Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson
„Það er auðvitað betri kostur að framkvæma allar þær aðgerðir sem hægt er innan lands. Það er ekki góð nýting á almannafé að greiða fyrir aðgerðir erlendis vegna langra biðlista hérlendis. Það eru allir sammála um það

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Það er auðvitað betri kostur að framkvæma allar þær aðgerðir sem hægt er innan lands. Það er ekki góð nýting á almannafé að greiða fyrir aðgerðir erlendis vegna langra biðlista hérlendis. Það eru allir sammála um það. Það er því unnið hörðum höndum að því í heilbrigðisráðuneytinu að vinda ofan af þessari þróun,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Hann var spurður hvort það væri æskileg þróun að það stefndi í að fjöldi umsókna um læknisaðgerðir erlendis tvöfaldist á milli ára, samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ).

Willum segir að biðlistar í heilbrigðiskerfinu hafi lengst í heimsfaraldrinum og bið eftir ákveðnum aðgerðum sé orðin mun lengri en æskilegt er. Það sé því mikilvægt að allir aðilar í heilbrigðiskerfinu vinni að sama markmiði: Að allir hafi jafnt aðgengi að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.

„Það þarf að nýta allt heilbrigðiskerfið og velta öllum steinum til þess að vinna á biðlistum og hefur undirbúningur þess efnis verið í forgangi í heilbrigðisráðuneytinu undanfarið. Það er líka mikilvægt að við undirbúum kerfið til framtíðar þannig að við lendum ekki í sömu stöðu. Við viljum sjá heilbrigðiskerfi þar sem þarfir þjóðarinnar eru hafðar að leiðarljósi. Ríkið verði öflugur þjónustukaupandi þar sem samið verður um verð, magn og gæði á þann hátt að allir geti gengið sáttir frá borði. SÍ eru nú þegar búnar að semja við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu og margt annað er á teikniborðinu.“

Stend með heilbrigðiskerfinu

En sér heilbrigðisráðherra fram á að hægt verði að liðka fyrir því að fleiri aðgerðir verði framkvæmdar hér á landi í náinni framtíð fremur en að íslenskir sjúklingar þurfi að leita sér læknishjálpar erlendis? Hvenær má reikna með að það geti gerst?

„Já það er hægt að efla þjónustuna og framkvæma fleiri aðgerðir með því að taka höndum saman um það. Ríkisstjórnin hefur sýnt það í verki að hún stendur með heilbrigðiskerfinu,“ segir Willum.

„Veruleg aukning á fjármunum til heilbrigðiskerfisins í fjárlagafrumvarpinu milli umræðna ber þess skýrt merki. Er hluti þeirra ætlaður til þess eins að vinna niður biðlista í heilbrigðiskerfinu. Unnið er að því virkja allt kerfið. Nú förum við fljótlega að sjá árangur af þessum samtakamætti.“

Höf.: Guðni Einarsson