég hugsaði með mér að ég yrði að gera eitthvað og þá fór ég bara í ferli með heimilislækninum og endaði í magahjáveituaðgerð,“ segir Sveinn frá.

Aðgerðin var á dagskrá í mars 2020 en varla þarf að minna nokkurn mann á þá skemmtun sem skall á heimsbyggðinni um það leyti og skyndilega var allt stopp í kórónufaraldri. Aðgerð Sveins frestaðist um hálft annað ár svo þá var ekki annað í stöðunni en að gera það besta úr því.

Ætlaði ekki að klára svona

„Ég fór þá að vinna í því að létta mig,“ segir Sveinn sem á þessum tíma var 170 kíló að þyngd og daglegt líf ekki alltaf auðvelt. Hér verður þó að geta þess að svo víðreist hefur Sveinn gert á skalanum að þegar hann var sem þyngstur, fyrir áratug, vó hann 199 kíló en tók sig til og létti sig um 100 kíló með gríðarlegu átaki. Með tímanum seig svo á ógæfuhliðina aftur.

„Ég byrjaði bara að bæta á mig og svo eldist maður og hægist á öllu og svo átta ég mig á því, 49 ára gamall, að ég er bara orðinn allt of þungur,“ rifjar Sveinn upp sem í dag er 51 árs. „Þá ákvað ég það í eitt skipti fyrir öll að ég ætlaði ekki að klára þetta svona, það kom bara ekki til greina.“

Loks kemur að aðgerðinni langþráðu, 7. september 2021. Í kjölfarið fylgdi óvissutímabil í stað léttis. „Þarna vantar alla eftirfylgni,“ segir Sveinn frá, útskrifaður heim og vissi ekki almennilega hvernig hann ætti að lifa þessu nýja lífi sínu eftir aðgerðina. „Ég fékk sýkingu og lenti í ýmsum byrjunarörðugleikum en fer svo í það markvisst að ganga og hreyfa mig og æfa og síðan eru liðin 55 kíló,“ segir hann.

Að ýmsu öðru var þó að hyggja en tölunni á vigtinni. „Maður þarf að passa að gera þetta þannig að húðin fylgi með þegar maður grennist, hún hrökkvi ekki bara af og maður verði eins og bráðið kerti. Margir lenda í því og þess vegna þarf að gæta þess að æfa vel samhliða því sem maður tapar þyngd,“ segir Sveinn sem lyftir lóðum í Jakabóli þrisvar til fimm sinnum í viku.

Eins hyggur hann vel að mataræði sínu, tekur vítamín og fylgist með ástandi líkamans gegnum blóðprufur. „Ég er einmitt að fara í fyrramálið. Kólesterólið mælist varla hjá mér, sykurinn er fínn og ég þarf ekki blóðþrýstingslyf,“ segir Sveinn, kominn langan veg frá því að ganga við hækjur með stöðuga bakverki.

Hinn vantrúaði dr. Lóderer

Sem fyrr segir telur Sveinn eftirfylgni, í kjölfar aðgerða á borð við þá sem hann gekkst undir, ábótavant á Íslandi og hafi hann því farið að kynna sér málin og hvaða möguleikar væru í stöðunni. Lyktaði þeim rannsóknum með því að Sveinn er nú kominn í samstarf við Szent Magdolna-sjúkrahúsið í Búdapest og dr. Zoltán Lóderer sem ásamt læknateymi þar sérhæfir sig í efnaskiptaaðgerðum á borð við magahjáveitu og magaermi.

„Ég átti fund með eiganda sjúkrahússins og sérfræðilæknunum. Þegar dr. Lóderer hitti mig trúði hann því varla að ég hefði náð svo góðum árangri sem raun bar vitni og samvinna okkar var því hvatning til að hjálpa fólki sem er í ofþyngd,“ segir Sveinn af samstarfi sínu við hina ungversku.

Hann er á leið til Búdapest í janúar með nokkra Íslendinga í aðgerðir. „Kona í því holli sagði einmitt við mig að það sem heillaði hana væri að hún fengi að vera á spítalanum í eftirfylgni í fjóra-fimm daga á eftir. Hér ertu bara skorinn upp og sendur heim daginn eftir,“ lýsir Sveinn sem sjálfur var í lausu lofti eftir eigin aðgerð og þurfti stuðning sem ekki fékkst vegna plássleysis í íslensku heilbrigðiskerfi.

Sveinn hefur verið ósínkur á ráðgjöf til þeirra sem hana hafa þurft, þann tíma sem hann hefur staðið í sinni baráttu við kílóin, og það spyrst út. Maður þekkir mann og fólk hefur leitað til Sveins með vandræði sín.

Þreyttir á XL-búðinni

„Ég hef bara verið að hjálpa fólki og það hefur samband við mig, karlmenn sérstaklega,“ segir Sveinn frá. „Þetta er oft feimnismál hjá karlmönnum, þeir eru of þungir og eiga erfitt með að fá föt á sig og ýmislegt annað. Sumir eru orðnir þreyttir á að fara alltaf í XL-búðina í Smáralindinni og eins einangrast menn kannski félagslega og þetta fer á sálina,“ segir Sveinn hreinskilnislega.

Hann segir dýrmætt að vera að hefja þá vinnu sem hann nú er að leggja út í í samstarfi við ungverska sjúkrahúsið. Margir þurfi hreinlega aðstoð. „Ég fékk þá aðstoð á vissan hátt, en þegar ég kom úr aðgerðinni þurfti ég miklu meiri stuðning en ég fékk. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvernig ég gæti lagt mitt lóð á vogarskálarnar og þetta varð útkoman. Þú þarft að byggja það upp hjá einstaklingnum að hann vilji og geti,“ segir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson að lokum og má kannski segja að honum sé létt. Í bókstaflegri merkingu.